Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 103. fundur,  31. maí 2021.

vanfjármögnun hjúkrunarheimila.

[13:04]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Stefnur Samfylkingarinnar og Vinstri grænna í heilbrigðismálum voru nokkuð áþekkar fyrir kosningar. Báðir flokkarnir lögðu áherslu á sterkt opinbert heilbrigðiskerfi sem tryggir almenningi um allt land aðgang að gjaldfrjálsri þjónustu. Báðir flokkar hafna einnig aukinni markaðsvæðingu í heilbrigðisþjónustu. En allt þetta kjörtímabil hefur ríkið t.d. vanfjármagnað hjúkrunarheimili og á það hefur ítrekað verið bent af rekstraraðilum, hér í þingsal, auk þess sem þáverandi heilbrigðisráðherra viðurkenndi það þegar hann bætti í rammann 2016 sem fyrsta skref til að leysa vandann. Þetta staðfestist svo í nýútkominni skýrslu um hjúkrunarheimilin.

Stutta sagan frá Akureyri er t.d. þessi: Ríkið vanfjármagnar hjúkrunarheimilið, sveitarfélagið hefur í mörg ár neyðst til að greiða hallann með fé úr öðrum málaflokkum, mikil óánægja skapast sem endar með því að sveitarfélagið neyðist til að segja upp samningnum um reksturinn. Svo virðist sem ríkið semji svo í kjölfarið við einkahlutafélag, jafnvel á hagstæðari kjörum en sveitarfélaginu bauðst, því að samkvæmt viðtali við framkvæmdastjóra Heilsuverndar mun fyrirtækið ekki greiða leigu fyrir húsnæðið og fyrir helgi tilkynnti fjármálaráðherra um aukafjárveitingu upp á 1 milljarð inn í reksturinn. Aurar sem ekki var hægt að greiða t.d. sveitarfélaginu renna nú til einkahlutafélags, sem ég vona þó innilega að sinni rekstrinum vel.

Málið er að mér finnst þetta dálítið kunnuglegt stef og næstum því eins og upp úr handriti frá áttunda áratugnum, samið af Margaret Thatcher. En þetta kemur úr uppskriftabók ríkisstjórnarinnar. En hvort er þetta uppskrift úr heilbrigðisráðuneytinu eða fjármálaráðuneytinu, hæstv. ráðherra? Getur hún auk þess sagt mér hvers vegna ekki var hægt að koma með svipuðum hætti til móts við hjúkrunarheimilin á meðan þau voru enn í opinberum rekstri? Og hver borgar t.d. leigu fyrir húsnæðið á Akureyri?