151. löggjafarþing — 102. fundur,  27. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[16:23]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég var búinn að lofa sjálfum mér því að ég myndi ekki halda enn eina ræðuna um áferð og markleysi fjármálaáætlunar þessarar ríkisstjórnar, ég hef þurft að gera það svo oft áður og mér finnst það frekar leiðinlegt. En eftir samtal við hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson í gærkvöldi og eftir að hafa heyrt ágætar ræður hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar, þar sem hann fór mjög vel yfir tölulegu atriðin, kemst ég ekki hjá því að fara aðeins ofan í áferðarlegu atriðin og ég ætla að reyna að gera þetta skipulega. Þegar ég var að fara aðeins aftur yfir fjármálaáætlunina varð mér hugsað til skrifa James C. Scotts, mannfræðings við Yale-háskóla, og kannski aðallega til bókar hans sem heitir Seeing Like a State, þar sem hann fjallar um það hvernig ríki reyna að einfalda og smætta alla hluti niður í viðráðanlegar stærðir svo að hægt sé að ná stjórn á þeim. Reyndar er ágætissamantekt á þeirri hneigð hjá Venkat Eshwara þar sem hann tók þetta saman og sagði að fyrsta skrefið væri að horfa á flókinn og ruglingslegan raunveruleika á borð við samfélagslega eiginleika gamallar borgar og annað skrefið að mistakast það gjörsamlega að átta sig á því hvernig öll smáatriðin í þeim flókna veruleika vinna saman. Þriðja skrefið er að ganga út frá því að ástæðan fyrir því að maður skilji ekki hvað er í gangi sé sú að það sem er í gangi sé ófullkomið, frekar en að maður sé sjálfur takmarkaður. Næsta skref er að búa til sjálfstæða „carte blanche“-útgáfu af því hvernig raunveruleikinn ætti að líta út og færa svo rök fyrir því að þessi einfaldleiki og þessi platónska regla í þessari sýn sé rökrétt. Svo eru síðustu tvö skrefin að beita valdi til að koma þeirri sýn áleiðis, jafnvel þó að það útrými raunveruleikanum sem var til staðar áður, og lokaskrefið er að horfa á þessa fullkomlega rökréttu útópíu mistakast fullkomlega.

Ég tek þetta saman vegna þess að þegar maður horfir á fjármálaáætlunina eru spárnar fyrst og fremst línulegt áframhald af því sem lítur best út hverju sinni. Það eru engin öryggisspil. Reyndar eru nánast aldrei öryggisspil eða lágmarks tölfræðileg samantekt á því hvað gæti farið úrskeiðis í nokkurri greiningu sem maður fær frá ríkisstjórninni, hvort sem það er þjóðhagsspá eða greiningar Seðlabankans eða hvað. Öryggisspil eru fáheyrð hamingja í greiningu á íslensku efnahagslífi. En það er kannski verra að það er ekki augljóst út frá þessu skjali hvað við ætlum okkur sem samfélag og hvernig ríkisstjórnin sér fyrir sér að samfélagið geti þróast. Ef hingað kæmi vera utan úr geimnum og reyndi að átta sig á því hvaða hlutverki hagkerfi Íslands þjónaði myndi viðkomandi væntanlega komast að þeirri niðurstöðu að markmiðið væri að reyna að draga sem mest saman í útgjöldum ríkisins, að spara sem mest, að byggja sem minnst upp, að viðhalda fjármálareglum, hvort sem þær væru í samræmi við eðli undirliggjandi samfélags eða ekki, og að öllu leyti að reyna að koma í veg fyrir að hagþróun verði á eðlilegan og sjálfbæran hátt. Dæmi þess má sjá í því að Nýsköpunarmiðstöðin var lögð niður, sem oft hefur verið gagnrýnt, og á rosalega illa skipulögðum og mjög óljósum breytingum á nýsköpunarumhverfinu og því að aldrei hefur verið til nein iðnaðarstefnu á Íslandi, þó svo að nýlega hafi þingsályktunartillaga okkar Pírata og Framsóknarflokksins, um að fara loksins að bæta úr því, verið samþykkt. En þangað til iðnaðarstefna er komin fram getum við ekki farið að hrósa sigri þar. Við sjáum atvinnuvegi sem eru einhæfir og það er ótrúlega mikil og víðfeðm verndarstefna gagnvart mörgum þeirra. Ákveðnir atvinnuvegir einkennast af klíkuskap og möguleikarnir á efnahagsþróun eru takmarkaðir vegna þess að þar sem önnur ríki hefðu beitt iðnaðarstefnu eða nýsköpunarstefnu til að reyna að hvetja til fleiri atvinnuvega hefur alltaf verið stunduð sú pólitík hér að vernda það sem fyrir er, sérstaklega ef nægilega vel tengdir aðilar standa þar að baki, og vona svo bara að þar komi annar hvalreki.

