151. löggjafarþing — 102. fundur,  27. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[17:20]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að fara inn í ræðu hv. þm. Bergþórs Ólasonar þar sem hann ræddi um hjúkrunarheimili og vekja athygli á því — ég ræddi það allítarlega í ræðu minni í gær, hann hefur greinilega misst af henni, og þetta er líka að finna í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar — hvernig við erum að nálgast það mál. Þar segir í sem stystri endursögn að nú hafi verið unnin greining á rekstri hjúkrunarheimila. Út úr þeirri greiningu getum við ekki dregið eina harða tillögu. Þess vegna getum við sagt að meiri hluti fjárlaganefndar sé ekki að bregðast við með öðrum hætti en sem birtist í breytingartillögu okkar um fjármögnun óbyggðra rýma eða rýma sem á að byggja á næstu árum. Við segjum hins vegar í áliti okkar og vísum til heilbrigðisráðherra að fyrir fjárlagagerðina sem verður í haust verði að vera kominn botn í fjármögnun og viðræður við hjúkrunarheimilin til þess að þau mál komist á betri stað en þau eru í dag.

Þetta er fjölþættur vandi. Einn er sá að bregðast þarf við vegna breytingar á vinnutíma sem ég veit að komið er samtal um milli sjúkratrygginga og forsvarsmanna hjúkrunarheimila. Það eru líka þættir er varða uppgjör vegna kjarasamninga er gerðir voru 2019 og síðan þetta verkefni, sem er kannski það stærsta, daggjöldin eru sögð ekki duga fyrir kostnaði heimilanna vegna hækkandi aldurs og aukinnar hjúkrunarþyngdar þannig að nefndin segir þá í tvennu lagi: Við horfum á þann vanda sem við er að fást í dag og myndum þá bregðast við því í fjárauka (Forseti hringir.) en síðan þarf að horfa til lengri tíma varðandi skipulag og stefnu í þessum málaflokki, sem við reifum líka í nefndaráliti okkar.