151. löggjafarþing — 102. fundur,  27. maí 2021.

kostnaður við samræmda móttöku flóttafólks.

[13:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég get svo sannarlega tekið undir að það kann ekki góðri lukku að stýra í þessum málaflokki að vera með lægstu þröskuldana fyrir að fá mál tekin til athugunar, að fá stuðning á meðan á athugun stendur, að vera með fleiri kæruleiðir heldur en aðrir o.s.frv. Hvort það megi leiða til séríslenskrar leiðar í þessum efnum að fjöldi umsókna hafi verið meiri hér en hlutfallslega annars staðar skal ég ekki segja. En fyrir þinginu hefur legið frumvarp frá dómsmálaráðherra, óafgreitt í fleiri en eitt þing, sem m.a. er ætlað að taka á afgreiðslu þessara mála þannig að hægt sé að komast hraðar að niðurstöðu.