151. löggjafarþing — 102. fundur,  27. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[15:35]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni, mér heyrist að við séum mjög á svipuðum slóðum. Þungamiðjan í gagnrýni okkar hefur kannski verið af tvennum toga, annars vegar þetta atriði sem ég nefndi, að ríkisstjórnin sé aðeins að fela að við vorum veik í upphafi heimsfaraldurs vegna þess að það var ekki hlustað á varnaðarorðin. Við vorum veik en við þurftum ekki að vera veik. Hitt er síðan það að okkur hefur fundist ríkisstjórnin vera allt of hægfara í því að bregðast við þeirri stöðu sem nú er uppi. Við töluðum skýrt um það, við höfum haldið kynningarfundi og skrifað um það að við vildum að ríkið beitti sér með því að stíga stór skref strax í upphafi og koma inn með kraftmiklum hætti til þess að draga úr högginu. Þetta var ekki gert.

Annað atriði er kannski umræðan sem maður heyrir dálítið núna um skuldirnar. Almennt séð í því sambandi, akkúrat núna þegar verið er að fara í aðgerðir af hálfu stjórnvalda, sé eitt að horfa á skuldastöðuna en hitt er kannski ekki síður þýðingarmikið, að horfa á það hver er greiðslubyrðin. Það er atriði sem stendur ansi oft út af í umræðunni. Það var einörð afstaða okkar og hún hefur ekki breyst að við vildum að það yrðu tekin markviss og stór skref af hálfu ríkisstjórnarinnar. Mér hefur t.d. fundist í þeim efnum til fyrirmyndar hvernig Reykjavíkurborg nálgaðist það verkefni því að þeirra stærsta efnahagslega aðgerð fólst að mínu viti einfaldlega í því að þeir vörðu störfin. Þeir eru með marga starfsmenn undir og hluti af því að verja borgarbúa á viðkvæmum tímapunkti var að verja þessi störf. Það finnst mér hafa verið ábyrg fjármálastjórnun og mér heyrist að við séum á sömu blaðsíðu í þessum málum.