151. löggjafarþing — 102. fundur,  27. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[15:08]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Það er mikið uppbyggingarstarf fyrir höndum og þarf að koma hreyfingu á atvinnulífið eins og við þekkjum. Það þarf að styðja við endurreisn þúsunda starfa, tryggja efnahagslegan stöðugleika og nauðsynlega grunnþjónustu, bæta lífskjör íbúa landsins til frambúðar. Verkefnið er með öðrum orðum ógnarstórt. Það snýst að þessu leyti um leið um það hver framtíðarsýnin er og verður fyrir Ísland.

Mig langar til að byrja á því að draga saman nokkur atriði um stöðuna núna sem er grafalvarleg fyrir almenning og atvinnulíf. Verðbólgumarkmið Seðlabankans er að halda verðbólgunni sem næst 2,5% yfir hvert 12 mánaða tímabil. Frá því að ríkisstjórnin tók við völdum hefur verðbólgan verið mæld í 41 skipti. Í 36 skipti hefur hún verið yfir verðbólgumarkmiðinu sem segir okkur að það á við um flest þeirra fyrir það áfall sem heimsfaraldurinn færði okkur. Síðustu 12 mánuði hefur hún verið yfir markmiði og fjarlægst þessi viðmið enn frekar. Nýjasta mælingin sýnir verðbólgu upp á 4,6%. Ekki er nóg með að verðbólgan nálgist það að vera með öðrum orðum tvöfalt meiri eða tvöfalt hærri en sett markmið gera ráð fyrir heldur hefur hún hækkað hlutfallslega langmest á Íslandi miðað við helstu samanburðar- og samkeppnislönd innan OECD. Á mannamáli þýðir þetta einfaldlega að verðlag hefur hækkað mest á Íslandi undanfarin misseri. Þar erum við farin að tala um veruleika og aðstæður sem hafa bein áhrif á lífskjör hér á landi.

Annar punktur er atvinnuleysið sem er í hæstu hæðum eins og við erum því miður öll meðvituð um. Atvinnuþátttaka hefur aldrei verið minni. Ný drög að fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar gera ráð fyrir að atvinnuleysi verði því miður áfram töluvert. Þegar við skoðum áætlanir fyrir árið 2023 er gert ráð fyrir að atvinnuleysi hér á landi verði enn á bilinu 4–5%. Það eru óþægilegar og ógnvænlegar tölur, umtalsvert hærri en meðalatvinnuleysi síðastliðinna áratuga hér á landi og skýrt merki um viðvarandi meira atvinnuleysi en við höfum áður kynnst. Aftur sker Ísland sig að þessu leyti úr frá samanburðarlöndunum, þ.e. með því að atvinnuleysi hefur hlutfallslega aukist mest hér undanfarin misseri. Þetta er alvarleg staða og staða sem á að fá langtum meiri athygli á þessum vettvangi af hálfu ríkisstjórnarinnar en verið hefur.

Annar punktur er vaxtastigið á Íslandi. Íslendingar þekkja það auðvitað vel að við búum að jafnaði við mun hærra vaxtastig en önnur Evrópuríki. Það er stundum talað um Íslandsálag í því samhengi, en þetta álag hefur haldið sér í þrengingum síðustu missera. Vissulega lækkuðu vextir og fyrir því fann almenningur en engu að síður, þrátt fyrir að við séum að upplifa lægri vexti en áður, eru þeir hærri en annars staðar. Nú er vaxtahækkunarferli hafið á Íslandi og við erum þar að taka vafasama forystu. Við þekkjum það auðvitað, og ég ætla ekki að orðlengja um það, hvað háir vextir gera heimilunum í landinu, fjölskyldunum í landinu og hvað þeir gera fyrirtækjunum og atvinnulífinu. Ég vil leyfa mér að segja, og held að ég sé ekki að tala glannalega í þeim efnum, að þetta er veruleiki sem hefur þau áhrif að lífskjör hér á landi eru verri að þessu leyti og þetta er stór þáttur í því hvar við stöndum í því að geta boðið upp á samkeppnishæf lífskjör fyrir almenning og fyrirtæki í landinu.

