151. löggjafarþing — 102. fundur,  27. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[16:41]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að þarna sé málið að ég hef ekki upplifað hvernig þetta ferli var áður en lög um opinber fjármál voru samþykkt. Þarna veldur vanþekking mín kannski einhverri einföldun í mínum huga á því hversu flókið þetta ástand er. Ég tek alveg þessari gagnrýni á ræðu mína en ég kemst samt ekki hjá því að hugsa að ef það er eitthvað sem hefur valdið okkur skaða einmitt á uppgangsárunum fram til 2019 þá var það að lög um opinber fjármál eins og þau eru í dag eru ekki umgjörð utan um það að sinna ríkisfjármálunum á skynsamlegan hátt heldur eru þau umgjörð utan um það að minnka annars vegar aðkomu þingsins að úthlutun fjármuna til verkefna og hins vegar að baka inn í fjárlagaferlið okkar það að ríkið eigi alltaf að vera að borga niður skuldir, jafnvel þegar hægt væri að gera eitthvað gagnlegra við fjármunina. Við sjáum það kannski ekki síst á blaðsíðu 42 í fjármálaáætluninni, þar sem er graf, þar sem er sýnt hvernig — ég geri ráð fyrir að þetta séu OECD-lönd — öll OECD-lönd eru að annaðhvort auka ríkisskuldir sínar eða minnka þær hóflega — þetta er fram til 2019 — nema Ísland sem eyðir einmitt öllu sínu púðri í að borga niður skuldir. Eins og segir hérna, með leyfi forseta:

„Skuldalækkun hins opinbera á sér ekki hliðstæðu í heiminum og verður vart endurtekin.“

Og þegar ég sé land, hvort sem það er Ísland eða eitthvert annað ríki, sem er að gera hluti á allt, allt annan hátt en öll hin stóru iðnvæddu ríkin í heiminum, þá þarf stórkostlega góða útskýringu á því af hverju það er góð hugmynd. (Forseti hringir.) Og ég vil meina að þetta sé afleiðing af því að við erum með hagstjórnarhugmyndafræði (Forseti hringir.) sem er bökuð inn í lög um opinber fjármál sem segir að aðalmarkmið ríkisins sé að minnka sjálft sig, (Forseti hringir.) verða sem minnst fyrir og leyfa fjármagnseigendum að ráða öllu.