151. löggjafarþing — 102. fundur,  27. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[17:28]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það var í sjálfu sér ekki spurning í því en ég er bara ánægður að heyra að menn átti sig á alvarleika málsins. Ég tel að það hefði verið skynsamlegt að senda merki um það í þessari fjármálaáætlun eins og hún liggur fyrir því að við eigum bæði við bráðavanda og langtímavanda að stríða. Bráðavandinn er auðvitað daggjöldin og rekstrarstaðan sem ég held að blasi við öllum að sé óbærileg og ósjálfbær hjá flestum þessara heimila. Þá hefur komið mér nokkuð á óvart að uppstokkun á kerfinu sé ekki lengra komin en raunin er af því að þessi lýðfræðilega þróun hefur legið fyrir. Það er kannski fátt í því umhverfi sem við höndlum með hér fyrirsjáanlegra en einmitt aldursþróun samfélagsins. Ég held að það hefði farið betur á því að senda skýr skilaboð um að það væri meira afgerandi skilningur á vanda hjúkrunarheimilanna, þar sem okkar elstu borgarar eyða sínu ævikvöldi margir hverjir, meira afgerandi skilningur á þeirri stöðu sem uppi er, um leið og búið væri að ýta af stað miklu ígrundaðri vinnu um það hvert við ætlum að stefna. Ég er alveg sammála hv. þm. Haraldi Benediktssyni um að við getum ekki byggt hjúkrunarheimili yfir alla þá sem færast inn í þessa eldri aldurshópa á næstu árum og áratugum þannig að við verðum að líta til fjölþættari lausna. En í augnablikinu virðist þessi málaflokkur, eins og svo margt annað sem heyrir undir heilbrigðisráðuneytið, vera að sigla dálítið upp á sker.