151. löggjafarþing — 102. fundur,  27. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[18:11]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður talaði dálítið mikið um jafnaðarstefnu í ræðu sinni og kannski skiljanlega. Mig langaði til að spjalla aðeins við hv. þingmann um jafnaðarstefnu. Ég taldi sjálfan mig einu sinni vera jafnaðarmann en geri það ekki lengur. Jafnaðarstefnan er vissulega mikilvæg og jöfnuður er vissulega mikilvægur en ég tel önnur atriði vega meira í nútímasamfélagi sem stefnir í átt að sjálfvirkni og frá mun meira ójafnvægi og mun meiri ójöfnuði sem klassísk jafnaðarmennska hefur ekki brugðist við heldur búið til ákveðnar fátæktargildrur. Við höfum þessa klassísku styrki sem verða fyrir skerðingum eftir því sem fólk hækkar í tekjum og það festist dálítið. Það gæti vel verið að jafnaðarmennskan losi sig úr þessari hugmyndafræði og fari meira í skilyrðislausa framfærslu t.d., án skerðinga, það getur vel verið en við sjáum til með það.

Þegar öllu er á botninn hvolft snýst vinna okkar hérna á þingi og sjálfbær opinber fjármál í rauninni um það að í samfélaginu hérna fyrir utan, hérna inni í raun líka, sé lágt atvinnuleysi, lítil verðbólga, allir hafi þak yfir höfuðið og eigi rúmlega fyrir nauðsynjum í sjálfbæru samfélagi. Það er rosalega einfalt þegar maður segir þetta svona. Hvernig á að leysa það vandamál er ekki endilega auðvelt en hversu miklu máli skiptir hvernig það er leyst á meðan það er gert á sanngjarnan hátt fyrir alla í samfélaginu? Þar pælir maður kannski í því, er það nauðsynlega markaðsstefna eða er það nauðsynlega jafnaðarstefna eða sósíalísk stefna eða anarkísk stefna eða er mögulegt að blanda sé þarna rétta lausnin?