151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[19:50]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ef lífið væri nú svona einfalt að maður gæti reiknað sig niður á niðurstöðu, eins og ég heyrði hjá hv. þingmanni í dag þegar hann var að flytja ræðu sína. Ég er ósammála þessari nálgun, ég ætla bara að segja það. Það er gjarnan talað bara um 1 milljarð og svo látið fylgja að það sé eitthvað fram í tímann. Auðvitað er þetta ekki 1 milljarður, þetta er 1 milljarður á ári ofan á allt annað sem er. Við verðmetum ekki aðgerðir með þeim hætti sem hér er reynt að halda fram og prósentureiknum þær. Lífið er bara ekki svona einfalt. Ég vildi að svo væri en það er það bara ekki. Hér í áætluninni fram undan, fram í tímann — og meira að segja var búið að setja ár inn til viðbótar — eru undir a.m.k. 5 milljarðar. Þetta er gríðarleg aukning sem við höfum lagt í. Það er ekkert sem undirbyggir að mínu mati þær tillögur sem hér liggja frá öðrum flokkum um þetta, enda eru þær mjög misjafnar vegna þess að fólk skilur hlutina greinilega með misjöfnum hætti, þ.e. hvað þarf mikið til. Píratar eru með allt aðrar tölur en t.d. Samfylkingin í útreikningunum þar undir. Ég hef ekki í höndunum hvað fólk telur að þurfi að gera í því. Auðvitað gætum við alveg notað meiri peninga, ég ætla ekki að halda öðru fram, en það er líka búið að reikna út annars staðar heldur en í kollinum á hv. þingmanni hvaða markmiðum þarf að ná og hvaða fjármuni þarf til þess. Á því áætlunartímabili sem hér er undir er stefnt að þessu, við skulum halda því til haga. Það er stefnt að þessu. Það getur vel verið að eftir eitt ár, tvö ár, þurfum við að taka einhverjar allt aðrar ákvarðanir með allt öðrum áherslum en lagðar hafa verið fram til þessa. (Forseti hringir.) Við vitum ekki hvernig ástandið verður. En að mínu mati þá þurfum við líka að tala (Forseti hringir.) dálítið rétt um fjárhæðirnar sem undir eru. Það er mikið látið að því liggja að það sé bara um 1 milljarð að ræða en hann er sannarlega (Forseti hringir.) ofan á allt annað á hverju ári.