151. löggjafarþing — 102. fundur,  27. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[14:29]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Ég mun í stuttri ræðu tæpa á örfáum atriðum sem snerta fjármálaáætlun sem nú er til umfjöllunar, fjármálaáætlun þessarar ríkisstjórnar fyrir árin 2022–2026 sem óvíst er að verði hennar að framfylgja. Áætlunin gerir ráð fyrir að niðurskurður og skattahækkanir hefjist árið 2023 þegar spáð er 6–7% atvinnuleysi. Ábyrga leiðin hins vegar, leiðin sem við í Samfylkingunni viljum fara, snýst um að beita ekki of hörðum aðgerðum of snemma. Við viljum veita svigrúm og skapa frið um hvernig eigi að skipta tekjum og afla þeirra, dreifa byrðunum sem falla mjög misjafnlega á einstaklinga og allir sjá hverjir bera þær þyngstar þó að stjórnarflokkarnir lygni aftur augunum eða a.m.k. dragi augað í pung þegar þetta varðar.

Engar forsendur hafa breyst um almennar aðhaldskröfur á heilbrigðisstofnanir og annan ríkisrekstur. Aðhaldskröfur eru sama og niðurskurður, sérstaklega þegar um er að ræða stofnanir sem hafa verið vanræktar síðustu ár. Á erfiðum tímum í heilbrigðiskerfinu og með auknu álagi vegna heimsfaraldurs og breytinga á aldurssamsetningu þjóðarinnar er gerð krafa um aðhald í stað innspýtingar. Gerð er 2% almenn aðhaldskrafa og 0,5% aðhaldskrafa á heilbrigðisstofnanir, öldrunarstofnanir og skóla á árinu 2022 og 1% almenn aðhaldskrafa er á árunum 2023–2026.

Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur lagt fram breytingartillögur við fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar þar sem umfangsmestu tillögurnar snúa að barnafjölskyldum, atvinnusköpun, loftslagsmálum, biðlistum í heilbrigðiskerfinu, geðheilbrigðismálum og að kjörum aldraðra og öryrkja. Á nokkrum þessara atriða vil ég tæpa í þessari stuttu ræðu.

Lífeyrisþegar er vaxandi hlutfall íbúa þessa lands. Stór hluti þeirra býr við bág kjör og það er stjórnvöldum fyllilega ljóst. Þau hafa ekki nýtt eðlileg tækifæri til þess að leiðrétta kjörin til jafns á við aðra sem draga fram lífið í þessu landi. Það er sorglegt, það er pólitísk ákvörðun en ekki hending að viðhalda ójöfnuði. Þúsundir lífeyrisþega búa við þrengingar, jafnvel að 25–50% glími við umtalsverðan lágtekjuvanda eða hreina fátækt. Ástæðan er auðvitað sú að hámarkslífeyrir almannatrygginga er hreinlega of lágur og hefur síðan árið 2018 sigið niður fyrir lágmarkslaun á almennum vinnumarkaði. Þarna munar nú a.m.k. 5% ef marka má nýja skýrslu Stefáns Ólafssonar prófessors um kjör lífeyrisþega.

Þessu viljum við jafnaðarmenn breyta með markvissum og skilgreindum leiðum. Lífeyrir TR ætti aldrei að fara undir 60% af meðallaunum. Það er algengasta fátæktarviðmið í Evrópu. Opinber lífeyrisútgjöld á Íslandi eru óvenju lág í samanburði við OECD-ríkin og einnig í samanburði við hin Norðurlöndin. Það sem skýrir þennan veruleika eru óhóflegar skerðingar í almannatryggingakerfinu. Úr þeim þarf að draga verulega og það strax, ekki minna en um helming. Það kann að vera álitamál hversu langt á að ganga í þessu og ekki ástæða til að hugleiða það að afnema þær að fullu því að ekki er víst að með því fáist sanngirni. En krafan er auðvitað sú að allir lífeyrisþegar geti lifað af tekjum sínum, tekjum sem eru ofan við fátæktarmörk. Skerðingarnar leika örorkulífeyrisþega almennt nokkru verr en ellilífeyrisþega og það er bæði það sem snýr að lífeyrissjóðstekjum og atvinnutekjum. Og talandi um norræna velferðarmódelið sem við viljum gjarnan tengja okkur við þá sker Ísland sig algjörlega úr hvað varðar stórfelldar skerðingar.

Stjórnvöld láta þetta gott heita. Siðferði þeirra er ekki á hærra plani en það að þau láta það viðgangast að spara sér útgjöld með auknum skerðingum á lífeyrisgreiðslum í skjóli þess að lífeyrissjóðirnir hlaupi undir bagga. Skerðingarnar fara að bíta við allt of lágar tekjur úr lífeyrissjóðum og greiðsluþátttaka almannatrygginga dettur út talsvert löngu áður en meðaltekjum samfélagsins er náð. Fátæktargildran blasir við.

