151. löggjafarþing — 102. fundur,  27. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[13:59]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það er kærkomið að fá að tala aðeins um framtíðina þó ekki sé um að ræða nema næstu ár í stað þess að þurfa endalaust að dvelja í viðbragðinu eins og við höfum kannski eðlilega þurft að gera núna á síðasta ári. En við ræðum sem sagt fjármálaáætlun til næstu fimm ára og má þess vegna líta á hana sem sameiginlega kosningastefnu þessarar ríkisstjórnar, haldi hún velli eftir kosningar, og það verður að horfa á hana þannig. Hún er einmitt býsna gott dæmi um hversu mikilvægt það er að almenningur velji sér annars konar ríkisstjórn í kjörklefanum næst.

Fjármálaáætlunin nær til ársins 2026 og er hápólitískt plagg sem útlistar með nákvæmum hætti hvernig ríkisstjórnin áætlar að reka samfélagið á næsta kjörtímabili. Það sem veldur mér mestum áhyggjum er sýnin á kyrrstöðu og jafnvel afturför í plagginu en líka að þegar mest þarf á að halda að byggja upp eftir kreppu er boðaður niðurskurður. Á tímum heimsfaraldurs þurfum við að hafa þolinmæði til að vaxa út úr þessari kreppu þannig að hún bitni ekki illa á einstökum hópum. Við stöndum auk þess frammi fyrir ótrúlega stórum samfélagslegum breytingum, m.a. vegna tæknibreytinga, og þess vegna þurfum við líka að vera djörf og skapandi. En ekkert af slíku er að finna í þessu plaggi. Við skulum hafa það á hreinu í upphafi að fjármálaáætlun grænnar félagshyggjustjórnar liti allt öðruvísi út.

Samfylkingin mun vissulega leggja fram breytingartillögur til úrbóta á fjármálaáætlun en það er fyrst og fremst hugsað til að greiða yfir þá skallabletti sem eru í þessari áætlun en ekki er verið er að lýsa yfir stuðningi við megindrætti hennar.

Við í Samfylkingunni myndum vilja og höfum reyndar lagt til að hraða ráðningum, auka virkni á vinnumarkaði, verja afkomuöryggi og leggja grunninn að kraftmikilli endurreisn. Við trúum að með því að leggja fyrirtækjum og einstaklingum tímabundið lið núna þá séum við ekki einungis að koma til móts við hópa sem hafa lent erfiðlega í þessari kreppu heldur séum við að draga úr efnahagslegum kostnaði þegar til lengri tíma er litið. Við viljum einfaldlega að allir séu í sem bestu formi þegar þeir mæta á ráslínuna fyrir endurreisnina í sumar.

Fjármálaáætlun Samfylkingarinnar hefði einnig að geyma nýja forgangsröðun í ríkisfjármálum og útlistaðar aðgerðir um það hvernig við viljum byggja upp samfélag þar sem öll börn fá jöfn tækifæri og geta vaxið raunverulega áhyggjulaus úr grasi og þar sem meira jafnvægi ríkir milli vinnu og einkalífs og almenningur hefði auk þess aðgang að öruggu húsnæði, heilbrigðisþjónustu og menntakerfi óháð efnahag og búsetu. Við viljum auk þess, og teljum reyndar nauðsynlegt, að ráðist verði kerfisbundið í uppstokkun flókinna kerfa til þess að kerfin séu fyrir fólkið en fólkið ekki fyrir kerfið. Við teljum líka nauðsynlegt að stíga örugg og markviss skref í að bæta stöðu öryrkja, aldraðra og barnafjölskyldna, með öðrum orðum að tryggja réttlátari skiptingu gæða, m.a. með skattkerfi sem styður við lág- og millitekjuhópa en hyglir ekki auðmönnum eins og margar af þeim breytingum sem við sjáum núna hafa gert.

Við þurfum líka að vera djörf og ráðast í aðgerðir til að auka verðmætasköpun í landinu, fjölga stoðunum undir efnahagslífið, draga úr sveiflum og byggja það upp þannig að við verðum fyrir sem minnstu áfalli ef eitthvað dynur yfir. Þess vegna þarf með miklu markvissari hætti að styðja við nýsköpun og hugvitsiðnað og tryggja að fólk hafi aðgang að fjölbreyttri þjálfun og menntun sem kallast raunverulega á við þessa stefnu, horfa með öðrum augum björtum augum til framtíðar en vera að sama skapi mjög meðvituð um í hverju það felst. Í tengslum við þetta þurfum við líka að horfa miklu betur á þær óhjákvæmilegu breytingar sem eru að verða á vinnumarkaðnum samfara tæknibyltingunni og aukinni alþjóðavæðingu og auðvitað loftslagsvánni. Við teljum að Ísland eigi að marka sér forystu meðal ríkja hvað varðar loftslagsvána en ekki að dingla tæplega í því meðaltali sem við sjáum í kringum okkur. Og við erum í færi til þess. Það er svo margt hér á landi sem gerir okkur kleift að gera það sem er flóknara í stærri og fjölmennari löndum.

