151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[19:41]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég hef sagt mörgum sinnum áður höfum við og eigum að leggja áherslu á að hækka laun lægstlaunaða fólksins á vinnumarkaði. Við eigum að leggja áherslu á að hækka lífeyristekjur þeirra sem eru í neðstu tíundunum. Ég hef talað fyrir því og ég er enn þá þeirrar skoðunar að það þurfi að gera. En ég var að reyna að svara hv. þingmanni áðan varðandi það að ef eingöngu er hækkað og ekki tekið á þeim skerðingum sem af því hljótast inn í kerfið er ekki víst að viðkomandi beri úr býtum það sem við vildum að hann myndi bera úr býtum.

Ég tek undir að auðvitað er ekki mannsæmandi að lifa á 266.000 kr. á mánuði, hvort sem það eru konur eða karlar. Það þekki ég bara í umhverfi mínu, hafandi fullorðið fólk í kringum mig, ég veit alveg hvaða tekjur fólk hefur sem á mjög lítinn lífeyrissjóð, jafnvel engan, hafandi verið heimavinnandi. Þannig að skoðun mín er sú — af því hér er talað um að þetta sé sýn ríkisstjórnarinnar, haldi hún áfram — að þegar ný stefna verður sett í haust að loknum kosningum, og í framhaldinu fjárlög og fjármálaáætlun, hjá þeirri ríkisstjórn sem þá verður, þurfum við að horfa til þess hvernig ástandið verður þá. Við hefðum auðvitað getað sprengt fjármálaáætlun út (Forseti hringir.) með alveg risastórum tölum. Þá hefði líklega verið sagt að hér væri þvílíka kosningaplaggið að það hálfa dygði alveg. Hægt er að fara margar leiðir að þessu. Í ljósi þess hve stutt var liðið var valið að uppfæra fjármálaáætlun eingöngu svona. En ég er sammála hv. þingmanni í því að við þurfum að (Forseti hringir.) bæta kjör þeirra sem verst standa. Það verður samt líka að snúast dálítið um aðferðirnar (Forseti hringir.) þannig að það skili sér til fólksins.