151. löggjafarþing — 102. fundur,  27. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[18:49]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Virðulegur forseti. Þegar komið er þetta aftarlega í umræðu um fjármálaáætlun er búið að segja margt af því sem segja þarf. Varðandi efnislega umfjöllun um stóru myndina í áætluninni læt ég mér nægja að vísa til ágæts álits 2. minni hluta fjárlaganefndar sem mig minnir að hv. þm. Björn Leví Gunnarsson skipi þar sem hann fer vel yfir helstu atriði sem benda þarf á í áætluninni.

Mig langar samt aðeins að nefna, bara af því að það rifjaðist upp fyrir mér þegar hv. þm. Smári McCarthy talaði hér fyrr í dag um að forsendum fjármálaáætlunar, reglunum sem þessar áætlanir byggjast á, hefði verið breytt tímabundið vegna Covid, að við verðum að halda augunum opnum fyrir því að sumar af þeim breytingum væru kannski skynsamlegar, a.m.k. að hluta, til frambúðar, t.d. það að endurskoða skuldaregluna þannig að við séum ekki að rembast við að vera með metnaðarfyllsta skuldaþak Evrópuþjóða. Þau 60% sem mig minnir að það hafi verið hækkað upp í vegna Covid eru bara á svipuðu róli og gengur og gerist innan Evrópusambandsins á venjulegu ári. Það er eitthvað sem við tökum kannski með okkur inn í framtíðina sem lærdóm.

Svo verð ég líka að nefna það sem mér þótti svo undarlegt þegar ég handlék þessa þingsályktunartillögu í fyrsta sinn. Ég sá að það vantaði aftan á hana stefnumörkunina vegna þess að stutt er liðið síðan fjármálaáætlun var samþykkt í desember síðastliðnum. Það er skrýtið vegna þess að stefnumörkun innan fjármálaáætlunar sem kom til þingsins síðastliðið haust var ekki jafn djúpstæð og á venjulegu ári. Ástandið í ráðuneytum og óvissan í ríkisfjármálum varð þess valdandi að breytingar á milli áætlana voru þá ekki miklar á flestum málefnasviðum. Nú er staðan sú að engar breytingar eru gerðar og því var bara óþarfi að prenta stefnukaflann aftan á áætlunina. Það breytir því samt ekki að þetta er áætlun fyrir næstu fimm ár sem byggir þá í rauninni á árs, jafnvel tveggja ára, gömlum grunni þegar hún fer að taka gildi. Það er auðvitað hægt að afsaka og útskýra með undarlegu ástandi vegna Covid en ég hefði gjarnan viljað sjá einhverja skýrari stefnumörkun í þessu plaggi.

Ég nefndi í andsvari við hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur atriði sem mig langar að nefna aftur, sem kemur fram í áliti meiri hluta fjárlaganefndar og mér finnst endurspegla — hvað köllum við þetta, bjartsýnistón? Nei, það er best að ég lesi þetta, herra forseti. Hér er sagt annars vegar að aukinn kraftur sé settur í framkvæmdir við nýjan Landspítala en svo er útskýrt að mestu muni um 5 milljarða hækkun til sjúkrahúsþjónustu sem skýrist að mestu af tilfærslu milli ára við byggingu nýs Landspítala. Það er eins og það sé svo ríkur vilji til að sýna jákvæða þróun í þessari áætlun að meira að segja tilfærslur á fjármunum, sem verða einfaldlega vegna þess að það gengur hægar að grafa grunna eða kaupa steypu eða hvað það er sem tefur framkvæmdir við Landspítala, séu sagðar til marks um aukinn kraft í verkefnið. Kannski er þetta kosningalykt, ég veit það ekki.

En mig langar, vegna þess að hér er búið að nefna margt af því stóra, að einbeita mér að afmörkuðu málasviði sem að vísu er firnastórt og það eru loftslagsmálin. Það vill nefnilega svo til, herra forseti, að framlög til loftslagsmála eru í rauninni það eina sem breytist í þessari fjármálaáætlun frá þeirri síðustu. Hér í tillögunni er rammagrein um að útgjöld til loftslagsmála verði aukin um 10 milljarða til ársins 2031. Það er dálítið undarlegur skali að leggja þarna fram samtölu fyrir áratug í fimm ára áætlun, það lítur aðeins betur út fyrir vikið. Þessi viðbót er sögð vera til þess að mæta því m.a. að markmið Íslands um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda hafa verið hert. Um það ræddum við í desember, um þetta ræddi ég við hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra daginn sem hertu markmiðin skiluðu sér loksins til loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Það skiptir máli, herra forseti, að við höldum því til haga að hertu markmiðin eru ekki jafn hörð og þau virðast. Þau eru heldur ekki jafn hörð og þau þyrftu að vera vegna þess að sá 55% samdráttur sem Evrópusambandið sammæltist á endanum um í lok síðasta árs var niðurstaðan úr reiptogi ólíkra hagsmunaafla innan sambandsins og var afturför frá því sem Evrópuþingið hafði upphaflega lagt til en þar lagði umhverfisnefnd þingsins til að samdráttur yrði festur við 60%.