Með öðrum orðum þá viljum við bregðast við ástandinu núna, ólíkt ríkisstjórninni sem boðar niðurskurð, með því að byggja upp og fjárfesta í grunninnviðum og velferðarkerfinu. Við viljum forgangsraða í þágu almannahagsmuna en ekki sérhagsmuna og við viljum nýta jafnaðarstefnuna sem eins konar skapalón til að draga markvisst úr ójöfnuði, hvar sem hann er að finna, hefja sókn í stað þess að dvelja í kyrrstöðu og sækja til framtíðar í staðinn fyrir að lifa í fortíðinni.

Við skulum aðeins ræða um innihald þessarar fjármálaáætlunar og hvað hún segir okkur um stefnu ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks til næstu fimm ára. Við höfum öll orðið þess áskynja hversu mikilvægt sterkt opinbert heilbrigðis- og velferðarkerfi er undanfarið ár og sjaldan höfum við lifað aðstæður þar sem gildi samneyslunnar, gildi ríkisins og gildi hins opinbera í þjónustu við landsmenn hefur skipt meira máli. En ríkisstjórnin áformar hins vegar að draga úr fjárstuðningi þessara grunnstoða bara til að geta sýnt eftir þrjú, fjögur ár einhver tiltekin hlutföll, einhver stærðfræðitákn, einhverja formúlu. Ríkisstjórnin kallar þessa tugmilljarða hugmynd sína afkomubætandi ráðstafanir. En það er auðvitað gert bara til að slá ryki í augu fólks. Við skulum hafa það alveg á hreinu hvað afkomubætandi ráðstafanir þýða: Þær heita á íslensku niðurskurður.

Það gengur ekki að mikilvægir innviðir landsins líði fyrir slíka hagstjórn í langan tíma með tilheyrandi kostnað fyrir almenning í landinu. Innviðaskuldir sem hafa verið að hlaðast upp munu safnast hraðar upp. Fjárfestingar hafa ekki gengið jafn vel eftir, eins og hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir nefndi hér áðan. Við getum ekki sætt okkur við það að áætlanir ríkisstjórnarinnar vanræki þessa liði, hvort sem kemur að vega- og flutningskerfinu eða heilbrigðis-, mennta- og velferðarkerfinu. Þá er það undrunarefni og ótrúlega sorglegt að ríkisstjórnin virðist ætla að sætta sig við sögulegt atvinnuleysi. Þau eru að spá um 6–7% atvinnuleysi út árið 2023 sem er langt yfir meðaltal marga áratugi aftur í tímann. Gerum okkur grein fyrir því að aukið og langvarandi atvinnuleysi er ekki bara vandi einstakra hópa í samfélaginu þó að vissulega bitni það harðast á einstaklingum, börnum þeirra og heimilum. Áframhaldandi hátt atvinnuleysisstig í landinu mun nefnilega kosta ríkissjóð gríðarlegan pening. Í þessu tilfelli erum við að tala um 40 milljarða kr. árlega út tímabilið sem er hátt í tvöföldun á því sem gert var ráð þennan heimsfaraldur. Þetta er vont út frá einstaklingnum og þetta er vont út frá drifkrafti atvinnulífsins og þetta er ömurleg skammsýni þegar kemur að stöðugri og góðri efnahagsstjórn. Þetta er a.m.k. rörsýn á ríkisfjármálin og sýnir það að þrátt fyrir að hæstv. fjármálaráðherra geri sig býsna breiðan og tali eins og hann einn hér inni hafi þekkingu á efnahagsmálum þá er það auðvitað ekki svoleiðis og ég held að fólk hljóti að vera farið að sjá í gegnum það.

Höfuðmarkmið okkar núna verður þess vegna að vera að auka virkni fólks og draga úr kostnaði samfélagsins af atvinnuleysi. Það verður að gera það fyrir fólkið, það verður að gera það fyrir atvinnulífið og það verður að gera það fyrir efnahaginn í landinu og framtíðarkynslóðir.

