151. löggjafarþing — 102. fundur,  27. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[17:30]
Horfa

María Hjálmarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Fjármálaáætlun er til umfjöllunar í dag. Hún er byggð upp nákvæmlega eins og síðast. Hún er byggð upp með það að leiðarljósi að sama ríkisstjórn muni starfa saman á næsta kjörtímabili. Við vitum svo sem ekki hvað gerist þá. Ef ég ætti að lesa í það þá virkar þetta á mig sem ríkisstjórn sem vill litlar breytingar og skortir örlítið framtíðarsýn.

Herra forseti. Ég veit forsendurnar fyrir þessari fjármálaáætlun og að ég verði að skoða hana í ljósi þess að gildandi fjármálaáætlun til fimm ára var samþykkt á Alþingi 17. desember síðastliðinn. Sú stefnumörkun sem lá þá til grundvallar er efnislega óbreytt fyrir þau 35 málefnasvið og 103 málaflokka sem fjármálaáætlun tekur til og ekki lagðar til efnislegar breytingar á grunnsviðsmynd fjármálaáætlunar til næstu ára.

Ríkisvaldið verður að byggja upp sterka innviði sem visnað hafa undanfarna áratugi, kannski sérlega á landsbyggðinni. Fjárfesting í innviðum um allt land er því lykillinn og hún mun ýta undir nýsköpun sem mun færa okkur atvinnutækifæri fyrir þjóðarbúið. Í nýrri skýrslu Samtaka iðnaðarins kemur fram að fyrirhuguð aukning í opinberri fjárfestingu muni lítið bíta á þá uppsöfnuðu viðhaldsþörf sem skapaðist í kjölfar síðustu niðursveiflu. Til þess að ástand innviða geti talist gott verður að setja enn meiri kraft í opinbera fjárfestingu í innviðum og þörf er á 420 milljarða kr. fjárfestingu til að koma þeim í viðunandi horf, líkt og segir í skýrslunni. Ekki tekst að halda við eðlilegri viðhaldsþörf gangi fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar eftir. Þannig erum við í raun að horfa fram á samdrátt í opinberri fjárfestingu þrátt fyrir mjög umfangsmiklar fjárfestingar, t.d. í Reykjavík. Ef fram heldur sem horfir komumst við of seint af stað.

Í fjármálaáætlun er ekki að finna framsæknar pælingar hvað varðar stórátak í atvinnusköpun. Við stöndum þó á tímamótum. Staðan er og hefur verið erfið út af faraldrinum og eðlilega litar það útkomuna. En við verðum að þora að horfa til framtíðar og þá sérlega til nýrra tækifæra. Við verðum að horfa lengra en til fimm ára. Við verðum að vera framtíðarmiðuð. Svo virðist sem horft sé til þess að ferðaþjónustan eigi að bjarga okkur út úr þessari heimskreppu. Til lengri tíma þarf að huga að því hvernig hægt sé að gera ferðaþjónustuna hagkvæmari, atvinnugrein sem sannarlega hefur sína kosti og býr til hagsæld fyrir íbúa um allt land. Ekki er þó hægt að horfa fram hjá því að hagnaður margra ferðaþjónustufyrirtækja er lítill og hlutfall sérhæfðra starfa er lágt og þá sérstaklega á landsbyggðinni.

Í fjármálaáætluninni er stefnt að því að efnahagsbatinn nái fótfestu strax í ár og verði 2,6% á yfirstandandi ári, vaxi um 4,8% 2022 og svo gerir framreikningurinn ráð fyrir 2,8% vexti í landsframleiðslu fram til 2026. Eru horfurnar svona jákvæðar? Er þetta raunsætt? Meira að segja Samtök ferðaþjónustunnar draga þetta í efa. Við getum ekki reitt okkur á eina atvinnugrein og horft til þess að hún bjargi okkur. Við verðum að horfa á heildarmyndina, horfa til sjálfbærrar byggðaþróunar til framtíðar með nýsköpun að leiðarljósi. Samkvæmt áætluninni voru fjárframlög til nýsköpunar aukin í ár og hækka lítillega samkvæmt áætluninni á næsta ári en strax tveimur árum síðar hafa framlögin lækkað um 26% og lækka um 34% á fimm árum. Kallað er eftir auknu fjármagni til nýsköpunar og það tekur fleiri ár en tvö að uppfylla þær kröfur og þær þarfir.

