151. löggjafarþing — 103. fundur,  31. maí 2021.

njósnir Samherja.

[13:11]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Samskipti hinnar svokölluðu skæruliðadeildar Samherja, sem Kjarninn og Stundin hafa fjallað um að undanförnu, sýna að útgerðarfyrirtækið njósnaði um ferðir íslenskra fréttamanna á erlendri grundu. Það gerði Samherji til að mynda í febrúar síðastliðnum þegar fyrirtækið kannaði hvort Helgi Seljan, fréttamaður Ríkisútvarpsins, væri staddur í Namibíu. Í njósnastarfsemi sinni leitaði Samherji jafnframt á náðir stjórnsýslunnar og þannig setti skipstjóri Samherja sig persónulega í samband við fyrrverandi sendiherra í Þýskalandi og núverandi ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins í upphafi þessa árs. Ætlunin var að fá upplýsingar um hvort fyrrnefndur Helgi Seljan hefði fylgt Jóhannesi Stefánssyni, uppljóstrara í Samherjamálinu, til Berlínar árið 2019. Í samtali við Kjarnann staðfestir ráðuneytisstjórinn að skipstjórinn hafi leitað til hans, þeir séu málkunnugir, en ekki hafi verið unnt að verða við beiðni skipstjórans því að hún hafi fallið utan verksviðs utanríkisþjónustunnar. Samskipti skæruliðadeildarinnar bera með sér að skipstjórinn hafi ekki fengið upplýsingar hjá ráðuneytisstjóranum en að samtal þeirra hafi verið, með leyfi forseta, „mjög gott“, eins og skipstjórinn orðaði það. Ráðuneytisstjórinn hafi ætlað, með leyfi forseta, „að segja mönnum af“ spjalli þeirra enda teldi hann það endurspegla „svolítið hvað fólk er að hugsa“.

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Var hæstv. utanríkisráðherra einn þeirra manna sem ráðuneytisstjórinn sagði frá þessu símtali?