151. löggjafarþing — 102. fundur,  27. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[18:17]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jafnaðarstefnan gengur ekki út á að gera eitthvert tilkall til einkaréttar á réttlætinu og hún gerir ekki tilkall til þess að vera hið eina rétta svar og hin eina rétta stefna. Jafnaðarstefnan er dálítið víð stefna og oft er verið að áfellast jafnaðarmenn fyrir að vera óljósir en jafnaðarstefnan er óljós í eðli sínu. Jafnaðarstefnan er opin og efagjörn, hún er spurul og er til í að skoða allt sem getur komið sér vel fyrir almenning og lífshagi hans.

Anarkisminn hefur vissulega haft mikil áhrif, sérstaklega á vestræn samfélög eftir 1968, og kannski er það stundum vanmetið og gleymist hvað anarkisminn hefur verið sterkt afl í mótun samfélagsins og hann hefur verið líka frelsandi afl að mörgu leyti. En til að anarkisminn geti runnið í farsælan og góðan farveg þarf hann að haldast í hendur við jafnaðarstefnu. Ég held að anarkistar njóti sín aldrei nema með því að halda í höndina á jafnaðarstefnu. (BLG: Ég held að það sé öfugt.)