151. löggjafarþing — 102. fundur,  27. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[14:49]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Við ræðum hér fjármálaáætlun 2022–2026. Ég vil hefja mál mitt á að taka undir með því sem segir í áliti fulltrúa Miðflokksins, hv. þm. Birgis Þórarinssonar, í fjárlaganefnd þar sem segir að miklar áskoranir séu fram undan þegar kemur að hagstjórn í landinu. Við blasir mikill hallarekstur ríkissjóðs. Atvinnuleysi er í hæstu hæðum, verðbólga sýnist komin á skrið og hefur ekki mælst meiri síðan 2013. Vextir eru teknir að hækka og ekki annað að sjá en að framhald verði á því ferli. Fjármálaáætlunin er hin síðasta sem þessi ríkisstjórn leggur fram. Hún er óvenjuleg að því leyti til að gildandi fjármálaáætlun til fimm ára var samþykkt á Alþingi 17. desember síðastliðinn. Sú stefnumörkun sem lá þá til grundvallar er efnislega óbreytt fyrir þau 35 málefnasvið og 103 málaflokka sem fjármálaáætlun tekur til og ekki lagðar til efnislegar breytingar á því sem kallað er grunnsviðsmynd fjármálaáætlunar til næstu ára.

Hér er því hreint ekki um hefðbundna fjármálaáætlun að ræða. Heildarramminn er á sínum stað en niðurbrotið úr hefðbundinni fjármálaáætlun er ekki birt. Þessi fjármálaáætlun er því naumast sett upp eins og lögin segja til um. Það vantar stefnumótun málefnasviða með skýrum hætti. Þó hefur í reynd kannski aldrei verið mikilvægara en nú að þessi atriði liggi ljós fyrir. Áætlunin felur í sér ágætt efnahagsyfirlit þannig að umræðan um þessa fjármálaáætlun snýst í raun í stórum dráttum um efnahagsmálin, auk einstakra málefna eins og ég mun víkja að.

Herra forseti. Í áliti meiri hluta hv. fjárlaganefndar segir að fjárfestingarátak ríkisstjórnarinnar sé mikilvægur liður í viðbrögðum við heimsfaraldrinum og áhrif þess eru talin sterkari en til að mynda annarra útgjaldaauka eða tekjueftirgjafar í formi skattalækkana. Aukin fjárfesting vinnur upp framleiðslutapið og eykur framleiðslugetuna. Það er skýrt markmið ríkisstjórnarinnar frá upphafi faraldursins að milda sveifluna með aukinni fjárfestingu, að skapa atvinnu en ekki síður að styrkja innviðauppbyggingu enn frekar og auka framleiðslugetu og framleiðni til langs tíma. Því er afar mikilvægt, segir þar, að fjárfestingarstigið dragist ekki saman meðan slaki er í efnahagslífinu.

Herra forseti. Hér verður að setja markið miklu hærra en að keppa að því að fjárfestingarstigið dragist ekki saman. Fullt tilefni er til að ráðast í marktækt átak í samgöngum og öðrum innviðum í landinu. Ærin eru verkefnin. Gera má ráð fyrir að lífeyrissjóðir og einkaaðilar ýmsir væru reiðubúnir að taka þátt í slíku átaki enda um arðbær verkefni að ræða sem gætu staðið undir aðlaðandi kjörum á skuldabréfum sem féllu vel að eignasöfnum lífeyrissjóða.

Í þessu sambandi er ástæða til að leggja áherslu á það álit sem fjármálaráð lýsir í umsögn sinni um margföldunaráhrif innviðafjárfestinga. Fjármálaráð telur margföldunaráhrif innviðafjárfestinga vera meiri en margföldunaráhrif margra annarra aðgerða. Í því sambandi kallar ráðið eftir að aukið sé gagnsæi hvað varðar skýra forgangsröðun fjárfestingarkosta og arðsemisútreikninga að baki þeim. Þá bendir fjármálaráð á að sýnt er að á síðustu árum hafi ónýttar fjárheimildir til fjárfestinga numið 25–30% af samþykktum fjárhæðum. Slíkar tafir eru til þess fallnar að veikja áhrif fjárfestinga sem hagstjórnarviðbragðs. Jákvætt er að sjá að boðaðar eru umbætur á þessu ferli.

