151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[19:39]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki alveg viss um að ég hafi áttað mig á því hvað hv. þingmaður var að fara. Vera má að ekki sé samkomulag við stjórnvöld og við borðið þar sem öryrkjar sitja um hvernig eigi að breyta kerfinu. Það getur ekki verið næg ástæða til að halda fólki undir fátæktarmörkum. Ég var að tala um greiðslur almannatrygginga og það fólk sem þarf að treysta á greiðslur frá Tryggingastofnun. Þar eru m.a. margar gamlar konur sem eru í erfiðustu stöðunni, sem hafa ekki unnið úti allan daginn og hafa ekki unnið sér inn lífeyristryggingar og eiga ekki fjármagnstekjur og eignir til að halda uppi lifistandard á síðustu æviárunum. Konur eru þarna stór hluti og þær eiga aðeins möguleika á því að fá í mesta lagi 266.000 kr. á mánuði. Og það er ákvörðun stjórnvalda. Þær geta ekki farið í verkfall til að heimta betri kjör. Það eru bara stjórnvöld sem ákveða á hvaða upphæð þessum hóp er ætlað að lifa. Orðagjálfur um kerfi hefur ekkert að segja þarna. Við erum að tala um við hvers konar aðstæður og við hvaða kjör þeir sem þurfa að treysta eingöngu á greiðslur frá Tryggingastofnun þurfa að búa, sem stjórnvöld ákveða. (Forseti hringir.) Hvergi er gert ráð fyrir því í stefnu ríkisstjórnarinnar fyrir næsta kjörtímabil að taka eigi á þeim vanda. Er hv. þingmaður sáttur við það?