En það sem er kannski alvarlegast við þetta plagg, herra forseti, er að með því er verið að taka þá pólitísku ákvörðun, ekki eins flokks eða tveggja flokka heldur þriggja flokka, að festa í sessi ójöfnuð sem er í landinu, sem hefur aukist í kórónuveirukreppunni en líka þegar kemur að elli- og örorkulífeyrisþegum sem hafa ekki fylgt launaþróun. Það hafa atvinnuleysisbætur ekki gert heldur eða millifærslur til heimilanna; barnabætur, fæðingarorlofsgreiðslur eða húsnæðisstuðningur. Allt þetta er verið að festa í sessi og þetta er akkúrat öfug leið við þá sem Samfylkingin myndi fara og ég vil trúa á mínum bestu dögum að við hefðum stuðning við frá a.m.k. tveimur af ríkisstjórnarflokkunum. Öryrkjar og aldraðir hafa bara einfaldlega horft á bilið milli sín og fólks á launamarkaði breikka á hverju einasta ári allt þetta kjörtímabil og raunar lengur. Og nú kynnir ríkisstjórnin sem sagt áform um að festa gliðnunina í sessi en ekki draga úr henni. Það er aldeilis kosningaloforð að fara með inn í næsta haust.

Herra forseti. Það er ekki hægt að fara yfir allt í 20 mínútna ræðu er varðar ríkisfjármálin eða fjármálaáætlun en ég held að við getum ekki sleppt því að ræða aðeins um heilbrigðiskerfið sem situr eftir eina ferðina enn og það þrátt fyrir að hafa verið kannski stærsti einstaki leikandinn í þeirri farsælu vegferð þrátt fyrir allt sem við höfum gengið í gegnum hér á síðasta ári. Við horfum enn og aftur upp á það að það stefnir í hallarekstur Landspítalans sem hefur ekki bolmagn til að vinna upp biðlista. Ekki er heldur gert ráð fyrir nægilegum fjármunum til geðheilbrigðisþjónustu þrátt fyrir að 11.000 manns bíði eftir geðheilbrigðisþjónustu hjá Landspítala og 130 börn og unglingar bíði eftir þjónustu hjá BUGL. Þetta getum við ekki látið grassera. Við getum ekki leyft hæstv. fjármálaráðherra að vera svo upptekinn af því að stilla einhverja tölu af eftir tvö til þrjú ár að hann láti það bitna á þessum grunnstoðum sem við eigum sameiginlega og sem þjóðin hefur margítrekað í mörgum skoðanakönnunum í mörg ár lýst yfir að skipti mestu máli í íslensku samfélagi.

Síðasti punkturinn sem ég ætla að ræða af þessum málefnaliðum er húsnæði. Húsnæði er grunnþörf allra og ekki síst á landi eins og Íslandi þar sem veðráttan er rysjótt. Húsnæði er auðvitað ekki merkilegur hlutur í sjálfu sér, það er kassi úr steini eða tré eða einhverju öðru. En það er umgjörð um eitthvað sem heitir heimili og það eru heimilin sem eru kannski grunnstoðin í okkar samfélagi. Það er ekki nóg að tryggja fólki að það hafi alltaf þak yfir höfuðið. Það þarf að tryggja fólki öruggt þak yfir höfuðið þannig að það þurfi ekki að flytja á ótryggum markaði fram og til baka, rífandi börn með reglulegu millibili upp á milli skólahverfa og annað slíkt. Íslenski húsnæðismarkaðurinn er of sveiflukenndur, hann er of háður duttlungum markaðarins. Síðastliðið ár er engin undantekning. Fasteignaverð hefur hækkað um heil 14%. Ég heyrði tölur frá greiningardeild Íslandsbanka sem spáði 20% hækkun á næstu árum. Við þessar aðstæður þarf ríkisstjórn bara að spýta í lófana og beita einhvers konar eftirliti, ríkisinngripum þegar kemur að uppbyggingu og húsnæðisstuðningi við fólk, ekki bara að koma inn með einhverjar innspýtingar sem rjúka strax inn í verðlagið og keyra upp verðhækkanir með nokkurra ára millibili heldur tryggja langtímastöðugleika á húsnæðismarkaði ekki ósvipað og gert er við aðrar mikilvægar aðstæður, t.d. eins og með gengi íslensku krónunnar þar sem Seðlabankinn með sín meðul kaupir og selur til skiptis til að halda stöðugleikanum. Þetta þarf að gera með húsnæðismál líka. Það þarf að kontrólera markaðinn með einhverjum hætti til að ekki verði aðstæður eins og núna þar sem fólk er kannski að bjóða tveimur, þremur, fjórum milljónum hærra í húsnæði en næsti maður, það býr til spíral sem enginn græðir á, sem hirðir strax allar launahækkanir og verður íþyngjandi fyrir fjölskyldur. Þarna getum við gert miklu betur.

Á þessum tíma við aðstæður þar sem er erfitt að byggja vegna veðurlags, vegna hás fjármagnskostnaðar krónunnar, vegna skrykkjótts húsnæðisframboðs, þá leyfir ríkisstjórnin sér að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð og þar með einu opinberu byggingarrannsóknirnar á landinu án þess að tryggja að nokkuð taki við í staðinn.

