151. löggjafarþing — 103. fundur,  31. maí 2021.

vanfjármögnun hjúkrunarheimila.

[13:06]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og þakka honum líka fyrir að standa með opinberri heilbrigðisþjónustu. Það skiptir mjög miklu máli að það snúist ekki um stjórn eða stjórnarandstöðu heldur um afstöðu til þess hver er hrygglengjan í íslensku heilbrigðiskerfi og hver er forsendan fyrir því að það sé öflugt. Það glittir í misskilning í fyrirspurn hv. þingmanns að því er varðar þessa viðbót, þennan 1 milljarð á þessu ári sem er í fjáraukatillögu ríkisstjórnarinnar. Þar er hugsunin alls ekki sú að það fjármagn renni fyrst og fremst til þeirra einkaaðila sem reka hjúkrunarheimili heldur til þeirra aðila sem reka hjúkrunarheimili yfir höfuð á þessu ári. Þetta skiptist í þessa flokka; í fyrsta lagi eru þessir einkaaðilar og sjálfseignarstofnanir sem hafa verið að reka hjúkrunarheimili fyrst og fremst hér á höfuðborgarsvæðinu og núna í Eyjafirði. Svo eru það sveitarfélög víða um land. En svo hafa líka verið gerðar breytingar að undanförnu þannig að hjúkrunarheimili sem rekin hafa verið af sveitarfélögum hafa runnið til heilbrigðisstofnananna. Það hefur gerst bæði á Austurlandi og á Suðurlandi. Ég tel sjálf að það sé mjög gott fyrirkomulag að gera breytingar í þá veru vegna þess að þá er þar örugglega að finna tækifæri til að samnýta þjónustuna betur og hafa hana samfelldari fyrir íbúa hjúkrunarheimilanna og auðvitað almennt er sú sýn okkar, sem ég vænti að við deilum sömuleiðis, ég og hv. þingmaður, að þjónustan við aldraða geti verið fjölbreytt og fari eftir hverjum og einum en að það sé ekki ein lausn sem hentar öllum.