151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[18:57]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Við höfum í dag rætt þingsályktunartillögu, fjármálaáætlun næstu fimm ára, í síðari umræðu. Umræðan hefur um margt verið ákaflega áhugaverð, raunverulega góð. Það segi ég ekki til að kveinka mér undan gagnrýni sem ríkisstjórnarmeirihlutinn fær, sem birtist vissulega í nefndarálitum og ræðum stjórnarandstæðinga í dag, heldur miklu frekar til að nefna að hér hefur verið lögð fram uppbyggileg gagnrýni. Uppbyggileg gagnrýni er alltaf betri en niðurrif. Fyrir það vil ég þakka.

Við erum í fyrsta sinn, svo maður gerist nú kerfislægur í tali, virðulegur forseti, að klára kjörtímabil inni í gildandi lögum um opinber fjármál sem gilt hafa frá 2015. Ég held að ég sé ekki að fara með fleipur, virðulegi forseti, þegar ég segi að ríkisstjórnin sé í fyrsta sinn að ljúka kjörtímabili með öllu því ferli sem lögin um opinber fjármál innifela, fjármálastefnu, síðan fjármálaáætlun á hverju ári og loks fjárlagagerð.

Vegna sérstakra aðstæðna sem ekki þarf að rekja hér, og búið er að vitna oft til þess ástands sem hefur verið undanfarin ár á Íslandi, og hæstv. formaður fjárlaganefndar rakti það ágætlega í framsögu sinni, er þingsályktunartillaga um fjármálaáætlun fyrir næstu fimm ár lögð fram með þessum hætti, þ.e. fyrst og fremst sem skjal um stöðu efnahagsmála. Það eru einungis rétt um sex mánuðir síðan við samþykktum fjármálaáætlun til fimm ára, það var gert rétt fyrir áramótin. Við frestuðum því í fyrra vegna ástandsins í samfélaginu og þeirra ráðstafana sem þá var gripið til. Þess vegna erum við með fjármálaáætlun með þessum hætti og eðlilega hefur það að einhverju leyti verið gagnrýnt. En ég held að það sé hins vegar óumflýjanlegt, við þær óvenjulegu aðstæður sem eru núna, að ganga fram með þessum hætti. Stefna og markmið og stefnuskjölin og þau sem við höfum kannski með hefðbundnum hætti rætt á þessum tíma eru að víkja meira fyrir umræðu um efnahagsmál.

Umræðu um efnahagsmál er ákaflega hollt að taka á þessum tímapunkti. Ég hef komið inn á það í andsvörum í dag að mælikvarða — við erum oft að sækjast eftir að geta haft skýra mælikvarða á árangur og athafnir — má auðveldlega setja á þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur gripið til á undanförnum mánuðum. Fyrir rúmu ári stóðum við frammi fyrir spám um mikinn efnahagssamdrátt, lækkandi tekjum ríkissjóðs, minnkandi landsframleiðslu, og þegar við horfum á stöðuna sem er í dag frá þeim sjónarhóli þar sem við ræðum um ríkisfjármálin í dag sjáum við að þarna á milli hefur mikið breyst og það er fyrst og fremst vegna þess að við höfum gripið til markvissra aðgerða. Kjarninn í þessum efnahagsaðgerðum og þessari efnahagsstefnu er, virðulegi forseti, að við erum að láta hina sjálfvirku sveiflujafnara virka, sem grípa af fullum þunga þær breytingar sem verða í samfélaginu, sem eru þá fyrst og fremst tilfærslugjöld vegna atvinnuleysisbóta, og beitum skattkerfinu til stuðnings o.s.frv., ég rek það ekki nánar.

Í öðru lagi er kjarni efnahagsstefnu okkar þessa mánuði umfangsmiklar mótvægisaðgerðir vegna heimsfaraldurs. Það segir hér í nefndaráliti meiri hlutans, virðulegi forseti:

„Á útgjaldahlið ríkissjóðs nema mótvægisaðgerðirnar samtals um 186 ma.kr. Einnig eru nokkrar aðgerðir á tekjuhlið ríkissjóðs og ber þar hæst aukna endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna framkvæmda. Samtals nema því mótvægisaðgerðir 2020 og 2021 um 209 ma.kr. og er þá búið að taka tillit til þess að nú er áætlað að viðspyrnustyrkir verði ekki nýttir í þeim mæli sem þá var áætlað.“

Þetta er aðeins lítill vitnisburður um umfang þeirra aðgerða sem við höfum gripið til.

