151. löggjafarþing — 102. fundur,  27. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[18:40]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum framsöguna sem bar þess glöggt merki að hv. þingmaður er formaður velferðarnefndar, hún lagði áherslu á þau mál. Mig langar þess vegna að spyrja aðeins út í þau mál sérstaklega. Í upphafi kjörtímabils var boðuð endurreisn heilbrigðiskerfisins. Ég veit ekki hvort við myndum nota jafn sterk orð núna þegar líður að lokum kjörtímabils til að lýsa því sem á undan er gengið. Mig langar að spyrja þingmanninn sérstaklega út í eitt sem er sagt um framlög til heilbrigðiskerfisins í áliti meiri hluta fjárlaganefndar. Þar segir annars vegar að aukinn kraftur sé settur í framkvæmdir við nýjan Landspítala en svo stendur nokkrum síðum aftar að mestu muni um 5 milljarða kr. hækkun til sjúkrahúsþjónustu sem skýrist að mestu af tilfærslu milli ára við byggingu nýs Landspítala. Aukinn kraftur er ekki það sama og tilfærsla á fjárheimildum vegna þess að framkvæmdir hafa bara tekið lengri tíma en til stóð. Mig langar að vita hvort þessi orðaleikfimi endurspeglar eitthvað upplifun hv. þingmanns af því hvernig talað hefur verið um aðgerðir í heilbrigðismálum á síðustu árum, hvernig orðin eru oft stærri en gjörðirnar, þá einmitt í ljósi allra þeirra löngu biðlista sem hv. þingmaður fór yfir í ræðu sinni.