Svo vill til, herra forseti, að innan Evrópusambandsins eru þjóðir sem eru illa haldnar af kolafíkn og náðu að toga þennan metnað niður úr 60% í 55%, en 60% hefðu ekki einu sinni dugað. Greenpeace bendir t.d. á að lágmark væri að miða við 65% samdrátt í losun og þar, herra forseti, erum við ekki að tala um pólitík. Við erum ekki að tala um að gera pólitíska málamiðlun um þessa tölu. Nei, 65 prósentin sem Greenpeace leggur til eru bara spurning um eðlisfræði. Þetta er spurning um eðlisfræðina í lofthjúpnum sem stýrir því hvort við náum að halda hlýnun jarðar innan við 1,5° eða ekki. Það er einfaldlega þannig að við eðlisfræðina er mjög erfitt að prútta en Evrópusambandið prúttaði og það tók dálítið langan tíma. Vegna þess að íslensk stjórnvöld voru alltaf að bíða eftir niðurstöðu Evrópusambandsins þá féllu þau á tíma gagnvart loftslagssamningnum. Stjórnvöld áttu að skila inn markmiði sínu um samdrátt í losun, uppfærðu markmiði eins og gera skal á fimm ára fresti, í febrúar á síðasta ári en gerðu það í staðinn í febrúar á þessu ári.

Noregur hins vegar, sem er í sömu stöðu og Ísland sem EFTA-ríki utan Evrópusambandsins, beið þess ekki að niðurstaða kæmi í reiptogið milli kolafíklanna og þeirra metnaðarfyllri í Evrópusambandinu heldur lagði fram sitt eigið sjálfstæða landsmarkmið um samdrátt í losun. Ísland hefur ekkert slíkt. Ísland hefur það markmið að Evrópusambandið muni minnka losun sína um 55% og að Ísland muni fá úthlutað einhverjum prósentum byggt á því, væntanlega lægri miðað við reynsluna.

En vandinn við þessa töf er að fyrir vikið komust nýju metnaðarfyllri markmiðin ekki inn í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem birt var síðasta sumar og ekki inn í fjármálaáætlun sem lögð var fram í desember. Í staðinn erum við hér með einhverja tölu sem er erfitt að sjá hvernig eigi að endurspegla aukinn metnað úr 40% og upp í 55% eins og farið er ágætlega yfir í nefndaráliti hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar þar sem þessum 1 milljarði er ætlað að skila margfalt meiri samdrætti en þeim 13 milljörðum sem fyrir eru í fjármálaáætlun í málaflokki loftslagsmála.

Hv. þingmaður slumpar á með einföldu reikningsdæmi að betur færi á því að þessi 1 milljarður færi upp í 4 milljarða og byggir þar í rauninni bara á forsendum ríkisstjórnarinnar. En það er kannski ágætt að nefna þá til gamans að samkvæmt skýrslu loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, vísindaráðs IPCC, og útreikningum OECD væri kannski nær lagi að 4% af vergri landsframleiðslu heimsins færu í aðgerðir í loftslagsmálum á næstu árum. Þá eigum við annað einfalt reikningsdæmi, árið 2022 er reiknað með því að 13,3 milljarðar renni til aðgerða í loftslagsmálum samkvæmt þessari fjármálaáætlun. Það eru 0,4% af vergri landsframleiðslu eins og áætlað er að hún verði á því ári. Metnaðurinn er tíundi hluti af því sem hann þyrfti að vera samkvæmt Sameinuðu þjóðunum. Þess ber þó að gæta að inni í þessum tölum gætu leynst ýmis framlög sem hafa kannski misjákvæð áhrif á loftslagið. Nærri helmingur af þessum aðgerðum eru skattalegar ívilnanir til bíla, þar á meðal til tengiltvinnbíla sem sýnt hefur verið að geti hreinlega losað meira eða í það minnsta jafn mikið af koltvísýringi og bensínbílar sem fólk myndi annars kaupa þannig að loftslagsábatinn af þessum milljörðum er kannski minni en hann gæti verið.

