151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[19:10]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hér erum við að fjalla um þingsályktunartillögu um fjármálaáætlun fyrir árin 2022–2026, sem hefur verið farið ítarlega yfir hér í dag. Ég er sammála því sem hér var sagt að umræðan hefur í sjálfu sér verið ágæt og farið vítt og breitt yfir. Það hefur komið fram að vegna þess hve stuttur tími er liðinn frá því að við samþykktum síðustu áætlun þá er þessi áætlun sett fram með öðrum og einfaldari hætti. Hún er miðuð við nýjustu spá Hagstofunnar eins og vera ber, enda fjallar hún í meginatriðum um það hagstjórnarlega hlutverk sem hið opinbera hefur og framvinduna í efnahagsmálum.

Ég verð að segja það að þegar líður að lokum þessa kjörtímabils, eins og hv. þingmaður hér á undan mér kom inn á, er áhugavert að vera búin að ganga í gegnum það og láta reyna á ýmislegt í sambandi við lög um opinber fjármál. Það hefur sannarlega gert það og margt í framkvæmdinni sem þarf kannski að setjast yfir og velta fyrir sér hvernig maður vill hafa til framtíðar. Það sem stendur kannski fyrst og fremst upp úr er að staða ríkissjóðs var mjög góð þegar við lentum í þessu fári sem hefur geisað í heiminum. Það gerði okkur kleift að taka hraustlega á móti þeim vanda sem að okkur hefur steðjað. Það er margt ólíkt með okkur og öðrum löndum. Þótt sannarlega sé verið að reyna að bera saman ýmis hagkerfi og stöðuna í löndunum þá er það þannig að eggin okkar voru því miður kannski allt of mörg í einni stórri körfu sem heitir ferðaþjónusta. Þess vegna varð skellurinn kannski enn þyngri fyrir okkar litla land en mörg önnur. En við höfum sannarlega tekið vel á því. Ég var nú bara síðast áðan að lesa nýjustu Gallup-könnunina sem hefur verið gerð fyrir fjármálaráðuneytið, þær hafa verið gerðar nokkrar núna, þar sem farið er ofan í og óskað eftir svörum um hvernig tekist hefur til að mati fyrirtækjanna og annarra sem hafa notið þess stuðnings sem í boði hefur verið. Það er almennt mikil ánægja með það.

Virðulegi forseti. Í þessari áætlun er gert ráð fyrir að rammasett útgjöld aukist að raungildi um 243 milljarða, þ.e. hafi gert það frá árinu 2017 og fram til loka þessarar áætlunar 2026. Heildarhækkunin á þessu tímabili nemur því tæpum 41 milljarði, þ.e. frá næsta ári og til 2026. Það þarf auðvitað að gera ráð fyrir því, eðlilega, sem betur fer, af því að staðan í bólusetningum er góð og við erum búin að fella niður grímur við flest tilefni, þeir sem það kjósa, og hér horfir allt til betri vegar með hækkandi sól, að þá falla tímabundin viðbótarútgjöld niður og þau eru sýnd og dregin hér fram ágætlega. Þegar fram í sækir í áætluninni eru tiltekin fjárfestingarverkefni að klárast og ekki hafa önnur verið ákveðin enda svo sem kannski í höndum næstu ríkisstjórnar að forgangsraða þeim að einhverju leyti. Það hefur gríðarlega mikið fé verið sett í heilbrigðiskerfið, m.a. í framkvæmdir við nýjan Landspítala eins og við þekkjum öll, og síðan hafa miklir fjármunir farið í Rannsóknasjóð og Tækniþróunarsjóð sem líka dragast saman og þarf að horfa til þess, þegar líður á áætlunina, hvort ástæða er til að halda áfram þeim stuðningi. Það er alveg gríðarlegur stuðningur eða aukin fjárframlög sem hafa farið í þessa sjóði. Síðan þarf bara að velta því fyrir sér hvort fólk vill hafa þetta með sambærilegum hætti eða öðruvísi.