Í þriðja lagi, virðulegi forseti, er kjarni í þeim efnahagsaðgerðum sem við höfum verið að beita undanfarna mánuði að viðhalda þeim árangri sem náðst hefur í velferðarmálum og innviðauppbyggingu á starfstíma ríkisstjórnarinnar. Með þessum gleraugum ber að horfa á fjármálaáætlunina sem við ræðum hér í dag. Það er mjög vel rakið í töflu sem meiri hluti fjárlaganefndar birtir í áliti sínu hvernig útgjaldaþróunin hefur verið. Þar er líka sýnt fram á að alla vega sú viðreisn velferðarkerfisins sem þessi ríkisstjórn tók í fangið, stórhækkuð framlög vegna ýmissar innviðauppbyggingar og vegna eflingar mennta- og heilbrigðiskerfis, er varin út í gegnum þessa kreppu.

Þetta vildi ég draga fram á þessari stundu vegna þess að það er mikilvægt að við missum ekki sjónar á því að við upphaf kjörtímabilsins var komið hér að ákveðnu verki. Stefnu var hrint í framkvæmd og hún hefur verið varin út í gegn þó að á fjörur okkar hafi rekið skyndilega kreppu sem við höfum verið að feta okkur út úr. Ég held að fólk lái það engum, virðulegur forseti, að við höfum kannski oft og tíðum deilt um leiðir og aðferðir og hvort þessi aðferð hafi verið rétt eða röng eða að hún hafi virkað, þegar við lendum í slíku róti sem við lentum í.

En þá er að vísa til, og við fjöllum um það í nefndaráliti okkar, úttekta ýmissa alþjóðastofnana, bæði AGS og OECD, sem draga fram umfang aðgerða hins opinbera á Íslandi til að verja efnahagslega stöðu og styrkleika efnahagslífsins, því að það mun ráða þegar nú loksins birtir til, eða, eins og við vonum, að nú fari að sjá fyrir endann á hörðustu glímunni við þennan faraldur, að við förum að ná vopnum okkar á ný og hér fari efnahagslífið aftur að rísa, atvinnulífið að taka við sér. Í grunnspá fyrir þessa fjármálaáætlun er spáð um 2,6% hagvexti á þessu ári. Við sjáum hins vegar líka, virðulegi forseti, að þær spár sem lágu til grundvallar fjárlögunum sem sett voru fyrir þetta ár eru að því leyti ekki að ganga eftir að það virðist vera meiri þróttur í efnahagslífinu og ef við lítum á tekjustreymi ríkissjóðs eru að skila sér meiri tekjur. Allt er þetta gleðilegt og segir okkur einfaldlega að hér sé meiri þróttur, meiri kraftur til að byggja á.

Eðlilega hefur verið rætt í dag um atvinnuleysi. Við búum hins vegar við það í slíkri áætlunargerð sem við erum að ræða hér í dag að við erum með framreikning, þurfum að styðjast við gögn sem eru þannig undirbyggð að við byggjum á framreikningi, og þess vegna mátti alveg finna fót fyrir þeirri gagnrýni sem kom fram á ríkisstjórnarmeirihlutann í dag í umræðum um fjármálaáætlun, að þetta væri stefna um atvinnuleysi, að hér væri horft fram á mikið atvinnuleysi á næstu árum. Að því marki má segja já, það er rétt, vegna þeirra aðferða sem við reiknum forsendur þessara áætlana og fjárlaga á hverju ári með. Hins vegar ber á það að líta að við trúum að sú viðspyrna sem við förum í og erum að undirbúa og höfum haft í gangi verði til þess að spár um atvinnuleysi verði vonandi ekki eins dökkar og við horfum til í dag og að sama skapi að sá sjálfvirki sveiflujafnari sem tekur utan um atvinnulausa verði ekki eins fjárfrekur á næstu árum og þessi áætlun birtir. Ég nefni þetta, virðulegi forseti, vegna þess að þetta er eitt dæmi um að við megum ekki láta villa okkur sýn í umræðu um fjármálaáætlun næstu ára, að við séum á einhvern hátt að festa í sessi atvinnuleysi sem sé svo og svo hátt. Grunnurinn að öllum þeim efnahagsaðgerðum sem ríkisstjórnin hefur ráðist í, og ég veit og trúi að allir stjórnmálaflokkar sem starfa hér vilji vinna þannig að málum, er að hér verði atvinnuleysi sem minnst og að störfum fjölgi á nýjan leik.