Samtök iðnaðarins taka undir það í umsögn sinni sem segir í rammagrein 4 í fjármálaáætluninni, að margföldunaráhrif fjárfestingarútgjalda séu meiri og langvinnari en annarra ríkisútgjalda við þær aðstæður efnahagslegs slaka sem nú ríkja og fyrirséð er að ríki áfram a.m.k. að einhverju marki næstu misserin. Ánægjulegt er að dómi Samtaka iðnaðarins að horft hefur verið til verkefna sem geta aukið framleiðni til lengri tíma og þeirra sem skapa sem mesta atvinnu. Á því þurfum við svo sannarlega að halda. Fjármálastefna sem hefur mikilvægi innviða að leiðarljósi er að dómi Samtaka iðnaðarins til þess fallin að tryggja samkeppnishæft atvinnulíf og góð efnahagsleg lífskjör og undir það vil ég taka. Þau ljúka umfjöllun sinni með því að segja að með fjárfestingum í innviðum sé fjárfest í sjálfbærum hagvexti framtíðarinnar, eins og komist er að orði.

Það er einmitt, herra forseti, hagvöxturinn sem mun einn koma okkur út úr þeim vanda atvinnuleysis og skuldasöfnunar sem við þurfum nú að kljást við.

Í nýrri skýrslu Samtaka iðnaðarins og Félags ráðgjafarverkfræðinga um ástand og framtíðarhorfur innviða á Íslandi kemur fram að viðhaldi innviða þurfi að sinna til jafns við uppbyggingu þeirra ef þeir eiga að geta þjónað tilgangi sínum. Skýrsla þessara aðila sýnir að uppsöfnuð viðhaldsþörf nemur fjárhæðinni 420 milljörðum í innviðakerfinu hér á landi og að ástand sumra innviða er slæmt. Horfur eru víða ekki góðar í innviðakerfinu, til að mynda í vegakerfinu.

Ég vil, herra forseti, benda á gagnlega umsögn Samtaka iðnaðarins við umfjöllun um hið brýna verkefni sem stórauknar fjárfestingar í innviðum án vafa eru.

Herra forseti. Samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu þurfa að komast úr því fari sem einkennist hefur af löngu framkvæmdastoppi og áformum um borgarlínu. Lagning Sundabrautar er ein allra arðbærasta samgönguframkvæmd sem fyrirfinnst hér á landi. Styttri leið dregur úr útblæstri og leysir úr umferðarteppum. Hún myndi hafa mikil og jákvæð áhrif á byggð og samgöngur, ekki aðeins á höfuðborgarsvæðinu heldur bæta tengingu við Vesturland og Norðurland.

Varðandi almenningssamgöngur liggja fyrir tillögur sérfróðra aðila sem hafa myndað samtökin ÁS. Þær tillögur fela í sér um 80 milljarða ódýrari framkvæmd en ráðagerðir um borgarlínu standa til. Fram hjá slíkum ábendingum kunnáttumanna verður ekki litið.

Herra forseti. Líkt og fjármálaráð fjallaði um í álitum síðasta árs er sjálfbærni opinberra skulda ekki vandamál eins og málum er háttað nú þrátt fyrir aukningu skulda. Taka má undir með meiri hluta fjárlaganefndar að ástæðan er sú að fyrir efnahagsáfallið af völdum veirunnar var skuldastaða ríkissjóðs góð og vextir eru lágir um þessar mundir. Skuldir hins opinbera á Íslandi námu rétt tæplega 36% af vergri landsframleiðslu árið 2019. Er sjálfsagt að halda því til haga að hin góða skuldastaða ríkissjóðs fyrir efnahagsáfallið af völdum veirunnar á ekki síst rót í uppgjöri á slitabúum hinna föllnu banka úr efnahagshruninu 2008.