Eins og við þekkjum hefur undanfarið eitt og hálft ár snúist dálítið mikið um það hvernig við komum til baka sem samfélag úr kreppunni sem þessi faraldur hefur skapað. Leiðarljós ríkisstjórnarinnar hefur verið, eins og hér er rakið, að nýta svigrúmið í ríkisfjármálunum, leggja áherslu á innviðauppbyggingu og nýsköpun, létta fólki og fyrirtækjum þær byrðar sem það verður fyrir og reyna að stöðva skuldasöfnun á þessum áætlunartíma. Hvernig við gerum það á svo eftir að koma í ljós. Ég legg áherslu á að mikilvægt er að við tökum stöðuna reglulega, eins og við eigum auðvitað að gera með uppfærslu á fjármálaáætlun á hverju ári, og horfumst í augu við það á hverjum tíma með hvaða hætti við tökumst á við þetta.

Það eru nokkrir þættir sem hafa skipt máli. Í fyrsta lagi hafa sjálfvirkir sveiflujafnarar fengið að virka af fullum þunga, þ.e. skatttekjurnar hafa lækkað og útgjöld sem felast í auknu atvinnuleysi og öðru slíku hafa aukist eins og vera ber á slíkum tímum. Það segir okkur að kerfið okkar getur virkað. Svo getum við líka sagt að afkoman í fyrra hafi verið betri en gert hafði verið ráð fyrir og þörfin fyrir afkomubætandi ráðstafanir hjá ríkissjóði minnkaði töluvert, um nærri fjórðung. Það skiptir auðvitað allt saman máli.

Í öðru lagi eru það þær mótvægisaðgerðir sem við höfum farið í. Svo maður stikli á afskaplega stóru þá er þar t.d. sérstakur barnabótaauki sem var bætt við fyrri úrræði sem ýmist voru framlengd eða þeim breytt. Það var 30.000 kr. sérstakur barnabótaauki til þeirra sem fá tekjutengdar barnabætur. Það var önnur ferðagjöf. Framlengd er úttekt séreignarsparnaðar, framlenging og útvíkkun viðspyrnustyrkja og lokunarstyrkja. Það var hliðrun á endurgreiðslutíma stuðningslána, það var eingreiðsla til langtímaatvinnulausra og síðan voru framlög, eins og við þekkjum, til geðheilbrigðismála barna og ungmenna aukin töluvert ofan á allt það sem fram til þessa hefur verið gert. Við höfum lagt gríðarlega áherslu á þau síðustu ár og við þurfum að halda áfram og gera enn betur því að það er með það eins og margt annað að slíku verkefni virðist því miður ekki ljúka. Útgjöldin vegna þessara mótvægisaðgerða vega í kringum 186 milljarða. Það er líka vert að muna eftir því að endurgreiðslan á virðisaukaskattinum vegna framkvæmda virkar a.m.k. út allt þetta ár. Það var ákvörðun sem var framlengd. Ég held að hún hafi reynst mörgum gríðarlega dýrmæt. Eins og okkur er tamt hófust miklar framkvæmdir á heimilum margra landsmanna strax í fyrrasumar og vonandi getur það bara haldið áfram og fólk nýtt sér þessa endurgreiðslu.

Svona fjárfestingarátak eins og ráðist hefur verið í skiptir auðvitað miklu máli þegar við stöndum frammi fyrir jafn erfiðum aðstæðum og við höfum gert, hvernig svo sem þær eru. Þær fjárfestingar vinna upp framleiðslutapið og auka framleiðslugetuna eins og hefur verið markmið okkar frá upphafi að gera. Síðan, eins og hér hefur verið komið inn á, er mikilvægt að horfa til þess hvernig ýmislegt er metið og það er farið dálítið vel yfir það hér þegar verið er að leggja mat á aðgerðir og hvernig til hefur tekist, t.d. að vægi ferðaþjónustunnar er mikið hér, eins og ég kom inn á áðan, hvernig kreppan leggst ójafnt á landshlutana, leggst misjafnt á atvinnulífið og auðvitað bara sveitarfélögin og heimilin. Sum sveitarfélög sem treystu nánast alfarið á ferðaþjónustuna fóru eðli máls samkvæmt mun verr út úr þessu áfalli en mörg önnur sem höfðu breiðari vettvang. Það verður ákveðið framtíðarverkefni að meta samspil allra þessara hluta, sóttvarna og efnahagsmálanna, hvernig það hefur komið út. Það er mikilvægt að eiga það til síðar meir þegar þessi kreppa og þessar aðgerðir verða gerðar upp. Við þurfum alltaf að læra. Auðvitað er markmiðið alltaf að vaxa út úr þessari kreppu þannig að við getum tekist á við skuldasöfnun. Eins og hér hefur verið rakið hlýtur stærsta verkefnið að vera, og það er eiginlega risastórt fram undan, að takast á við langtímaatvinnuleysi og ná því niður hraðar en Hagstofuspáin gerir ráð fyrir. Það er gríðarlega mikilvægt að vera með fjölbreytt úrræði og ég held að það hljóti að verða eitt af því sem flestir koma til með að tala um.