Virðulegi forseti. Það sem ég held að verði mesta áskorun næstu ára og næstu missera, fyrst og fremst, er samspil peningastefnunnar og ríkisfjármálastefnunnar, að við séum ekki að dæla of miklu súrefni inn í hagkerfið þannig að það komist á yfirsnúning og peningastefnan lendi í vandræðum við að hemja ofhitnun hagkerfisins. Kannski er fullmikil bjartsýni að tala um það í dag, virðulegur forseti, að það geti gerst. En ég held að það sé ágætt að við höfum þessi varnaðarorð uppi á þessum tíma vegna þess að grunnur góðrar efnahagsstjórnar er sterk ríkisfjármálastefna, sterkt utanumhald um ríkisfjármál sem styður við ábyrga peningamálastefnu, og við höfum vissulega beitt peningastefnunni á undanförnum mánuðum. Hún hefur verið hin stóra breytan í því að koma þessu samfélagi áfram í þeirri skyndilegu kreppu sem við erum að fást við. Ég tel að samspil peningastefnunnar við ríkisfjármálastefnuna verði áfram vandasamt en það skiptir máli að við höfum það í huga og að við stígum á útgjaldabremsur hins opinbera nógu tímanlega þannig að ekki fari úr böndum.

Vissulega setur ríkisfjármálaáætlun næstu ára ákveðnar vörður. Við ætlum að hætta skuldasöfnun og ná jafnvægi í rekstri ríkissjóðs. Það er mikilvægt að við sendum út þau skilaboð og að við stöndum við það. Ég trúi að viðspyrnan verði það öflug og sterk, hvort sem það er vegna endurreisnar ferðaþjónustu eða annarra þátta í atvinnulífinu sem munu skapa viðspyrnu, að til harðs niðurskurðar eins og mikið hefur verið rætt um hér í dag muni ekki koma. Það leysir okkur hins vegar ekki frá því að við þurfum á hverjum tíma að íhuga hvernig við förum betur með opinbera fjármuni. Ég ætla ekki að tína til einstök verkefni sem fjárlaganefnd hefur látið sig varða í umfjöllun um þetta þingmál eins og á undanförnum árum, eins og t.d. rekstur hjúkrunarheimila, sem hér hafa komið til umtals, heldur vil nefna að við höfum áhuga og áhyggjur af því hvernig þau mál standa og höfum núna fengið tæki til þess að fara í þá umræðu og höfum betra samtal um það.

Því vil ég aðeins segja að lokum, virðulegur forseti, að ég held að það sé mjög mikilvægt í allri þeirri umræðu að við hugum að framtíðinni í þessum efnum, að við getum rætt okkur til niðurstöðu um það hvernig við ætlum að standa að fjármögnun og vistun þessara verkefna og hvernig við ætlum að standa að þeim. En ég vil þó slá þann varnagla að það er mikilvægast af öllu að við gerum skýran greinarmun í þeirri umræðu, við verðum að takast á við reksturinn eins og hann er í dag og ná tökum á honum áður en við týnum okkur í umræðu um framtíðarskipulag þeirrar mikilvægu starfsemi. Ég held að það sé mikilvægt að við höfum þar skýr vatnaskil í umræðunni svo að við séum ekki að grauta mörgu saman þannig að umræðan verði ómarkviss.

En að þessu sögðu held ég að öll teikn um bata í efnahagslífi, bata í samfélagi okkar, séu skýr, enda tíðarfarið að lagast eftir langvarandi norðanátt og ég vona svo sannarlega að það viti á gott.