151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[18:51]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og ég get tekið undir það heils hugar. En við skulum líka átta okkur á því að við höfum lítið gert, eins og fram kemur hjá okkur báðum, í því að skoða rót vandans. Hvernig væri að byrja á því að líta til þess að UNICEF var að gefa út skýrslu um stöðu íslenskra barna? Þar erum við svo lánsöm að við skorum einna hæst af Evrópuþjóðum um aðgengi að menntun en í raun og veru er ekki krufið hver árangurinn er af slíku aðgengi. Það eina sem við vitum er að lestrarvandi ungmennanna okkar fer vaxandi. Fyrir síðustu kosningar var mikið talað um og hefur verið talað um á þingi núna að yfir 30% drengja glími við lesvanda, ýmist lélegan lesskilning eða eru nánast ólæsir og nú er vöxtur í því hjá ungum stúlkum, þær séu að nálgast drengina hvað það varðar. Það segir sig sjálft að ungmenni sem eftir tíu ára grunnskólanám kemur út í samfélagið með lélegan lesskilning eða illa læst á ekki mikla framtíð í menntamálum, hvort sem það er framhaldsskólum eða öðru. Þessi einstaklingur er jaðarsettur, hann er jaðarsettur í samfélagi sem krefst í rauninni menntunar og við erum með svona frábært aðgengi að henni.

Við verðum að gera eitthvað vegna þess að þetta er að mínu mati ein af þeim rótum sem við þurfum að rífa upp og við þurfum að laga þetta því það veldur andlegri vanlíðan. Það er ástæða fyrir því að 9% ungmenna eru með sjálfsvígshugsanir. Hver er ástæðan? Við þurfum að kryfja þessa hluti betur. Við getum gert betur. Við megum ekki gleyma okkur í einhverju öðru. Við verðum að taka utan um þennan þjóðfélagshóp og við verðum að gera það strax. Ástandið blasir við okkur. Alvarleikinn blasir við okkur og það er núna, virðulegi forseti.