Það sem er síðan ákveðið vandamál við auknu framlögin til loftslagsmála, þann milljarð sem bætt er við á hverju ári næsta áratug samkvæmt rammagrein 11, er að þetta eru ekki allt aðgerðir sem telja einu sinni inn í skuldbindingar Íslands gagnvart Parísarsáttmálanum. Hérna erum við með helming, 5 af þessum 10 milljörðum, sem rennur annars vegar í náttúrumiðaðar lausnir í loftslagsmálum og hins vegar í loftslagsvænni landbúnað. Stór hluti af þessum fjármunum mun fara til skógræktar, landgræðslu og endurheimtar votlendis sem eru allt ágætar aðgerðir en telja mismikið inn í skuldbindingar Íslands, sumar ekki neitt, og eru þar að auki þess eðlis að þær fara ekki að skila árangri fyrr en eftir 2030 þegar við þurfum að hafa staðið skil á því sem heyrir undir Parísarsáttmálann. Tré sem plantað er árið 2022 verður ekki farið í að binda mjög mikið af koltvísýringi úr andrúmslofti árið 2030. Þannig virkar það.

Það sem er líka áhugavert við þessa rammagrein um útgjöld til loftslagsmála er að vissulega eru þau að ná meti árið 2022 í 13,3 milljörðum en síðan fara þau að lækka það sem eftir lifir fjármálaáætlunar. Ég sýni því fullan skilning að ekki sé hægt að vera með fullkomlega konkret plön varðandi aðgerðir þegar ríkisstjórnin reiknar með því að vera mögulega farin frá völdum, að vera ekki að skipuleggja hluti fyrir hönd næstu stjórna, en staðan er samt sú að aðgerðaáætlun í loftslagsmálum nær til 2030 en aðgerðirnar fara að fjara út árið 2023 í fjármálaáætlun. Kannski hefðum við getað komist fram hjá þeim vanda, ef ríkisstjórnin hefði ekki beðið svo lengi eftir því að Evrópusambandið gerði málamiðlun við eðlisfræðina, að ríkisstjórn Íslands féll á tíma gagnvart loftslagssamningnum. Kannski værum við í betri málum með þetta ef aðgerðaáætlun í loftslagsmálum endurspeglaði þann aukna metnað sem Evrópusambandið náði saman um í lok síðasta árs og Ísland fylgdi með inn í.

Þetta var um loftslagsmálin en svo langar mig örstutt, herra forseti, rétt að lokum, að rifja upp breytingartillögu sem ég flutti við þingsályktunartillögu um fjármálaáætlun í desember síðastliðnum þar sem ég hafði hoggið eftir því í áætluninni og í andsvörum við dómsmálaráðherra að hætt hefði verið við að setja á fót sjálfstæða innlenda mannréttindastofnun í ljósi þess að ekki væri gert ráð fyrir henni í fjármálaáætlun. Þá sá ég mér leik á borði að við myndum einfaldlega gera ráð fyrir henni í fjármálaáætlun og lagði til breytingar þess efnis að hækka útgjaldaramma vegna þeirrar stofnunar um þær 60 milljónir á ári sem dómsmálaráðuneytið hafði áætlað að stofnunin myndi kosta þegar hún kynnti fyrir nokkrum árum áform um að koma á fót sjálfstæðri innlendri mannréttindastofnun. Breytingartillagan var felld hér í þingsal með, ef ég man rétt, atkvæðum stjórnarliða og fulltingi þingmanna Miðflokksins. En svo gerðist það í febrúarbyrjun að ríkisstjórnin ákvað að skipa starfshóp til að útfæra hugmyndir um sjálfstæða innlenda mannréttindastofnun enda væri tilvist slíkrar stofnunar nauðsynleg til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar Íslands á sviði mannréttinda. Það var nú allt mjög kunnuglegt en þar segir, með leyfi forseta:

„Þar sem gildandi fjármálaáætlun gerir ekki ráð fyrir fjármagni þarf að leita leiða til þess að koma stofnuninni á fót og tryggja framtíðarrekstur hennar innan heildarútgjaldaramma ríkissjóðs.“

Þetta er náttúrlega della. Það er bara della að kenna fjármálaáætlun um að ekki sé hægt að koma á fót stofnun eins og hefur lengi staðið til þegar þingmönnum er í lófa lagið að bæta úr því og auka möguleika á útgjöldum um þær 60 milljónir sem þarf. (Forseti hringir.) Þess vegna, herra forseti, fagna ég því að það sé lagt til í nefndaráliti fulltrúa Pírata í fjárlaganefnd.