151. löggjafarþing — 102. fundur,  27. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[15:28]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir ágætisræðu þó svo að það hafi vaknað ákveðin spurning hjá mér þegar ég hlustaði sérstaklega á síðari hluta ræðunnar þar sem hv. þingmaður fjallaði vel um ríkisútgjöld og fjárfestingu hins opinbera og talaði um að ríkisstjórnin hefði spennt bogann svolítið hátt og farið fram úr sér. Á meðan ég heyrði þessi orð var ég með fjármálaáætlun opna á bls. 42 þar sem sýnt er hvernig skuldalækkun hins opinbera var mun meiri yfir tímabilið 2011–2019 en í nokkru öðru landi í heiminum. Ég hafði krotað hjá mér síðast þegar ég var að lesa í gegnum þetta hvernig þetta ætti að teljast gott. Þegar eitt ríki er að gera eitthvað allt öðruvísi en öll önnur ríki þá hlýtur það að þurfa einhverjar stórkostlegar útskýringar. Það að Ísland hafi lækkað skuldir hins opinbera töluvert meira heldur en öll önnur ríki bendir kannski til að hagstjórninni sé einhvern veginn ranglega stýrt hér. En að sjá þetta á sama tíma og ég heyri hv. þingmann tala um að ríkisstjórnin sé að eyða of miklu, spenni bogann of hátt — þetta passar ekki saman í mínum huga. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort það sé gagnrýni á það hvernig er verið að eyða í tiltekin verkefni eða (Forseti hringir.) vegna þess að við höfum talað um að fjárfestingarstigið væri of lágt, þ.e. fjárfesting í fyrirtækjum. Ef hann gæti útskýrt það aðeins vegna þess að þetta lítur út eins og mótsögn.