Það er harla ólíklegt að það hafi verið helsta markmiðið með stofnun lífeyrissjóðanna árið 1969 að losa ríkið undan lífeyrisgreiðslum almannatryggingakerfisins og færa þær snarlega yfir á lífeyrissjóðina áður en þeir eru farnir að skila fullri uppsöfnun til útgreiðslu eins og fyrirheit voru gefin um og áður en jöfnuði á milli starfsmanna á almennum markaði og hjá hinu opinbera er náð. Þetta er ómannúðlegt og við í Samfylkingunni viljum breytingar.

Herra forseti. Ég leyfi mér að fara örfáum orðum þessu næst um framtíðarsýn fyrir okkur á efri árum. Fram kom hjá hv. þingmanni og formanni fjárlaganefndar, Willum Þór Þórssyni, í umræðunni í gær þegar hann fylgdi nefndaráliti úr hlaði að byggð yrðu 263 ný hjúkrunarrými fyrir aldraða á tímabili fjármálaáætlunar og sagði þau fullfjármögnuð. Það eitt og sér er grátbrosleg staðhæfing þegar við hlustum á það dag eftir dag, síðast í fjölmiðlum í morgun, að rekstraraðilar telja ómögulegt að halda uppi þjónustu á óbreyttum daggjöldum. Þau þyrftu að hækka verulega og talið er að það þurfi að bæta í rekstrargrundvöllinn sjálfan um 4,5 milljörðum eða jafnvel 5 til að heimilin gætu notið þess að vera starfrækt með eðlilegum hætti. Það er ekkert ofsagt að þetta kerfi sé í orðsins fyllstu merkingu nú gjaldþrota. Í fjármálaáætlun skellir ríkisstjórnin skollaeyrum við þessum staðreyndum og ómöguleikanum er viðhaldið. Það örlar ekkert á nýrri hugsun eða nýrri hugmyndafræði varðandi þjónustuna við aldrað fólk. Bygging 263 nýrra hjúkrunarrýma dugar afar skammt þegar önnur úrræði eru í skötulíki, eru óreynd, hafi ekki verið grandskoðuð. Þetta er rétt eins og að pissa í skóinn sinn, í besta falli skammgóður vermir. Við erum stórir eftirbátar, langt á eftir öðrum nágrannaþjóðum í þessu efni. Þarna bíða hreinlega tækifæri í nýsköpun.

Eins og hv. þm. Oddný G. Harðardóttir kom inn á í sínu nefndaráliti og breytingartillögum í umræðunni hefur ríkisstjórnin verið að beina fjármunum í átaksverkefni á liðnum misserum í ljósi Covid-aðstæðna. Um 85% þeirra starfa sem skapast við framkvæmd fjárfestingarátaks ríkisstjórnarinnar eru karlastörf, segir hv. þingmaður. Hún bendir réttilega á að nauðsynlegt sé að ráðast einnig í fjárfestingar í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu og velferðarkerfinu þar sem eru hefðbundin kvennastörf og mikil mannekla, við eigum að fjölga hjúkrunarfræðingum, sjúkraliðum og fólki í umönnunarstörfum með öllum ráðum, þetta sé framlínufólkið okkar. Við búum við verulegt atvinnuleysi núna og það er ekki síst meðal kvenna. Þarna er verðmætur kraftur ónýttur og samfélaginu öllu til heilla að nýta hann strax.

Herra forseti. Aldrað fólk í nútímanum sér almennt ekki sína framtíð inni á hefðbundnum langdvalarstofnunum, enda er það kostnaðarsamasti valkosturinn sem stjórnvöld geta valið og hið opinbera stendur ekki undir þeim rekstri og þeirri stofnanasýn sem hefur fengið að viðgangast á Íslandi um árabil. Eldra fólk er fjölbreytilegur hluti af samfélaginu og hugsanlega dálítið breytilegri en fólk á besta aldri, með skoðanir, þarfir og væntingar til jafns við aðra aldurshópa. Stóra myndin og meginmarkmið á að vera það að hver einstaklingur geti búið á eigin heimili til æviloka með persónulegum stuðningsúrræðum við hæfi og að því gefnu að viðkomandi óski eftir því sjálfur og njóti þar öryggis. Tiltæk úrræði hafa því miður ekki verið virkjuð nema í mjög takmörkuðum mæli og þar eru ósótt tækifæri mýmörg. Stjórnvöld hafa ekki gefið þessu gaum en þurfa að nálgast þennan málaflokk með beinum hætti og algjörlega nýrri hugsun. Verkin þurfa að tala, ekki bara orð, ekki bara einn nýr starfshópurinn enn. En til þess að þetta sé mögulegt þurfa fjölbreytt búsetuúrræði að vera valkostur. Ríkjandi viðhorf hjá stjórnmálamönnum hafa fyrst og fremst verið þau að bregðast við með einföldum lausnum sem álitnar hafa verið við hæfi, stofnanir, ein ríkjandi lausn fyrir flesta. Þær lausnir, herra forseti, eiga sannarlega að vera minnisvarði um löngu liðna tíð.

