151. löggjafarþing — 102. fundur,  27. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[13:39]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):

Herra forseti. Við ræðum hér fjármálaáætlun fyrir árin 2022–2026. Fjármálaáætlunin er lögð fram núna við aðstæður þegar efnahagsleg áhrif heimsfaraldursins eru farin að skýrast betur en þegar við samþykktum sameiginlega stefnu í fjármálaáætluninni hér í þingsal í desember sl. Það sem kemur manni kannski mest á óvart við fjármálaáætlun nú er að það er aðeins búið að uppfæra tölur miðað við hagspá Hagstofunnar. Það er í raun og veru engar breytingar að finna, marktækar eða efnislegar breytingar, í fjármálaáætlun þó svo að um hálft ár sé liðið frá því að hún var lögð síðast fram fyrir þingið og hún samþykkt. Það eru ákveðin tíðindi, ákveðin vonbrigði. Það hefði verið hægt að nýta þetta hálfa ár sem liðið er til þess að rýna og greina og uppfæra fjármálaáætlun í takt við stöðuna sem er að verða skýrari. Sömuleiðis hefði verið hægt að grípa tækifærið og nýta betri afkomu en búist var við með fyrstu áætlunum til að bæta hluti í okkar samfélagi sem við þurfum sannarlega að bæta með sértækum aðgerðum. Þar á ég við, forseti, heilbrigðiskerfið, þau landsvæði sem verst hafa orðið úti í heimsfaraldrinum. Það hefði verið hægt að leggja til djarfari aðgerðir til að vinna gegn vaxandi ójöfnuði og styðja hópana sem samkvæmt nýlegri könnun BSRB og ASÍ líða efnislegan skort í kjölfar atvinnuleysis og efnahagslegra áhrifa heimsfaraldursins. Því miður er hér ekki að finna að bætur almannatrygginga, atvinnuleysistrygginga, vaxtabætur, húsnæðisbætur, barnabætur eða fæðingarorlofsgreiðslur hækki til samræmis við laun. Þar með er tekin pólitísk ákvörðun um það að viðhalda áfram ójöfnuði sem fyrir var. Þá er ágætt að ríkisstjórn Íslands sýni á spilin, að þetta sé sameiginleg stefna og sýn til ársins 2026. Þá höfum við það hér svart á hvítu fyrir framan okkur.

Herra forseti. Ég nefndi kerfin okkar, heilbrigðiskerfið, almannatryggingakerfið, húsnæðisbæturnar, barnabæturnar og fæðingarorlofsgreiðslur. En stóra vandamálið sem við glímum við núna er atvinnuleysið og að koma fólki til starfa. Það ætti að vera forgangsatriði hér í þessari fjármálaáætlun, að við myndum sjá skýr merki um þann vilja ríkisstjórnarinnar. Það er nefnilega svo að horfur í ríkisfjármálunum hafa batnað frá síðustu áætlun. Halli ríkissjóðs var um 70 milljörðum minni á síðasta ári en áætlað var og er nú gert ráð fyrir að hallareksturinn á árinu 2021 sé minni sömuleiðis og nemi 10,2% af vergri landsframleiðslu. Það merkir líka að stuðla þarf að fullri atvinnu fólks og við þessa betri afkomu heldur en búist var við í síðustu áætlun hefði verið lag hér og nú að skapa störf og setja til þess fjármuni og auðvitað að dreifa byrðunum sem koma ójafnt niður og jafna leikinn.

Líkt og fjármálaráð bendir á, herra forseti, varð í kjölfar kórónuveirufaraldursins algjört hrun í einni atvinnugrein, ferðaþjónustunni, sem skiptir okkur öll svo miklu máli. Nú þegar treyst er á vöxt ferðaþjónustunnar að nýju til að koma okkur upp úr þessari efnahagslægð er ekki gerð nein stefnumótun um endurbyggingu greinarinnar út frá sjálfbærni og loftslagsviðmiðum sem eru svo nauðsynleg við endurreisn bæði í efnahagskerfinu og efnahagsástandinu hér á landi en ekki síst endurreisn í ferðaþjónustunni. Við getum varla, og þessa skoðun styðja sérfræðingar, snúið til baka og farið á nákvæmlega sama stað þegar kemur að ferðaþjónustunni, stöðu greinarinnar í hagkerfinu og þann ósjálfbæra vöxt í greininni sem hefur verið varað við undanfarin ár. Það kom svo greinilega í ljós í því efnahagshruni sem við höfum verið að glíma við núna síðasta eina og hálfa árið hversu mikið við vorum að reiða okkur á þessa einu grein og hversu mikið við þurfum að dreifa kröftum okkar, fjölga eggjunum í körfunni, eins og sagt er, og reiða okkur ekki eins mikið á ferðaþjónustuna.

