151. löggjafarþing — 102. fundur,  27. maí 2021.

börn á biðlistum.

[13:18]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Svarið við fyrirspurn hv. þingmanns er í einföldu máli: Jú. Við þurfum samt að átta okkur á því hver staðan er. Þegar kemur til að mynda að þeirri stofnun sem heyrir undir þann ráðherra sem hér stendur, sem er Greiningar- og ráðgjafarstöðin, þá höfum við bætt 80 millj. kr. þar inn í sérstakri fjárveitingu. Við höfum verið að vinna á þeim biðlistum sem þar eru. Þetta er ekki eingöngu fjárhagslegur vandi, það er líka ákveðinn mönnunarvandi, og það er ákveðin breyting sem þarf að verða þegar kemur að grunnuppbyggingu þessara stofnana. Þegar kemur síðan að biðlistum á þeim stofnunum sem heyra undir hæstv. heilbrigðisráðherra hafa félagsmálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið farið í ákveðna greiningu, með hvaða hætti hægt sé að grípa þar inn í og stytta þá. En fjármagn hefur ekki komið þar inn með sama hætti og við höfum getað sett inn í Greiningar- og ráðgjafarstöðina.

Það er hins vegar líka mikilvægt að hafa í huga að við erum að fara í stærstu kerfisbreytingar í málefnum barna sem ráðist hefur verið í í íslensku samfélagi. Stórt frumvarp þar að lútandi er á leið inn í þingið og komið til 2. umr. Hluti af því er að við ætlum að færa þjónustuna fyrr í kerfið. Öll þau úrræði sem hv. þingmaður nefnir hér eru þriðja stigs úrræði sem eru til komin vegna þess að við höfum ekki staðið okkur nægilega vel á fyrsta og öðru stigi, þau stig hafa bara ekki verið til. Við reiknum þannig með því, og greiningar liggja þar að baki, við ætlum að setja 2 milljarða á ári inn í þá kerfisbreytingu, að sjálfkrafa dragi úr þörfinni fyrir þriðja stigs úrræði. Það eru börnin sem eru komin fram á bjargbrúnina sem eru í þessum þriðja stigs úrræðum. Við höfum verið að bæta þar inn. Við þurfum áfram að bæta fjármagni þar inn. Ég deili áhyggjum hv. þingmanns en við þurfum líka að átta okkur á því að kerfisbreytingin sem við erum að ráðast í (Forseti hringir.) á að einhverju leyti að tryggja að það muni fækka í þessum þriðja stigs úrræðum. Við höfum verið að standa okkur ansi illa þegar kemur að því að bjarga börnum fyrr og þess vegna erum við með biðlista í þessi þriðja stigs úrræði. Þau eiga ekki að þurfa að fara þangað, öll þessi börn.