Stjórnvöld hafa fetað veginn áfram án þess að marka sér sterka stefnu og á þessu þarf að verða breyting því að það er mikið í húfi. Í ljósi nútímasamfélagshátta, fjölgunar aldraðra og viðhorfa þeirra sjálfra er krafa um að mótuð verði þverpólitísk stefna með virka þátttöku aldraðra sjálfra í huga. Stefnan þarf að vera þverpólitísk, hún þarf að vera til lengri tíma.

Um þetta fjallar hin hófstillta og löngu tímabæra þingsályktunartillaga okkar í Samfylkingunni um nýja velferðarstefnu fyrir aldraða. Pottur er brotinn víða og stjórnvöld eiga að hafa frumkvæði, forgangsraða með nýjum hætti og greiða með beinni aðkomu fyrir stórauknu framboði á hentugum og öruggum búsetumöguleikum. Þetta er sá þáttur sem vegur hvað þyngst þegar kemur að vellíðan og öryggi á ævikvöldinu, vænlegir og uppbyggilegir valkostir í staðinn fyrir lítið hólf í stofnun. Stjórnvöld hafa lítið hreyft við þessum málum og ekkert sýnilegt er í þeirri fjármálaáætlun sem til umræðu er nú. Beinir hvatar, hin beina aðkoma, geta falist í fjárhagslegri fyrirgreiðslu þar sem það á við. Það er mikið í húfi, allt til að tóna niður áralanga og rándýra stofnanavistun sem er ekki farsæl lausn fyrir marga, fyrir suma raunar. Við höfum drepið á þessi atriði með hléum í mörg ár en það er þörf á að staldra við hressilega nú og huga að róttækum áherslubreytingum því að nú ríkir nánast neyðarástand. Við heyrðum það í fréttum í gær að Landspítalinn á í miklum erfiðleikum og er í mjög erfiðri stöðu fyrirsjáanlega á næstu mánuðum. Þar skortir úrræði, skortir mannskap og það er útskriftarvandi. Við sáum í Morgunblaðinu í morgun að vandi hjúkrunarheimilanna er yfirþyrmandi. Þarna þarf að taka á.

Herra forseti. Það eru óvíða meiri framfarir en á heilbrigðissviði. Stöðugt eru uppgötvaðar nýjar leiðir til að lækna og meðhöndla krankleika okkur, stóra og smáa. Það eru gagnreyndar leiðir til að lækna sjúkdóma, endurhæfa eftir áföll og sömuleiðis að takast á við heilsubrest og ýmsa þætti sem fylgja efri árum, t.d. með lyfjameðferð. Heilbrigðistækni og velferðartækni hefur fleygt fram. Þetta skiptir miklu máli fyrir aldrað fólk sem getur tekið virkan þátt í því breytingaferli sem er þegar orðinn veruleikinn. Við getum skapað öryggi og betri líðan á eigin heimili í eigin umhverfi þar sem aðstaða er til sveigjanlegri þjónustu og umönnunar eftir atvikum.

Að þessu beinist okkar sýn í Samfylkingunni. Í þessu sambandi eru auðvitað áskoranirnar gagnvart fagfólki talsverðar, að við göngum til þessa verkefnis sem langtímaverkefnis með opnum hug og séum tilbúin til að hugsa upp á nýtt það sem við höfum verið að þróa á undanförnum árum og áratugum. Í svona þróunarverkefni felast margvísleg tækifæri fyrir áhugasamt sérþjálfað starfsfólk eða fagfólk á heilbrigðissviði. Möguleikar felast í sveigjanlegum starfstíma, fjölbreytilegu umhverfi og spennandi nýjungum í notkun þekkingar og tækni í hagnýtingu hjálpartækja, sérbúnaðar á heimili, öryggiskerfa, í fjarþjónustu, í lyfjaeftirliti, í notkun á hreinlætiskerfum og mikilvægi félagslegrar nándar sem er gríðarlega mikilvæg og verður ekki metin til fjár.

