151. löggjafarþing — 102. fundur,  27. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[16:38]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Smára McCarthy fyrir athyglisverða ræðu. Ég ætla ekki að segja að hv. þingmaður hafi sært mig hingað upp en ýmislegt í ræðu hv. þingmanns vakti athygli mína og gerir það gjarnan. Hv. þingmaður sagði að hann hefði komið inn á þing 2016 og lítið hefði breyst á þeim tíma. Ég ætla ekki að standa hér og segja að eitt sé frábært og búið að gera annað svo vel og hitt sé allt fullkomið, það er langt því frá. Hv. þingmaður kom með margar góðar ábendingar, m.a. hvernig við tileinkum okkur að horfa á hlutina og einfalda þá. Ég held að það sé bara almennt í mannlegu eðli, bara til að ná utan um það, og ég tala nú ekki um þetta mikla umfang. Við erum að tala um 1.100 milljarða umfang ríkisfjármála, 35 málefnasvið.

Ég staldraði aðeins við þetta ártal, 2016. Það er einmitt þá sem lög um opinber fjármál taka gildi, janúar 2016. Þau höfðu lengi verið í undirbúningi, með öllum þeim göllum og því sem við erum að reyna að ná utan um. Við höfum samt aldrei náð samfellu í því stefnumörkunarferli sem lögin boða í raun og veru að halda utan um, sem er mjög jákvætt ferli. Ég ætla þó að reyna að draga fram jákvæðasta partinn í því. Í gegnum allar þær hremmingar og sveiflur sem við urðum að fara í og ekki síst núna, sem birtist mjög bæði í áætluninni og í fjárlögum og fjáraukalögum, þá hefur, og ég ætla bara að vitna í fjármálaráð, fjármálaráð sagt að lög um opinber fjármál hafi um margt bætt fjárlagavinnuna og fjárlagaferlið og stefnumörkunina (Forseti hringir.) og aukið agann og festu í ríkisfjármálum þannig að við reynum að skilja eitthvað jákvætt eftir í því ferli sem við erum sannarlega í, lærdómsferli.