Annað atriði er staðan á fasteignamarkaði. Vextir hafa verið lágir, eins og ég nefndi, staðan hefur kallað fram mikla eftirspurn og markaðurinn hefur ekki getað sinnt eftirspurninni að fullu. Við sjáum nánast daglegar fréttir af því hvernig útlitið er á fasteignamarkaði og hvað er að gerast með verðlagningu þar. Nú blasir þessi staða við fólki sem er að reyna að koma sér inn á fasteignamarkaðinn og sömuleiðis því fólki sem er þegar komið þangað og kannski búið að skuldsetja sig með þeim hætti að þetta verður þungt. Þetta er ekki góð blanda og áframhaldandi þróun í þessa átt getur því miður hæglega leitt til þess að stór hópur fólks lendi í greiðsluerfiðleikum. Það á ekki síst við um þá sem síðast komu inn, nýjustu kaupendurna. Þetta eru staðreyndir sem sýna svo að ekki verður um villst að staðan hér á landi er að mörgu leyti erfiðari en annars staðar og sannarlega ekki sú að hér sé allt í himnalagi.

Það eru nokkrir þættir sem ég vil víkja sérstaklega að varðandi fjármálaáætlun. Fyrst atriðið þar er atvinnuleysisspáin. Eins og ég nefndi er gert ráð fyrir 5% atvinnuleysi í lok áætlunartímabilsins sem myndi þá þýða að enn yrðu 10.000 einstaklingar atvinnulausir að jafnaði. Það eru 3.000 fleiri en við eigum að venjast fimm árum frá deginum í dag að telja. Þessu fylgir gífurlegur kostnaður fyrir samfélagið, fyrir einstaklinga og fyrir ríkissjóð, kostnaður sem er mældur í tugum milljarða króna á ári hverju. Þúsundir einstaklinga og fjölskyldna munu samkvæmt því búa við skertar tekjur og glíma um leið við öll þau vandamál sem langvarandi atvinnuleysi fylgja, fjárhagsleg, félagsleg og andleg. Við því verður einfaldlega að bregðast með kraftmeiri hætti en ríkisstjórnin kveðst ætla að gera og við vitum að atvinnusköpun er grundvallaratriði í þessari stöðu.

Nýrrar ríkisstjórnar bíður að rækta umhverfi sem mun ýta undir náttúrulega fjölgun starfa á almennum vinnumarkaði til að sporna gegn þessu. Þar vil ég nefna að það verður að gera atvinnulífinu og fyrirtækjunum í landinu auðveldara að vinna með stjórnvöldum að þessu markmiði með því að lækka atvinnutengdar álögur á þau. Ég vil sérstaklega nefna að horfa þarf til fleiri starfa í landsbyggðunum, bæði í einkageiranum en einnig hvað varðar opinber störf. Það gerum við t.d. með því að þora að fjárfesta í grænni tækni, fjárfesta í menntun og innviðum með hvötum til nýsköpunar en síðast en ekki síst með ábyrgri hagstjórn. Það verður auðvitað best gert með því að tryggja gengisstöðugleika til skamms tíma litið með bindingu krónunnar við evru en til lengri tíma litið með því að ganga inn í Myntbandalag Evrópusambandsins, því að þessar sveiflur krónunnar eru dýrkeyptar fyrir alla íbúa landsins og vinna með beinum hætti gegn atvinnusköpuninni og gegn hagvexti.

Herra forseti. Við búum við sveiflukennt hagkerfi þar sem verðbólga er há og vextir sömuleiðis og það er auðvitað afleiðing þess að vera með örgjaldmiðil í opnu hagkerfi. Markmið Seðlabankans er og hefur verið, eins og ég nefndi hérna í byrjun, að halda verðbólgu sem næst 2,5% yfir hvert 12 mánaða tímabil en frá því að þessi ríkisstjórn tók við völdum hefur heyrt til undantekninga að það markmið hafi náðst. Þarna vil ég aftur nefna hið augljósa, af því að Covid hefur yfirtekið hið pólitíska svið, að það skiptir máli og þarf að rifja upp og benda á og má ekki gleyma því að þetta var staðan fyrir Covid. Ríkissjóður var þegar orðinn ósjálfbær áður en efnahagslegt högg samfara þessum heimsfaraldri skall á. Það voru ekki bara þingmenn Viðreisnar sem héldu þessu fram og vöruðu við því hér í þingsal, t.d. strax árið 2019. Því hefur verið flaggað af helstu sérfræðingum þjóðarinnar. Þetta var síðast staðfest af fjármálaráði í umsögn um fjármálaáætlun þessa og þar segir, með leyfi forseta:

„Undirliggjandi afkoma var orðin ósjálfbær á toppi hagsveiflunnar árið 2019. Nú er umræða um stöðugleika og sjálfbærni aftur fyrirferðarmikil en á nýjan hátt. Um leið þurfa stjórnvöld að huga að varfærni hvað varðar hæfilegt jafnvægi tekna og gjalda.“

Herra forseti. Lengi hefur blasað við að margvíslegir innviðir í samfélaginu þarfnast endurnýjunar og byggja þarf nýja. Á þetta hefur oft verið bent og ég leyfi mér að nefna Samtök iðnaðarins í því sambandi. Ég held að það sé samstaða um að sú staða sé fyrir hendi að margir innviðir þarfnist endurnýjunar en vinna þarf að þessum verkefnum jafnt og þétt og þar skipta tímasetningar máli, að tímasetningarnar við þessa uppbyggingu séu ekki þannig að þær séu farnar að framkalla og auka þenslu þegar vel árar. Í þessu samhengi þarf því að huga betur að stefnumótun. Það þarf að undirbúa verkefni betur og það þarf að tryggja að framkvæmdastig eða tími framkvæmda sem sátt er um sé þannig að nægur tími sé til að vinna verkefnin sem tilbúin eru til útboðs. Það dugar ekki að fara í verkefni sem sannarlega er þörf á, við þurfum líka að huga að tímasetningum í því sambandi. Þarna finnst mér ríkisstjórnin ekki fyllilega hafa valdið verkefninu því að hún átti lítið tilbúið þegar rétti tíminn var og það hafa orðið tafir á mikilvægum verkefnum sem hefði verið svo ákjósanlegt að ráðast í strax þegar efnahagslegar afleiðingar heimsfaraldursins komu hér fram. Fjármálaráð gerði þetta einnig að sérstöku umfjöllunaratriði í umsögn sinni um fjármálaáætlun og ætla ég að vísa aftur til orða ráðsins, með leyfi forseta:

„Eins og áður hefur verið bent á í þessu áliti tekur tíma að ráðast í fjárfestingar og því erfitt að beita þeim til sveiflujöfnunar. Gildir það jafnt fyrir sveitarfélögin sem ríkið. […]

Ákvarðanir stjórnvalda til að bregðast við með aðgerðum í opinberum fjármálum taka oft tíma og því er hætta á að þær komi of seint og vinni jafnvel gegn tilætluðum markmiðum. Þetta endurspeglast í umræðu um fjárfestingastig hins opinbera á síðasta ári. Í rammagrein 10 í áætlun eru rædd ýmis vandkvæði er snúa að töfum í að hefja fjárfestingu eftir að fjárheimildir hafa fengist.“

Hér myndi ég kannski vilja fara með umræðu um fjárfestingu í innviðum í aðeins aðra átt og minna á að þegar við erum að tala um fjárfestingar erum við líka að tala um fjárfestingu á borð við innviði í þjónustu við börn. Ég nefni t.d. þá stöðu sem BUGL er í í dag, innviði á borð við heilbrigðisþjónustu með áherslu á forvarnir sem geta til lengri tíma sparað samfélaginu kostnað og sársauka, innviði á borð við löggæslu en félagslegar afleiðingar ástands sem þessa birtast lögreglunni gjarnan mjög skýrt til skemmri tíma litið en líka til lengri tíma. Verkefnið í faraldrinum var auðvitað í upphafi fyrst og fremst að ná tökum á veirunni sjálfri samhliða efnahagslegum afleiðingum sem voru þungar en ójafnar yfir samfélagið en til lengri tíma líka andleg líðan þjóðar. Í því samhengi verður að horfa til þess, þegar við erum að tala um fjárfestingar, að fjárfest sé í innviðum sem hjálpa með þennan þriðja punkt, andlega líðan þjóðar.