Þetta er líka mikilvægt á þessum tímum því að við horfum fram á viðvarandi skort á hæfu og góðu starfsfólki í öldrunarþjónustu sem og á mörgum sviðum félagslegrar þjónustu og ekki sýnt annað en að vandinn aukist fremur en hitt. Því er það lykilatriði að skapa starfsvettvang sem vekur áhuga fyrir ungt fólk að takast á við krefjandi nútímaleg viðfangsefni þar sem skapandi hugsun er leiðarljós.

Í þeim breytingum sem lagðar eru til í þessari velferðarstefnu okkar felast nýjar áherslur og margvíslegar áskoranir. Það þarf að sigrast á ýmsum hindrunum og fyrst og fremst eru fjötrar hugans. Við verðum að brjóta af okkur einhverja hlekki viðtekinnar hugsunar, takast djarflega á við nýjar áskoranir en á yfirvegaðan hátt.

Herra forseti. Það eru fleiri atriði sem upp koma í hugann varðandi fjármálaáætlun. Innviðauppbygging er áleitið efni, ekki síst í ljósi þeirra staðreynda að meginstoðir atvinnu eru býsna háðar öflugum innviðum, hvernig sem á það er litið. Tökum t.d. vegina þar sem þúsundir á þúsundir ofan af ferðamönnum þeysa um á ári hverju. Ég nefni líka vaxandi stóra atvinnuvegi, fiskeldi sem treystir á flutning afurða með hraði í skip eða í flug. Við höfum nýlega lokið við myndarleg Dýrafjarðargöng og þar við situr í jarðgangagerð. Ekkert annað verkefni á sviði jarðganga er komið á koppinn en ef vel ætti að vera þyrftum við að hafa eitt slíkt verkefni í gangi, en svo er ekki. Þessi ríkisstjórn hefur ekki lagt fyrir áætlun um byggingu jarðganga, ekki jarðgangaáætlun, og það er afleitt. Fáar fjárfestingar á sviði vegagerðar eru jafn öflugar og stöndugar og jarðgöng, skipta máli fyrir umferðaröryggi, styttingu leiða og draga úr mengun. Það kallast sterklega á við umhverfisumræðuna.

Ísland ætlar sér einmitt ásamt hinum Norðurlöndunum að leiða baráttuna gegn loftslagsbreytingum. Það er yfirlýst markmið. Því er kallað eftir metnaðarfullri útfærslu á áformum um kolefnishlutleysi árið 2040 sem hægt er að segja með sanni að endurspegli þetta leiðtogahlutverk og sýnir að íslensk stjórnvöld hafa sjálfstæða sýn og vilja hvað varðar lögfestingu markmiða um kolefnishlutleysi og samdrátt í losun. Hvað með áfangamarkmið? Þau þyrftu að endurspegla þá skilgreiningu á losun sem stjórnvöld setja sér um kolefnishlutleysi en ljóst er að nettólosun þarf að minnka um helming fyrir árið 2030 ef fylgja á línulegri þróun í átt að kolefnishlutleysi 2040.

Herra forseti. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti er til meðferðar í umhverfis- og samgöngunefnd, oft nefnt frumvarpið um hringrásarhagkerfið. Ekki verður séð með góðu móti að í fjármálaáætlun sé tekið mið af þeim breytingum og kostnaðarumsvifum sem þetta átak hefur í för með sér, a.m.k. til skemmri tíma, einkum fyrir sveitarfélögin, en gert er ráð fyrir því að þessi lög taki gildi í ársbyrjun 2023. Mikilvægt er því að breytingar þær sem frumvarpið boðar verði kostnaðarmetnar með ítarlegum og gegnsæjum hætti með tilliti til aukinna útgjalda sveitarfélaga vegna málaflokksins. Þau auknu útgjöld munu leiða til umtalsverðs kostnaðarauka fyrir íbúa sem er ekki hægt að una við að því er virðist. Nauðsynlegt er því að ríkið mæti þeim kostnaðarauka sem boðaðar breytingar munu valda en það verður ekki séð í þessari fjármálaáætlun.

Herra forseti. Tíminn líður hratt og er nú senn að niðurlotum kominn. Tillögur Samfylkingarinnar til breytinga á þessari fjármálaáætlun þjóna allar því markmiði að fjölga störfum, auka græna verðmætasköpun, bæta heilsu og öryggi fólksins í landinu og til að bæta kjör barnafólks og þeirra hópa sem verst eru settir í samfélaginu. Með fjármálaáætlun til næstu fimm ára hefur ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs markað sér stefnu fyrir næsta kjörtímabil. Ríkisstjórnin hefur sýnt á spilin um hvað gert verði undir hennar stjórn, haldi hún velli að loknum kosningum í september. Stjórnarflokkarnir munu að óbreyttu samþykkja stefnu niðurskurðar, áframhaldandi atvinnuleysis og ójöfnuðar fyrir þinglok í vor.