Eitt af því sem hefur verið gert samhliða aðgerðum hins opinbera er að beita peningastefnunni markvisst og ég held að það hafi verið gríðarlega mikilvægt að Seðlabankinn gat lækkað meginvexti sína. Það hefur haft mjög góð og jákvæð áhrif. Þótt Seðlabankinn hafi nú á dögunum þurft að hækka vexti um 0,25 prósentustig og þeir farið upp í 1% þá eru þetta sögulega lágir vextir á Íslandi í langan tíma. Peningastefnunefnd sendi frá sér yfirlýsingu þar sem segir m.a. að efnahagsbatinn sé kröftugri en áður var talið og horfur hafi batnað og því sé nauðsynlegt að bregðast við þrálátum verðbólguþrýstingi sem skýrist aðallega af auknum kostnaði við framleiðslu og dreifingu á vörum um allan heim vegna Covid-19. Þá hafi laun og húsnæðisverð hækkað innan lands. Eftir sem áður er mikilvægt að ríkisfjármálastefnan og peningastefnan og vinnumarkaðurinn leggist saman á árar í því verkefni fram undan að viðhalda stöðugleika og tryggja um leið sjálfbæran vöxt. Allt skiptir þetta máli og við vitum að við þurfum að halda vel á spöðunum ef við eigum ekki að missa tökin á verðbólgunni.

Í þriðja lagi er í áliti meiri hluta fjárlaganefndar talað um áhersluna sem við leggjum á að vernda og viðhalda árangri sem við höfum náð í velferðarmálum og í innviðauppbyggingunni eins og hér var byrjað á að fara aðeins yfir áðan. Það er farið ágætlega yfir það hér og var líka gert með fyrri tillögunni sem var samþykkt fyrir nokkrum mánuðum. Við þekkjum líka úr þinginu umræðu um hversu mikil aukning og efling hefur verið bæði á framhalds- og háskólastiginu, aukning til samgöngu- og fjarskiptamála, framlög hafa aukist um rúmlega 60% að raungildi frá því 2017 og fram til ársins í ár. Sama má segja um framlög til félags-, húsnæðis- og tryggingamála, frítekjumark aldraðra, t.d. lengingu fæðingarorlofs, aukin stofnframlög til byggingar leiguhúsnæðis auk laganna um hlutdeildarlán, þannig að það er ýmislegt sem hefur gerst. En stærsti og þyngsti þátturinn er auðvitað útgjöld til heilbrigðis- og velferðarmála.

Virðulegi forseti. Þær forsendur sem hér eru undir eru kannski breyttar frá síðustu áætlun, frá því að hún var samþykkt, eins og ég kom aðeins inn á áðan, en samdráttur í vergri landsframleiðslu var minni en greiningaraðilar áttu von á. Hins vegar er gert ráð fyrir nokkuð lægri hagvexti í ár en reiknað var með í efnahagsforsendum þeirrar fjármálaáætlunar sem við vorum með til umfjöllunar í október í fyrra. Þó er reiknað með nokkuð hærri hagvexti á þessum árum sem fram undan eru, 2022–2025, miðað við fyrri áætlun. Við vonumst auðvitað til þess að það nái fram að ganga. Og það eru gleðitíðindi sem voru að birtast í dag, það er töluvert mikil aukning á erlendri kortaveltu sem skýrist m.a. af því að þeir farþegar sem eru farnir að koma erlendis frá, sérstaklega frá Bandaríkjunum og eitthvað frá Bretlandi, virðast vera að skilja meira eftir sig en oft hefur verið áður eða dvelja lengur, það getur verið hluti af því. En kerfið er greinilega að taka vel við sér því að nú eru mjög margir aðilar í ferðaþjónustu að auglýsa eftir starfsfólki og telja sig þurfa að bæta við sig töluvert mörgu starfsfólki á allra næstu vikum. Það er farin að ríkja bjartsýni og sem betur fer er þetta að gerast örlítið hraðar en við áttum von á og það er vel.

