151. löggjafarþing — 102. fundur,  27. maí 2021.

börn á biðlistum.

[13:22]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan hefur fjármagn til Greiningarstöðvarinnar aukist um 80 milljónir með sérstakri fjárveitingu. Ríkisstjórnin setti 600 milljónir, í tengslum við Covid, til að leggja sérstaka áherslu á börn og ungmenni og geðheilbrigði þeirra. Eins og ég sagði áðan við hv. þingmann erum við að ráðast í stærstu kerfisbreytingar sem ráðist hefur verið í málefnum barna. Þær munu að hluta til taka á þessum biðlistum. Við höfum ekki verið að standa okkur sem samfélag í því að aðstoða börn og fjölskyldur miklu fyrr en á þarf að halda. Hið pólitíska landslag hefur alltaf fókuserað á þriðja stigs úrræðin vegna þess að við höfum ekki verið að standa okkur í fyrsta og öðru stiginu. Þessar stofnanir, fólkið sem starfar hjá þeim, fólkið sem starfar í þessum geirum, hefur líka verið að kalla eftir hinni kerfisbreytingunni. Þannig að ég segi: Já, við þurfum að taka á þriðja stigs úrræðunum sem þarna eru nefnd en við þurfum líka að setja fjármagn í fyrsta og annars stigs úrræðin. (Forseti hringir.) Það erum við að gera. 2 milljarðar á ári, það er stærsta einstaka fjárfesting í velferð barna (Forseti hringir.) sem núverandi ríkisstjórn, í samstarfi við alla stjórnmálaflokka á Alþingi, er að ráðast í. Því er ég gríðarlega stoltur af og (Forseti hringir.) ég vonast til að þessi frumvörp verði samþykkt hér þannig að hægt sé að fara að vinna eftir þeim.