Sú einfaldaða mynd sem við sjáum bæði í fjármálaáætluninni núna og í fjármálaáætlunum síðustu ára, frá því að fjármálaáætlanir urðu á annað borð til, og reyndar ef maður færi ofan í fjárlög langt aftur í tímann þar að auki, er ímynd samfélags sem er lítið og einfalt og auðskiljanlegt. En það er ekki reyndin. Staðreyndin er sú að íslenskt samfélag er flókið og fjölbreytt. Regluverkið er búið að sannfæra sig um að þetta sé allt saman svo einfalt að það þurfi ekkert annað að gera en að minnka ríkisútgjöld í uppsveiflu, auka þau aðeins í niðursveiflu, vona að hægt sé að byggja nýtt sjúkrahús ef nógu margir kvarta frekar en að vera með langtímaáætlun og byggja upp áður en þörfin verður knýjandi og styrkja stofnanirnar sem eru í samfélaginu þegar þörf er á því frekar en þegar þær hafa verið sveltar svo lengi að þær geta ekki sinnt starfi sínu lengur. Vegna allrar þessarar einföldunar er rosalega auðvelt að besta sig út í horn í þessu ríkisfyrirkomulagi. Það er hægt að nýta veikleika í stjórnkerfinu og það er hægt að hafa stjórnkerfið að fífli ef einhver hefur hug á því.

Við sjáum fram á lok flókins kjörtímabils. Hlutirnir litu þokkalega út í fyrstu en síðan kom niðursveifla í hagkerfinu sem var á allan hátt fyrirsjáanleg. Að auki kemur ófyrirsjáanlegur heimsfaraldur ofan í það. Maður hefði haldið að réttu viðbrögðin hefðu verið að segja: Já, umhverfið sem við störfum í er brjálæðislega flókið. Það sem við höfum verið að gera hingað til hefur ekki verið nóg. Víða í samfélaginu er þörf til að fara út af þessu spori, taka áhættu í að byggja upp atvinnuvegi, fjölga atvinnuvegum, byggja miklu meira upp af húsnæði, hætta með nýklassíska hagstjórn og taka jafnvel upp eitthvað sem byggist á nútímahugmyndum um það hvernig peningar virka og gera hlutina á einhvern hátt sem bendir til að við séum stórt og flókið samfélag sem er að fara í rétta átt.

Hér er margt ánægjulegt gert og reynt að benda í réttar áttir að einhverju leyti, t.d. með aukamilljarði í umhverfisvernd — ókei, frábært, 10 milljarðar yfir tíu ára skeið. Það er merki um að áhugi sé til staðar á því að gera eitthvað mikið og ég veit að sá áhugi er fyrir hendi hjá mörgum pólitískt, en fjármálaáætlunin bendir ekki til þess að til standi að láta neitt af þeim pólitísku hugðarefnum verða að veruleika. Ég get svo sem getið mér til um það hver ástæðan er. Ég veit ekki hvort ég get gert það á sanngjarnan hátt gagnvart þeim sem eiga í hlut, þeim þremur flokkum sem mynda meiri hluta hér á Alþingi og mynda ríkisstjórn Íslands. En ef ég ætti að giska þá væri það það að ekki er samstaða um það hvert við eigum að fara, sem er skiljanlegt út frá pólitík þessara ólíku flokka. Það sem er alvarlegt er að það vantar kannski samstöðuna um að reyna að komast að einhverri sameiginlegri niðurstöðu. Þegar hægt er að sleppa því samtali er miklu auðveldara að detta ofan í einmitt þessa ofureinfölduðu mynd af samfélaginu sem James C. Scott varar við. Það er miklu auðveldara að ganga út frá því að allt muni verða með felldu, sérstaklega þegar hægt er að horfa á helling af gröfum í hellingi af skýrslum sem liggja öll á línulegu áframhaldi á því sem lítur best út án þess að nein öryggisspil eða annað gefi til kynna að þetta gæti mögulega farið út af sporinu.

Eins leiðinlegt og mér finnst að halda ræður af þessu tagi, þar sem ég fer bara yfir áferðina, þá hef ég þurft að gera það þetta oft þau ár sem ég hef verið hér á þingi vegna þess að þetta hefur ekki lagast. Við erum enn nokkurn veginn á sama stað og við vorum árið 2016 þegar ég kom inn á þing. Jú, margt hefur gerst í pólitík, við erum búin að breyta hellingi af lögum, það er búið að skipta út átakaumræðuefnum, einu fyrir annað. En erum við komin á annan stað? Ég er ekki viss. Við erum með sömu stóru atvinnuvegina og þeir eru jafnmargir. Ferðaþjónustan var orðin til 2016. Það er jafn mikið af vondum ummerkjum í hagkerfinu. Það er jafn mikið af vondum dæmum um klíkuskap og annað sem leikur á stjórnkerfið í mörgum tilfellum. Hér er ekki búið að gera það sem allir vissu að þyrfti að gera til að byggja upp nýsköpun og stuðningskerfi o.s.frv. og við erum enn að vinna út frá gildum í hagstjórn og fjármálareglum sem er búið að sýna fram á að ganga ekki upp.

Það er von mín að einhvern tímann á næstu árum muni einhver átta sig á því að það er hægt að gera hlutina betur, að það er hægt að nálgast hlutina út frá því að fagna fjölbreytileikanum og flækjunni og öllu því sem er til staðar í því dásamlega landi sem við búum í og fara að vinda ofan af allri þessari þreyttu hneigð. Ég veit að við getum betur. Hér koma fram ólíkar hugmyndir og það eru margir ólíkir flokkar á þingi og hver þeirra, jafnvel þeir sem mér geðjast síst að, hefur samt eitthvað til málanna að leggja. Ég held því að við ættum að taka þessa fjármálaáætlun sem merki um það sem gerist þegar við reynum að gera sem minnst og reyna að búa til algera andstæðu þess í formi fjármálaáætlunar sem sýnir hvað við getum gert þegar við reynum sem mest.