151. löggjafarþing — 102. fundur,  27. maí 2021.

kostnaður við samræmda móttöku flóttafólks.

[13:06]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Það er ágætt að hæstv. ráðherra viðurkenni að þetta feli í sér kostnað en þá þarf að reyna að meta þann kostnað samhliða þessum breytingum sem munu hafa mjög veruleg áhrif. Ef ásóknin eykst gerir það kerfinu erfiðara fyrir að afgreiða umsóknir og biðin getur þar af leiðandi orðið lengri og sá kostnaður eykst þá líka fyrir vikið. Það er því mjög sérkennilegt — í ljósi þess að hæstv. ráðherra viðurkennir að ýmsir gallar eru á kerfinu, það er ekki að virka sem skyldi og ekki hefur tekist að ráða bót á því enn sem komið er — að stjórnvöld skuli ekki byrja á að laga þá galla heldur ráðast í aðgerðir sem eru til þess fallnar að auka vandann meira, fá enn meiri fjölda umframumsókna, sérstaklega þegar þetta gerist á sama tíma og önnur Norðurlönd eru að reyna að stöðva hælisumsóknir og beina flóttamönnum, hælisleitendum, í kvótaflóttamannakerfið. Við erum á sama tíma að fara í þveröfuga átt.