151. löggjafarþing — 102. fundur,  27. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[17:09]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er svo skemmtilegt við fjármálaáætlun að þar er allt samfélagið undir og umfjöllunarefnin þar af leiðandi oft mjög lítið skyld. Ég vil hér eiga orðastað við hv. þingmann um tvennt sem kom fram hjá honum; strætó og flóttafólk. (BergÓ: Strætó? Jæja, ókei.) Ég ætla að tengja eitt yfir í strætó. En byrjum á flóttafólkinu.

Miðflokkurinn talar gjarnan um kostnað við móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd. Mig langar bara að gauka því hér að hv. þingmanni, án þess að við þurfum að fara í mikla efnislega umræðu um það, að einfaldasta leiðin til að draga úr kostnaði hins opinbera við móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd er að synja einfaldlega færri. Aðalpúðrið, aðalkostnaðurinn, hjá kerfinu er að halda fólki í fæði og húsnæði á meðan verið er að rembast við, með lögfræðinga á vakt, að finna einhverja leið til að vísa fólki úr landi. Ef við myndum bara lækka þröskuldinn og hleypa fólki auðveldar til landsins þá myndi það miklu fyrr vaxa upp úr því stoðkerfi sem Útlendingastofnun býður umsækjendum upp á, þannig að það gæti bara farið að vinna, taka þátt í samfélaginu, halda hagkerfinu gangandi og greiða skatt og hvað það er sem fólk gerir þegar það er komið með samþykkt dvalarleyfi. Ef við erum að horfa á skilvirkni og sparnað þá er einfaldasta leiðin í hælisleitendakerfinu að taka bara á móti fleirum.

Svo langar mig að spyrja vegna þess að hv. þingmaður er formaður umhverfis- og samgöngunefndar og hann ræddi hér vandræði stjórnarliða við að koma sér saman um gjaldtöku af samgöngum til framtíðar. Það er risastórt vandamál vegna þess að þetta snýst um það hvernig við tryggjum að umskiptin úr bensínbrasinu sem við erum að kveðja og yfir í grænu framtíðina verði réttlát, hvernig við tryggjum það að óháð efnahag og búsetu geti fólk tekið þátt í þeim umskiptum. Gjaldtakan er eitt af því og mig langar því að velta því upp með þingmanninum hvort það skorti ekki dálítið upp á t.d. stuðningskerfið við ólíka fararmáta. Við erum með mjög dýrt kerfi niðurgreiðsluívilnana á rafmagnsbíla og tengiltvinnbíla sem ríkið þarf að fjármagna úr ríkissjóði. Hægt væri að jafna kerfið út með því að hækka hægt og bítandi gjöld á bensínbíla og láta það ferjast yfir í grænni valkostina. (Forseti hringir.) Hvort þetta sé eitthvað sem þingmanninum þætti eiga heima þarna. Og ég vildi líka fá aðeins betur frá hv. þingmanni: Hvað er málið með þessi vandræði við að koma á einhverju framtíðarfyrirkomulagi í gjaldtöku á milli stjórnarflokkanna?

(Forseti (GBr): Eitthvað er tímastillingartækið, klukkan, að hrella okkur.)