Það er líka svo að það þarf að byggja undir atvinnugreinar sem búa til verðmæti í meira mæli með hugviti fólks, skapandi greinar, grænar atvinnugreinar og því ættu stjórnvöld að kalla strax að borðinu, og ættu að sjálfsögðu að vera búin að því, verkalýðsfélög og samtök atvinnurekenda til þess að vinna saman að atvinnustefnu fyrir næstu árin til að koma okkur út úr þessari atvinnukreppu í samtali og samvinnu og með sjálfbærni að leiðarljósi. Þannig myndum við líka stuðla að fleiri góðum störfum og hagvexti þegar um er að ræða atvinnustefnu, menntastefnu og skattstefnu sem eiga að vinna saman og vera með skýra framtíðarsýn.

Langtímaatvinnuleysi, herra forseti, er böl og við ættum því að nýta slakann í hagkerfinu og vinna gegn atvinnuleysinu, renna fleiri stoðum undir atvinnulífið, verja velferðina og mæta tekjufalli fólks meðan það er á milli starfa. Við verðum líka að veita ungu fólki tækifæri til að nýta menntun sína hér á landi. Í því samhengi, herra forseti, vil ég nefna að eftir fjármálakreppuna 2008 var mikil áhersla lögð á það, blessunarlega, að mennta fólk út úr kreppunni. En því miður skorti atvinnutækifæri fyrir menntað fólk á hinum endanum. Það er nú einu sinni svo að kerfin okkar eru mannanna verk, eins og hér var verið að ræða í óundirbúnum fyrirspurnatíma áðan, og það ber vitni um pólitíska framsýni og pólitískt þor að láta kerfin okkar vinna saman, að menntakerfið okkar vinni saman með atvinnustefnu, að við búum til góð störf fyrir háskólamenntað fólk og atvinnutækifæri sem eru aðlaðandi og aðlaðandi fyrir ungt fólk svo að við missum það ekki úr landi. Enda er það svo að fyrir Covid-19 faraldurinn var atvinnuleysi mest í hópi háskólamenntaðs fólks. Og hvað segir það okkur? Jú, það segir okkur að fólk var að mennta sig en fékk síðan ekki vinnu við hæfi, ekki i samræmi við sína menntun. Þetta gengur hreinlega ekki upp, herra forseti.

Síðan þarf að taka utan um atvinnuleitendur og fjölskyldur þeirra með sanngjarnari hækkun bóta, lengra bótatímabili og kraftmiklum vinnumarkaðsaðgerðum. Það skiptir máli að við tökum fast utan um þær aðstæður sem uppi eru núna, að við bíðum ekki eða myndum starfshópa o.s.frv. heldur grípum utan um þessa hópa núna. Við erum með fjármálaáætlun, við erum með horfur sem eru blessunarlega betri en áætlað var og við eigum að nýta það færi. Það þarf að skapa störf, fjárfesta í innviðum og uppbyggingu, það þarf að hlúa að barnafjölskyldum og vinna markvisst gegn ójöfnuði.

Samkvæmt hagspá Hagstofunnar verða um 10.000 manns atvinnulaus eftir fimm ár sem er langt umfram meðaltal síðustu áratuga. Þetta er nefnt í fjármálaáætluninni sem við ræðum hér en ekki er talað um neinar nýjar aðgerðir eða fleiri fjárfestingarverkefni eða nokkuð annað til að mæta vandanum. Það þurfum við að gera. Það er fjallað um kerfislægan vanda sem kallaður er svo, undirliggjandi vanda sem felst í verulegri hækkun launastigs umfram framleiðsluaukningu. Við hvað er átt þarna, herra forseti? Þarna er verið að tala undir rós um hækkun lægstu launa í landinu og að það sé af hinu vonda.