Samfylkingin telur nauðsynlegt að hraða uppbyggingu og styrkja almenna íbúðakerfið verulega, hækka húsnæðisstuðning við fjölskyldur og stórauka framlög til rannsókna og þróunar og byggingarrannsókna á byggingarmarkaði. En við þurfum samfara þessu að finna leið, sem ég held að við ættum öll að geta sameinast um í þessum sal, til þess að stýra markaðnum þannig að hann verði stöðugri til lengri tíma. Það er auðveldara að gera þetta í þessum málaflokki en í mörgum öðrum vegna þess að við höfum öruggar mannfjöldaspár. Við vitum hver þróunin hefur verið á síðustu áratugum í nágrannalöndum okkar sem eru lengra komin um það hvað er líklegt að margir einstaklingar muni búa í hverri húsnæðiseiningu. Það eru óvissuþættir eins og ferðaþjónusta og annað en þannig verður það alltaf. En a.m.k. er þetta það fyrirsjáanlegt að það er engin afsökun að stjórna þessum málaflokki ekki miklu betur en gert er.

Að lokum virðist ríkisstjórnin annaðhvort ekki hafa auga á framtíðinni, hafa mjög ólíka sýn á framtíðina eða ekki hafa nægan sköpunarkraft og kjark til að þora að takast á við framtíðina. Það er ekki nægt fjármagn veitt til þess að grípa þau tækifæri sem fylgja tæknibreytingum. Við erum að upplifa stórkostlegar samfélagsbreytingar af völdum þeirra. Það getur farið illa ef við látum reka á reiðanum. Við getum hins vegar notað tæknibreytingarnar sem nú eru að ganga yfir til að auka framleiðni, sem er gríðarlega mikilvægt þegar færri og færri hendur standa hlutfallslega undir verðmætasköpun. Við getum minnkað vistsporið með því að fara aktíft í það, búa til hvata fyrir tæknibreytingar sem verða til þess að við sóum minna og nýtum betur. Við getum líka notað þær til að draga úr ójöfnuði en hann getur hins vegar auðveldlega aukist mjög hratt á meiri hraða en nokkurn tímann áður og fjármagnið fer á enn færri hendur þegar vinnumarkaðurinn er að breytast. Þetta ætti að vera eitt af stóru málum hverrar ríkisstjórnar í dag. Ég geri ráð fyrir að margar framsýnar ríkisstjórnir séu mikið að velta þessu fyrir sér.

Ég nefndi að eitt af því sem tæknibreytingar gætu gert væri að minnka vistspor. Þá erum við komin að loftslagsmálunum sem eru auðvitað mál málanna alls staðar, hjá öllum ríkisstjórnum í heiminum, fyrir utan kannski í Brasilíu og á nokkrum öðrum stöðum. Við skulum alveg vera klár á því að markaðsöflin ein og sér munu ekki leysa loftslagsvandann. Þetta gildir jafnt um aðgerðir þeirra til þess að draga úr gróðurhúsalofttegundum, aðgerðir til að binda eða farga kolefnum. Til að Ísland nái markvissum árangri í losun gróðurhúsalofttegunda með grænni uppbyggingu þarf hið opinbera að taka frumkvæði og vísa veginn, vissulega í samstarfi við einstaklinga, sveitarfélög og fyrirtæki, en það verður að vera vörðurinn á þessari leið. Þess vegna þurfum við að setja okkur miklu skýrari aðgerðir, sýna meiri metnað, m.a. með auknu fjármagni, en við þurfum líka að leggja meiri áherslu á hugvitsiðnaðinn og renna fleiri stoðum undir atvinnulífið. Við Íslendingar megum ekki vera svo óþolinmóð að sleppa því að gera það af því að við vitum að það mun taka 10 ár, 15 ár, 20 ár. Þetta er eina leiðin fram á við og við verðum í rauninni að auka framlagið þarna til mikilla muna.

Ég nefndi það hér áðan, af því að tíminn er að verða búinn, að fjárfestingar í innviðum hafa verið of litlar síðustu árin og það mun bitna á okkur til lengri tíma ef ekki verður úr bætt. Hluti af vandanum er að ríkisstjórnin setti á dagskrá verkefni sem við vissum að þyrfti tíma til að komast í. Hún hefði frekar átt að beina peningunum til sveitarfélaga sem voru tilbúin með verkefni. En ég ítreka það að Samfylkingin hefði lagt fram fjármálaáætlun sem liti allt öðruvísi út en þessi gerir. Við munum hins vegar reyna að fela skallablettina á þessari með því að koma með breytingartillögu sem ég vona að tekið verði vel í. En ég hlakka til eftir ár þegar Samfylkingin leggur sína fjármálaáætlun fram.(Gripið fram í: Heyr, heyr.)