151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[20:36]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Enn erum við aðeins að ræða um framtíðina og atvinnuleysið og verkefnið fram undan. Það sem ég var að reyna að benda á fyrst og fremst var að mér finnst það eiginlega ótækt að við séum með fjármálaáætlun sem er til fimm ára, vissulega í lok kjörtímabils, þar sem menn gefast bara upp og byrja að framreikna. Þarf þá nokkuð að hafa svona mikið við ef þetta er bara framreikningur á tölum? Ég átta mig ekki á því. Ég verð að ítreka gagnrýni mína á þetta fyrirkomulag. Er þá ekki alveg eins gott að við hættum þessari áætlunargerð nema út kjörtímabilið ef það er ekkert að marka það sem fer fram yfir kjörtímabilið, það eru bara framreikningar? Það er stór spurning í mínum huga. Þið sem sitjið í stjórnarflokkunum hafið allan aðgang að öllum þeim gögnum sem um er að ræða og þið eruð best í stakk búin, auðvitað ráðuneytin fyrst og fremst, til þess að segja: Þetta þarf að gerast til þess að X gerist. Hvað þarf að gerast til þess að atvinnuleysi verði ekki 5% í lok tímabilsins? Ég veit að menn segja að það vilji enginn 5% atvinnuleysi. Já, það vill það enginn. En hvernig ætlar ríkisstjórnin að gera það? Hún er búin að leggja fram sitt plan og ég sé ekki þar hvernig hún ætlar að ná því markmiði að það verði ekki 5% og verði frekar nær því sem við eigum að venjast að meðaltali.