Í nefndarálitinu er líka farið töluvert ofan í álitsgerð fjármálaráðs um fjármálaáætlun og eðlilega minnir fjármálaráðið á grunngildin og hefur í fyrri álitum bent á að okkur hafi ekki gengið nægilega vel að halda fjármálaáætlunum innan ramma, innan stefnumiða og það séu undirliggjandi veikleikar í afkomunni. Það telur því óhjákvæmilegt, í ljósi þeirra samfélagslegu áskorana sem við stöndum nú frammi fyrir, að við þurfum að huga að sjálfbærni fjármála hins opinbera til lengri tíma. Þar eru m.a. nefndar eðli máls samkvæmt lýðfræðilegar breytingar, við erum öll að eldast, loftslagsmál og tækniþróun og afleiðingar á framleiðslu, atvinnustig, framleiðni og jöfnuð og þar með á tekjur og gjöld hins opinbera. Undir þetta tökum við í meiri hlutanum. Þrátt fyrir að brugðist hafi verið við með því að endurskoða stefnumiðin og byggja inn óvissusvigrúm hefur afkoman sannarlega verið í járnum eða í gólfi stefnunnar, eins og fjármálaráð segir. Við drögum þetta bara fram, þetta kjarnar verkefnið sem er fram undan út áætlunartímabilið. Við þurfum að muna það og tryggja að gagnsæi sé í þeim ráðstöfunum sem við fjöllum hér um og við þurfum reglulega að endurmeta aðlögunarþörfina, skiptinguna á milli tekju- og útgjaldaráðstafana og afleiðingar þess fyrir efnahagslífið og líka fyrir opinber fjármál. Við höfum auðvitað gert margt. Við höfum undirbyggt þessa bættu afkomu ríkissjóðs. Nú hefur verið gert mikið átak og fjárfest í stafrænni uppbyggingu, nýsköpun og rannsóknum, eins og ég kom inn á áðan, og almennri uppbyggingu í innviðum. Svo fer stór hluti þess sem fer í aukningu útgjalda ríkissjóðs í að efla heilbrigðis- og velferðarkerfið og það er viðvarandi verkefni á næstu árum.

Fjármálaráð kemur líka inn á margt fleira, m.a. að lágir vextir og kaupmáttaraukning og þessar sérstöku aðgerðir vegna Covid hafi stutt við heimili og fyrirtæki og undir það tökum við. En það leggst með ójöfnum hætti á ólíka hópa og ekki hafa allir notið góðs af kaupmáttaraukningunni og undir það er auðvitað hægt að taka. En við höfum farið í fjölmargar aðgerðir til að reyna að styðja sem best við þá sem verst hafa farið út úr þessu, m.a. með hlutaatvinnuleysisbótum, hækkun atvinnuleysisbóta, lengingu á tekjutengingartímabili þeirra, með lokunarstyrkjum og tekjufalls- og viðspyrnustyrkjum. Það hefur auðvitað, eins og gefur að skilja, verið ýmislegt sem hefur þurft að gera.

