151. löggjafarþing — 102. fundur,  27. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[18:13]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta eru margar stórar, heimspekilegar og góðar spurningar. Mér þótti merkilegt að heyra hv. þingmann lýsa því yfir hér að hann aðhyllist ekki jafnaðarstefnuna en ég held samt að hann geri það að einhverju leyti. Mér fannst hv. þingmaður lýsa mörgu í jafnaðarstefnunni í því sem hann var að tala um í sambandi við þær aðstæður sem við viljum að fólk og almenningur búi við í góðu samfélagi. Það er útbreiddur misskilningur að jafnaðarstefnan snúist um að gera alla eins. Ég man að í skáldsögu eftir Jón Trausta sem heitir Bessi gamli var jafnaðarstefnunni lýst þannig að það væri „upp með dalina, niður með fjöllin“ en það er ekki svo. Það er ekki það sem jafnaðarstefnan gengur út á heldur gengur hún út á að skapa þannig samfélag að allir geti haft möguleika á því að þroska sig og hæfileika sína þannig að allir geti orðið þær manneskjur sem í þeim búa og þeir geta orðið, að samfélagi kúgi engan og haldi engum niðri og fólk fái tækifæri til þess að mennta sig og þroska sig. Eina leiðin til að búa til slíkt samfélag er að jafna byrðum og gæðum í samfélaginu. Þetta snýst um að allir greiði sinn sanngjarna skerf til samfélagsins, sumir sleppi ekki við að greiða þennan skerf, allir greiði sanngjarnan skerf (Forseti hringir.) og viti af því að þeir séu að greiða sanngjarnan skerf og síðan fái allir eitthvað út úr hinum sameiginlegu sjóðum.