Lausnin á framleiðnivandanum er að renna fleiri stoðum undir atvinnulífið sem eru til þess fallnar að auka framleiðni. Lausnin er ekki sú að kalla eftir og stofna nýja sjóði og í raun stendur þetta fyrir óheftum vexti í atvinnugreinum sem skila lítilli framleiðniaukningu og standa ekki undir góðum kjörum í landinu. Á árinu lokaði ráðherra Nýsköpunarmiðstöð. Markmið ráðherra voru í grófum dráttum að hætta þeim byggingarrannsóknum á vegum hins opinbera sem Nýsköpunarmiðstöð hafði sinnt og stofna í staðinn samkeppnissjóð á sviði byggingarrannsókna sem fyrirtæki gætu sótt í, færa mælingar, prófanir og efnagreiningar sem Nýsköpunarmiðstöð hafði sinnt til faggildrar prófunarstofu á einkamarkaði, flytja stuðning við frumkvöðla til aðila á einkamarkaði, efla stuðning hins opinbera við nýsköpunarumhverfið á landsbyggðinni og stofna óhagnaðardrifið einkahlutafélag til að halda áfram rannsóknum í efnistækni, líftækni og tengdum greinum sem Nýsköpunarmiðstöð sinnti með fyrirhuguðu Framtíðarsetri í Vatnsmýri.

Hvað lesum við úr því? Jú, ráðuneytið ætlar að byggja upp gjaldfrjálsa þjónustu við frumkvöðla sem á að vera aðgengileg um allt land og stafræna nýsköpunargátt sem Nýsköpunarmiðstöð hélt þegar utan um. Einnig er gert ráð fyrir samstarfi þvert á ráðuneyti varðandi nýsköpunarmenntun, að ráðuneytið styðji áfram við verkefni um samfélagslega nýsköpun, stuðning við hraðla og nýsköpunarkeppni um allt land og að ráðuneytið styðji áfram við námskeiðshald. Öllu ofannefndu sinnti Nýsköpunarmiðstöð áður. Einnig að stofnað verði óhagnaðardrifið einkahlutafélag í Vatnsmýrinni þar sem hátækni virðist vera fókusinn. Nýsköpun og stuðningur við frumkvöðla verður að vera skilgreindur í stoðkerfinu og sérstaklega á landsbyggðinni. Landsbyggðin situr á hakanum eins og svo oft áður og svar ráðherra til að mæta kvörtunum landsbyggðarinnar er stóra snuðið, nýsköpunarsjóðurinn Lóa. Hvers vegna að stofna enn einn sjóðinn þar sem litlu fé er útdeilt handahófskennt og alger vöntun er á áframhaldandi stuðningi?

Herra forseti. Við erum öll sammála um að nýta nýsköpun sem leið út úr kreppunni sem við stöndum frammi fyrir. Við verðum að vera framsækin og horfa til alþjóðlegrar samvinnu. Við verðum að vera samkeppnishæf. Það er ljóst að nú er ekki rétti tíminn til að draga úr stuðningi á sviði nýsköpunar og tækniþróunar. Þvert á móti væri skynsamlegra að styrkja enn frekar aðgerðir til að styðja vistkerfi nýsköpunar og leggja áherslu á aðkomu ríkisins að því að brúa bil milli rannsókna og markaðar. Samhliða væri ástæða til að efla þær stofnanir hins opinbera sem sinna tæknirannsóknum og þjónusta atvinnulífið og sinna margs konar eftirliti um allt land. Allt landið ætti að vera undir, alltaf. Því miður er það oft þannig að í sumum landshlutum er efnahagsþróunin ekki í takti við efnahagsþróun landsins í heild. Toppar og lægðir í efnahag landsins mega ekki hafa áhrif á opinbert fjármagn til innviðauppbyggingar t.d. Í uppsveiflu er oft horft til þess að fjármagni sé beint þangað sem efnahagsáhrifin eru talin hvað mest og/eða dregið úr opinberum framkvæmdum fyrir landið allt. Í niðursveiflu er fjármagni beint þangað sem skaðinn er mestur og dregið er verulega úr opinberum framkvæmdum. Það skerðir samkeppnisstöðu landsvæða.

