151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[19:35]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Nú hefur hæstv. ríkisstjórn og stjórnarflokkarnir á þingi sagt okkur hvernig þau munu haga hlutunum á næsta kjörtímabili ef þau verða aftur saman í ríkisstjórn. Það hafa þau gert með því að sýna á spilin varðandi stefnumörkun á öllum málasviðum sem þau hafa samþykkt hér í þingsal. Núna er aðeins búið að uppfæra talnabálkana miðað við nýjustu hagspána og einhverjar tæknilegar breytingar. En stefnan í málasviðunum er komin og hún var samþykkt hér í desember.

Ef við horfum á stefnuna varðandi kjör eldra fólks og öryrkja er ekki gert ráð fyrir því, og ekki er heldur hægt að sjá það í talnabálkunum sem við erum að vinna með núna, að taka eigi á þeirri gífurlegu kjaragliðnun sem hefur orðið til á undanförnum árum á milli þeirra sem þurfa að treysta á greiðslur Tryggingastofnunar og svo launþega. Munurinn á milli ellilífeyris, svo að dæmi sé tekið, og lágmarkstekjutryggingar er 85.000 kr. á mánuði. Ef ekki er tekið á þessu mun kjaragliðnunin bara halda áfram og öryrkjar og aldraðir sem þurfa að treysta á greiðslur Tryggingastofnunar eru sett í fátæktargildru sem þau komast ekki út úr. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún sjálf sé sátt við þessa stefnu ríkisstjórnarinnar?