151. löggjafarþing — 103. fundur,  31. maí 2021.

vanfjármögnun hjúkrunarheimila.

[13:08]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég áttaði mig á því að þessi eini milljarður skiptist auðvitað víða. Því miður er þetta bara eingreiðsla og ekki gert ráð fyrir að bætt sé inn í reksturinn á næstunni og það er alvarlegt áhyggjuefni. Varðandi samþættingu þjónustunnar þá er hún auðvitað mjög mikilvæg. Það var til fyrir nokkrum árum eitthvað sem hét Akureyrarmódel þar sem mikil samþætting var milli heilsugæslu, öldrunarheimilis, heimaþjónustu o.s.frv. Það var brotið á bak aftur þegar þáverandi heilbrigðisráðherra tók heilsugæsluna frá sveitarfélaginu, en látum það nú eiga sig. Þess vegna væri hægt að stíga skref núna, eða hefði verið hægt a.m.k., til að koma rekstri öldrunarheimila á Akureyri, ef ekki næðist samkomulag við bæinn, til Heilbrigðisstofnunar Norðurlands eins og gert hefur verið víða um land. Ég spyr því hæstv. ráðherra: Af hverju var það ekki gert til að ná fram þessari samþættingu sem er svo mikilvæg?