Herra forseti. Ég vil minnast á, og ég veit að hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson gerði það líka í ræðu, þingsályktun Viðreisnar sem Alþingi samþykkti einróma í aprílmánuði 2018 sem fjallaði um tryggingu gæða, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga. Þar ályktaði Alþingi að fela ætti hæstv. fjármálaráðherra að útfæra stefnumörkun um opinberar fjárfestingar, allt frá hugmyndastigi til framkvæmda og út ætlaðan líftíma þeirra fjárfestinga og framkvæmda. Ráðherrann átti að skipa fimm manna starfshóp til að mynda formlegan samstarfsvettvang stjórnvalda, atvinnulífs og fræðasamfélagsins um gerð ramma til þriggja ára í senn til að byggja upp færni, til að byggja upp þekkingu og efla rannsóknir á þessu sviði, þ.e. hvað varðar gæði, hagkvæmni og skilvirkni. Tímafresturinn sem veittur var til þess að fara af stað var 1. nóvember 2018 en ekkert hefur spurst til málsins eftir að Alþingi samþykkti ályktunina. Þetta er í reynd mjög alvarlegt. Hér liggur fyrir skýr vilji þingsins með þessari samþykkt en svo virðist sem sá vilji þingsins hafi verið að engu hafður.

Virðulegi forseti. Viðreisn hefur margsinnis gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir að hafa spennt bogann allt of hátt við aukningu ríkisútgjalda á toppi langrar uppsveiflu í efnahagslífinu og bent á það, sem ég er að nefna hér aftur, að ríkisfjármálin voru orðin ósjálfbær áður en þetta efnahagslega áfall dundi á okkur. Ríkisreikningur ársins 2019 sýnir þetta svart á hvítu. Þá varð um 70 milljarða sveifla til hins verra frá fjárlögum þessa árs og ríkisstjórnin, ég nefni það aftur og ítreka, hefur hunsað öll varnaðarorð frá okkur í því samhengi. En við höfum sannarlega ekki verið ein að þessu leyti. Ríkisstjórnin kaus, held ég að verði að segja, að líta fram hjá þeirri staðreynd að blikur voru á lofti um framvindu efnahagsmála, að það voru skýr merki um samdrátt í efnahagslífinu. Þetta hefur fjármálaráð líka bent á með skýrum hætti en í áliti þess um þessa fjármálaáætlun segir m.a. um þetta atriði, með leyfi forseta:

„Á þensluskeiðinu fyrir kórónuveirufaraldurinn var losað um beltið og fyrirferð hins opinbera jókst með þeim hætti að undirliggjandi afkoman er orðin neikvæð. Spyrja þarf hvenær og hvernig vinda eigi ofan af þessari þróun.“

Þetta finnst mér vera nokkuð þung orð í garð ríkisstjórnarinnar því að þetta hafði síðan í reynd þau áhrif að við vorum sannarleg verr í stakk búin til að takast á við afleiðingar kreppunnar en við hefðum þurft að vera. Þessu er nauðsynlegt að halda vel til haga þegar við ræðum ríkisfjármálin.

Forseti. Fjármálaáætlunin er ekki margorð um það hvernig við tökum á ríkisrekstrinum á næstu misserum og árum. Það er talað um afkomubætandi aðgerðir upp á tugi milljarða sem er sérstakt orð til að forðast að tala um niðurskurð og skattahækkanir, en þar eru engar hugmyndir lagðar á borð. Allir vita að afkomubætandi aðgerðir þýða í reynd niðurskurð eða skattahækkanir. Það er slæmt að ríkisstjórnin treystir sér ekki til að segja það berum orðum hvað hún er að fara í þeim efnum.

Ég sé að ég er að renna út á tíma þannig að ég ætla að enda á því að segja að helstu áskoranir eru óstöðugleiki, háir vextir og skortur á langtímastuðningi og framtíðarsýn hins opinbera og of lítil fjárfesting í íslensku atvinnulífi. Ástæður þess vanda eru að miklu leyti efnahagsumhverfið sem krónan skapar. Ég sé að ég hef ekki meiri tíma til að fara yfir lokakafla ræðu minnar og enda á því að segja að við þreytumst ekki á að fjalla um þetta og munum halda því áfram.