Ég ætla að vinda mér í fjárframlög til nýsköpunar. Þau voru aukin í ár og hækka lítillega samkvæmt áætluninni á næsta ári en fara strax eftir tvö ár lækkandi og lækka hressilega um 26% og lækka um 34% á fimm árum. Allt frá því að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar tók við hafa fjárframlög til opinbera hluta nýsköpunar farið lækkandi og um það má lesa í umsögn um lagafrumvarp ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um niðurlagningu á Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Þetta, herra forseti, rímar ekki við fögur orð og fagrar ræður um mikilvægi nýsköpunar til að koma okkur upp úr þeirri efnahagslægð sem við erum í vegna heimsfaraldursins. Ef við viljum gera vel við nýsköpunarþáttinn í viðbrögðunum þurfum við að styrkja við hinn opinbera hluta nýsköpunar. Hvað er opinberi hluti nýsköpunar? Jú, það eru rannsóknir og greiningar, það eru opinberar stofnanir og háskólar. Það er kallað eftir auknu fjármagni til nýsköpunar og það tekur meira en tvö ár að uppfylla þær kröfur og þær þarfir. Um leið og við setjum fjármuni í einkarekinn hluta nýsköpunar verðum við að hafa hinn opinbera hluta með. Það gagnast menntakerfinu okkar og býr til færni, þekkingu og reynslu inn í menntakerfið okkar og styður við þær stofnanir sem við viljum að séu sterkar þegar kemur að nýsköpun.

En nýsköpun er langhlaupið út úr þessum vanda og við verðum líka að einblína á spretthlaupið sem eru aðgerðir strax. Það eru aðgerðir strax til að koma fólki til starfa, koma ungu fólki af stað, til að passa upp á þau sem hafa verið lengur en ár á atvinnuleysisbótum og til að passa viðkvæma hópa okkar samfélags. Það er kostnaður fyrir samfélagið að hafa fólk langtímaatvinnulaust í okkar samfélagi. Það er kostnaður sem leggst á heilbrigðiskerfið og velferðarkerfið en það er líka huglægur kostnaður, þ.e. samfélag okkar í heild líður fyrir það að draga úr virkni fólks.

Fjölbreyttar og arðbærar fjárfestingar eru undirstaða aukinnar verðmætasköpunar og aukin innviðafjárfesting mun gegna stóru hlutverki til að koma okkur út úr atvinnukreppunni. Fjárfesting í innviðum hefur verið of lítil á síðustu árum þrátt fyrir fögur fyrirheit í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Það mun bitna á okkur öllum til lengri tíma ef ekki verður bætt úr. Í nýrri skýrslu Samtaka iðnaðarins kemur fram að fyrirhuguð aukning í opinberri fjárfestingu mun lítið bíta á þeirri uppsöfnuðu viðhaldsþörf sem skapaðist í kjölfar síðustu niðursveiflu. Til þess að ástand innviða geti talist gott verður að setja enn meiri kraft í opinbera fjárfestingu í innviðum og þörf er á 420 milljarða kr. fjárfestingu til að koma þeim í viðunandi horf, herra forseti. Viðunandi horf. Það tekst ekki einu sinni að halda við eðlilega viðhaldsþörf samkvæmt því sem fram kemur í fjármálaáætlun fyrir næstu árin. Þannig erum við í raun að horfa fram á samdrátt í opinberri fjárfestingu þrátt fyrir mjög umfangsmiklar fjárfestingar Reykjavíkurborgar sem hefur verið leiðandi í opinberri fjárfestingu á landsvísu. Sveitarfélög víða um land sem hafa treyst á ferðaþjónustuna búa líka við kröpp kjör. Þar er mjög takmarkað svigrúm fyrir fjárfestingar og það mun bitna á þessum viðkvæmu svæðum núna strax og einnig til lengri tíma. Ríkisstjórnin hefur því miður ekki beint sérstökum stuðningi til þessara sveitarfélaga til að mæta tekjufalli þeirra og ákalli um aukna félagsþjónustu og það gerir þessum sveitarfélögum mun erfiðara fyrir hvað varðar umfangsmiklar fjárfestingar.