Þá er rétt að benda á það álit fjármálaráðs að markmið um að stöðva vöxt skuldahlutfallsins árið 2025 sé ígildi fjármálareglu og muni birtast af fullum þunga við gerð fjármálastefnu að afloknum kosningum og í fjármálaáætlunum á komandi árum.

Taka má undir með því sem segir í umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar að efnahagslegur bati hvíli á vexti ferðaþjónustunnar, a.m.k. að verulegu leyti. Meðalútflutningstekjur þjóðarbúsins af hverjum erlendum ferðamanni hafa verið á bilinu 260.000–280.000 kr. síðastliðin þrjú ár á föstu gengi samkvæmt tölum Hagstofunnar yfir þjónustuviðskipti. Gera má ráð fyrir að útflutningstekjur innlendra fyrirtækja af hverjum 100.000 erlendum ferðamönnum, geti því numið 26–28 milljörðum króna. Augljóst er að það mun hafa jákvæð áhrif á landsframleiðslu, atvinnustig og hagvöxt.

Herra forseti. Við eigum að læra af reynslunni og forðast massatúrisma með tilheyrandi ágangi á landið. Markmiðið má orða svo að hámarka arð af hverjum ferðamanni samhliða því að hann skilji eftir sem fæst fótspor í auðlindinni. Svona orðaði kunnáttumaður í þessu fagi það við mig á sínum tíma. Í riti Samtaka ferðaþjónustunnar sem er nýkomið út og ber yfirskriftina Viðspyrnan er bent á að bæta skilyrði fyrir það sem kallað er fágætis-, heilsu- og hvataferðaþjónustu til að auka tekjur af hverjum manni enda talið að ferðamenn sem komi í slíkum erindum sem kennd eru við fágæti, þ.e. sérvaldar ferðir, heilsutengdar ferðir og svokallaðar hvataferðir, verji meira fé á ferðum sínum en aðrir gestir sem hingað koma.

Herra forseti. Í nýrri skýrslu birta þeir Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði, og Stefán Andri Stefánsson þá niðurstöðu að Ísland fari nærri því að slá heimsmet í skerðingum innan almannatryggingakerfisins. Skýrslan ber yfirskriftina Kjör lífeyrisþega – Samspil almannatrygginga og lífeyrissjóða í mótun tekna og er unnin í samstarfi við Eflingu stéttarfélag og Eddu Rannsóknasetur við Háskóla Íslands. Skerðingarnar koma fram í því að útgjöld hins opinbera vegna lífeyrisgreiðslna eru óvenjulág. Í dag glíma 25–50% íslenskra lífeyrisþega við tekjuvanda eftir því hvar lágtekjur mörkin eru dregin. Réttindi á almennum markaði eru lakari en í opinbera geiranum. Í skýrslunni eru færð ýmis rök fyrir því að hámarkslífeyrir almannatrygginga sé of lágur. Skerðingar greiðslna almannatrygginga byrja við of lágar greiðslur frá lífeyrissjóðum að mati höfunda. Leiðir þetta af lágu frítekjumarki og veldur því að skyldusparnaður í lífeyrissjóði fer að miklu leyti í lækkun á útgjöldum ríkisins til almannatrygginga. Skilar hann sér því ekki nægilega til kjarabóta fyrir lífeyrisþegana sjálfa. Höfundar leggja til á grundvelli þessarar greiningar að frítekjumark gagnvart lífeyrissjóðum verði hækkað upp í minnst 100.000 kr. á mánuði en gildandi frítekjumark er 25.000 kr. og hefur staðið óbreytt frá því að það var ákveðið með löggjöf 2016. Einnig vilja þeir samræma lífeyriskjör öryrkja og ellilífeyrisþega og að frítekjumark vegna atvinnutekna verði aldrei lægra en sem nemur lágmarkslaunum á vinnumarkaði.