Með minnkandi stuðningi við nýsköpun í atvinnulífi og samfélagi á landsvæðunum mun landið ekki blómstra. Höfuðborg og landsbyggð þurfa hvor á annarri að halda. Gríðarleg tækifæri liggja um allt land, sveitarfélög og landshlutasamtök verða að geta viðhaldið þjónustustigi og örvað grasrótina. Það ætti að vera grundvallarþáttur í viðbrögðum við efnahagsástandinu í dag. Öflugur jöfnunarsjóður er einnig lykilþáttur og hann verður að fylgja launaþróun.

Ég hef áhyggjur af getu landshlutanna utan höfuðborgarsvæðisins þegar kemur að nýsköpun í atvinnulífi og samfélögum með minnkandi stuðningi við t.d. sóknaráætlanir landshluta, byggðaáætlun, stefnu í ferðamálum og stefnu í nýsköpunarmálum sem hluta af atvinnuþróunarstarfi. Tækifærin eru fjölmörg og seiglan er mikil um allt land en ef ekkert verður gert mun fólk gefast upp. Mikilvægt er að horfa til þess að nýsköpun er ekki bara í hátæknigeiranum. Nýsköpun er um allt; í matvælaframleiðslu, ferðaþjónustu og menningu, t.d. En til þess að nýsköpun blómstri og verði atvinnuskapandi verður hljóð og mynd að fara saman. Það er ekki nóg að til sé stafræn gátt á netinu með frábærri ráðgjöf sem fólk á landsbyggðinni getur nýtt sér ef það er ekki nægt raforkuöryggi og ef það eru hættulegir vegir og gagnaflutningur og fjarskipti eru í ólagi og hvað þá þegar vantar þriggja fasa rafmagn þegar menn ætla að fara í nýsköpun í matvælaframleiðslu.

Herra forseti. Samkvæmt rannsókn sem unnin var af hópi hagfræðinga fyrir Oxford, Smith School of Enterprise and the Environment, í maí 2020 og byggist á viðtölum við á þriðja hundrað sérfræðinga og stjórnenda í fjármálaráðuneytum og seðlabönkum víða um heim eru fjárfestingar í grænni nýsköpun og þróun og uppbyggingu innviða og flutnings- og dreifikerfa fyrir endurnýjanlega orku á meðal þeirra efnahagslegu örvunaraðgerða sem hafa mikil margfeldisáhrif og eru þannig ákjósanlegar á krepputímum. Markmið um sjálfbærni og kolefnishlutleysi falla því vel að markmiðum um aukin lífsgæði og fjölgun starfa.

Tillögur Samfylkingarinnar til breytinga á fjármálaáætluninni eru í þessa veru. Auk aukningar til loftslagsmála um 1 milljarð á árunum 2023–2026 leggur fulltrúi Samfylkingarinnar til fjárframlög til græns fjárfestingarsjóðs, almenningssamgangna og grænnar nýsköpunar. Samfylkingin vill leggja áherslu á aukinn jöfnuð á tækifærum um allt land. Framlög til sjóða verða að aukast og ýmis úrræði sem beinast að landsbyggðinni verða að vera tryggð til framtíðar. Sérstök áhersla verður að vera á grænar lausnir í atvinnulífinu og nýjar vaxandi atvinnugreinar. Auka ætti framlög til nýsköpunar og þróunar um 1,5 milljarða kr. árið 2024, um 2 milljarða kr. árin 2025 og 2026. Samfylkingin leggur til 5 milljarða aukningu á ári til loftslagsmála þar sem þeir fjármunir yrðu nýttir í að flýta orkuskiptum, fjármagna grænan fjárfestingarsjóð, flýta framkvæmdum vegna borgarlínu á höfuðborgarsvæðinu, auka stuðning við landsbyggðarstrætó, styrkja hringrásarhagkerfið og græna matvælaframleiðslu. Ásamt því viljum við gera breytingar á styrkjaumhverfi landbúnaðarins til að styðja betur við grænmetisframleiðslu og stuðning við að gera íslenska stjórnsýslu græna.

Ljóst er að ekkert minna en breytingartillögur Samfylkingarinnar munu duga til þess að Ísland nái markmiðum sínum og sé í fararbroddi þegar kemur að loftslagsaðgerðum. Tillögur Samfylkingarinnar sem hv. þm. Oddný G. Harðardóttir hefur talað fyrir eru allar til að fjölga störfum, auka græna verðmætasköpun, bæta heilsu og öryggi fólksins í landinu og til að bæta kjör barnafólks og þeirra hópa sem verst eru settir í samfélaginu.