Virðulegi forseti. Mig langar í lokin að fara aðeins yfir loftslagsmálin. Þau hafa verið mikið til umræðu. Við fórum yfir nýjustu áætlanir vegna aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum og hún hefur verið kynnt ágætlega. Mig langar að koma aðeins inn á nýsamþykkta stefnu Íslands í málefnum norðurslóða, sem var bara nú á dögunum. Þar er áhersla lögð á að sporna gegn loftslagsbreytingum og bregðast við neikvæðum áhrifum þeirra á norðurslóðum. Þar vil ég ítreka það sem kemur fram í nefndarálitinu að huga vel að því að efla Akureyri enn frekar sem miðstöð norðurslóðamála á Íslandi, m.a. í gegnum Stofnun Vilhjálms Stefánssonar sem er í lykilhlutverki við ráðgjöf og samvinnu á sviði sjálfbærrar þróunar og umhverfismála. Hér er því beint til umhverfis- og auðlindaráðherra að meta fjárhagsramma þessarar stofnunar, verkefnaáætlun og nýjungar í tengslum við nýsamþykkta norðurslóðastefnu. Hér er líka farið yfir og raktar í ágætu máli þær aðgerðir sem koma til viðbótar við fyrri aðgerðir í þessum málum. Þær eru í fjórum liðum: Það eru náttúrumiðaðar lausnir í loftslagsmálum, loftslagsaðgerðir í landbúnaði, sem ég held að séu gríðarlega mikilvægar. Þar eru bændur mjög tilbúnir og sumir löngu byrjaðir í margs konar samstarfi til að gera sitt til að takast á við loftslagsvandann. Svo eru það aukinn stuðningur við orkuskipti og efling umhverfisvænni almenningssamgangna og betri innviðir fyrir virka ferðamáta.

Ég vil líka tala aðeins um hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu, hún fær ágæta umfjöllun í nefndarálitinu. Það sem er kannski ekki gott í sjálfu sér, miðað við alla þá vinnu sem farið hefur í að reyna að ná utan um fjárþörf hjúkrunarheimila, en langur tími hefur farið í það að skila skýrslu, er að hún varð hreinlega ekki það gagn sem fjárlaganefnd a.m.k. hafði vonast eftir til þess að undirbyggja það sem að okkar mati, og í umfjöllun í gegnum tíðina, þurfti að gera. Þarna eru sannarlega ákveðin skref stigin og það eru hugmyndir sem þarf að fara betur ofan í og leita betri upplýsinga. Það er erfitt að meta stærðarhagkvæmni út frá þessum gögnum. Það kemur t.d. ekki fram af hverju einstök heimili eru rekin með afgangi eða í jafnvægi þó að flest séu rekin með halla. Tengsl rekstrarhagkvæmni og rýmafjölda virðist ekki heldur liggja alveg á ljósu. Það er mikilvægt að okkar mati, eins og kemur fram í skýrslunni, að safnað sé reglulega gögnum um rekstrarkostnað og starfsemi hjúkrunarheimila.

Fram undan er veruleg uppbygging hjúkrunarheimila og á næstu árum er gert ráð fyrir fjölgun nýrra rýma um allt að 640. Við gerum hér eina breytingartillögu sem er í rauninni að fullfjármagna reksturinn, þar var vöntun upp á 1,2 milljarða og svo 3,4 milljarða árið 2024 og 2,9 árið 2025. En ég held að það sé alveg ljóst að við höldum ekki endalaust áfram að byggja hjúkrunarheimili. Við þurfum að hafa miklu fjölbreyttari uppbyggingu í þjónustu við eldra fólk eins og hér er örlítið komið inn á, hvort sem það er aukin þjónusta í heimahúsum, dagþjónusta utan heimilis eða bara samþætting margs konar þjónustuþátta sem þarf að koma til viðbótar við fyrirhugaða og áframhaldandi uppbyggingu á hjúkrunarheimilum. Það er líka nefnt að taka þurfi til skoðunar að greina þessa kostnaðarliði sem saman mynda rekstur hjúkrunarheimila með tilliti til kostnaðarþátttöku heimilismanna, ríkis og sveitarfélaga.

Virðulegi forseti. Það er margt hægt að ræða en ég held að ég láti þetta duga. Það er búið að fara ágætlega yfir hér í dag mjög margt í sambandi við fjármálaáætlun. En mér finnst ánægjulegt að heyra þau tíðindi að það er að birta til með hækkandi sól, 18 stiga hiti fyrir norðan og fyrirtæki í ferðaþjónustunni virðast bjartsýn, eru að óska eftir að ráða inn nýtt fólk og, eins og ég sagði áðan, erlend kortavelta að aukast þannig að ég tel að við séum á réttri leið.