Í samtali við vefmiðilinn mbl.is þann 21. maí benti annar höfunda, Stefán Ólafsson, á til samanburðar að hvorki Noregur né Danmörk væru með frítekjumarki af þessu tagi en þar geta lífeyrisþegar unnið eins mikið og þeir vilja án þess að launin komi til með að skerða lífeyrisgreiðslur þeirra.

Höfundar segja íslensku lífeyrissjóðina vera öflugri en víða annars staðar. Þeir telja að stjórnvöld hafi aftur á móti iðulega gengið of langt í að spara sér útgjöld til almannatrygginga í skjóli þess hve vel hefur tekist að byggja hér upp öfluga lífeyrissjóði. Ríkið hefur þannig dregið úr útgjöldum til almannatryggingakerfisins of snemma, löngu áður en lífeyrissjóðirnir byrja að skila fólki fullri uppsöfnun á réttindum þar.

Í ljósi tilvitnaðrar skýrslu verður að telja almannatryggingar alvarlega vanfjármagnaðan málaflokk, herra forseti. Hið sama á við um hjúkrunarheimilin sem búa við alvarlega rekstrarstöðu vegna vanfjármögnunar. Ég byggi hér á frétt í Morgunblaðinu í dag, 27. maí 2021, sem ber yfirskriftina: Ekki tekið á vanda hjúkrunarheimilanna. Þar segir að ekki sé gert ráð fyrir auknum útgjöldum til að bjarga rekstri hjúkrunarheimila landsins í breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar við þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar um fjármálaáætlun til næstu fimm ára. Framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, það eru þau fyrirtæki sem hafa með höndum rekstur á umræddum heimilum m.a., gagnrýnir það harðlega. Formaður fjárlaganefndar segir að frekari gögn þurfi til að hægt sé að meta fjárþörfina nákvæmlega. Segir í fréttinni að hann reikni með að tekið verði á vandanum í fjáraukalögum og fjárlögum í haust. Í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar er bent á að rekstur nýrra hjúkrunarheimila sé ekki að fullu fjármagnaður frá og með árinu 2023 og leggur nefndin til að 9 milljörðum verði bætt við út áætlunartímann til að standa undir því. Eybjörg Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, er furðu lostin, segir í frétt Morgunblaðsins eftir lestur álits meiri hluta fjárlaganefndar og, með leyfi forseta, ætla ég að vitna til orða hennar:

„Það veldur okkur gríðarlegum vonbrigðum ef þetta eru viðbrögðin. Við höfum beðið í heilt ár eftir skýrslu sem greinir rekstrarstöðu hjúkrunarheimilanna. Hún er komin og sýnir vanfjármögnun heimilanna. Niðurstaðan frá 2019 er frekar vanmat en hitt því síðar komu til afturvirkar kjarasamningsbundnar launahækkanir. Augljóst er að staðan er mjög þröng og hjúkrunarheimilin stefna í þrot. En ekkert á að gera. Ríkisstjórnin virðist hvorki vilja sjá né heyra af þessum málum.“

Þetta segir Eybjörg Hauksdóttur. Hún segir að hjúkrunarheimilin geta ekki beðið til haustsins eftir hugsanlegum leiðréttingum í fjáraukalögum eða fjárlögum næsta árs. Grípa verði til aðgerða strax. Hún bendir á að þjónustusamningar hjúkrunarheimilanna við Sjúkratryggingar Íslands renni út í lok ársins. Ekki verði samið um óbreytt daggjöld sem keyri heimilin í þrot og telur hún ljóst að fleiri muni skila rekstrinum til ríkisins en þegar er orðið.

Herra forseti. Ekki verður vikist undan því að bæta úr þeim málefnum eldra fólks sem ég hef hér gert að umtalsefni. Gera verður betur en lagt er til í þeirri fjármálaáætlun sem hér er rædd.

Ég vil að lokum leggja áherslu á bætta ráðstöfun opinbers fjár, sparnað, aðhald og ráðdeild. Ákvarðanir um útgjöld eiga skilyrðislaust að vera reistar á að árangur sé mælanlegur og að gætt sé ýtrustu skilvirkni.