151. löggjafarþing — 102. fundur,  27. maí 2021.

lífeyrir almannatrygginga og neysluviðmið.

[13:14]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé kannski svolítið fast að orði kveðið að tala um að kerfið sé óskapnaður. Kerfið hefur verið þannig að gerðar hafa verið margvíslegar breytingar á því í gegnum árin og áratugina sem (Gripið fram í.) ekki hafa verið gerðar af slæmum hug, hvort sem það hefur verið af núverandi ríkisstjórn eða þeim sem áður hafa verið í stjórn. En þegar hv. þingmaður talar um skerðingar þá verðum við líka að skoða raunaukningu í greiðslum í gegnum kerfið til örorkulífeyrisþega, raunheildargreiðslurnar hafa farið úr tæpum 50 milljörðum á fjórum til fimm árum upp í tæpa 80 milljarða. Af því að þingmaðurinn var að taka heildarskerðingargreiðslurnar og hvernig þær hefðu vaxið þá væri heiðarlegt hjá þingmanninum líka að taka það fyrir hvernig raunaukningin hefur verið, nánast tvöfaldast á fimm árum á verðlagi hvers árs til málaflokksins. Það sýnir okkur að kerfið grípur. En þarf að gera breytingar? Þarf að fara í kerfisbreytingar? (Forseti hringir.) Já, þess þarf og ég og hv. þingmaður erum sammála um það og ég hef áður lýst vonbrigðum mínum með að ekki skyldi takast samkomulag um það fyrr á þessu kjörtímabili. (Forseti hringir.) En ég held að við hv. þingmaður séum sammála (Forseti hringir.) um að það þarf að fara í þær breytingar.