Herra forseti. Mig langar að skauta yfir, þar sem tíminn rennur frá okkur, breytingartillögu Samfylkingarinnar við fjármálaáætlunina til næstu fimm ára. En að sjálfsögðu, ef Samfylkingin fengi að leggja fram sína eigin fjármálaáætlun, myndi hún líta öðruvísi út. Við leggjum til nokkrar afar mikilvægar breytingartillögur sem lúta að kjörum og velferð barna, eldra fólks og öryrkja, lúta að breytingum í loftslagsmálum og við bætum rausnarlega við í umhverfis- og loftslagsmál í okkar tillögum en við bætum líka við í almenna löggæslu og styrkari umgjörð skattheimtu og samkeppnismála. Við leggjum líka til fjármagnstillögur til að vinna á biðlistum sem hafa vaxið umtalsvert vegna Covid-19. Sérstaklega þarf að vinna að því að útrýma biðlistum þegar kemur að geðheilbrigðisþjónustu við börn. Þar dugir ekkert annað heldur en aðgerðir strax.

Við í þingflokki Samfylkingarinnar höfum lagt fram frumvörp um réttláta hækkun lífeyris en við leggjum líka fram tillögur um fjölskyldustuðning og hækkun á barnabótum. Eins og við vitum þá byrja barnabætur hér á landi að skerðast um leið og laun hafa náð 351 þús. kr. á mánuði en við leggjum til breytingar á þeim. Vil ég þar minna á að ef Ísland á að vera barnvænt samfélag, ef við ætlum að bera okkur saman við norrænu þjóðirnar í kringum okkur þegar kemur að barnvænum samfélögum, þurfum við, herra forseti, að gyrða okkur í brók og þá þurfum við að styðja markvissara og meira við barnafjölskyldur. Við viljum sömuleiðis stíga örugg skref að barnvænu samfélagi, fjárhagslegum stuðningi við barnafjölskyldur og við leggjum líka fram tillögur um húsnæðis- og vaxtabætur, leggjum til hækkun húsnæðisbóta til leigjenda og breytingar á viðmiðum vaxtabótakerfisins þannig að greiðslurnar nýtist betur fólki undir meðallaunum. Við leggjum sömuleiðis til aukið fjármagn til heilbrigðisþjónustu. Þar hafa, eins og áður segir, biðlistar lengst. Við gerum tillögu um sérstaka fjárheimild til uppgjörs á halla Landspítalans og sömuleiðis fjármagn til að stytta biðlista eftir sérfræðiþjónustu og skurðaðgerðum sem hafa lengst mikið á milli áranna 2020 og 2021. Geðheilbrigðisþjónusta er eitthvað sem við þurfum líka að sinna miklu betur. Rannsóknir og greiningar hafa því miður sýnt að í heimsfaraldri hefur geðheilbrigði þjóðarinnar orðið verra og það rímar sömuleiðis við reynslu annarra þjóða eftir þennan heimsfaraldur.

Við leggjum líka til aukið fjármagn í heilbrigðisstofnanirnar en síðan eru það loftslagsmálin. Mig langar, herra forseti, að benda á það að milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál hefur áætlað að verja þurfi 2,5% af heimsframleiðslu árlega til loftslagsmála næstu árin svo takmarka megi hlýnun jarðar við 1,5° C miðað við meðalhitastigið fyrir iðnbyltingu. Þar skipta næstu fimm til tíu ár öllu máli. Það skiptir sömuleiðis öllu máli hvernig við sem þjóð og ríki leggjum okkur fram við að axla siðferðislega ábyrgð í loftslagsmálum fyrir komandi kynslóðir.

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á breytingartillögum þingflokks Samfylkingarinnar við þessa fjármálaáætlun. Við viljum líka gera betur við lögregluna og löggæsluna. Allt þetta lýtur að því að bæta þá fjármálaáætlun sem hér er undir (Forseti hringir.) til þess að við getum sinnt okkar allra viðkvæmustu hópum en sömuleiðis tekist á við áskoranir framtíðarinnar (Forseti hringir.) þegar kemur að loftslagsmálum og umhverfismálum.