151. löggjafarþing — 103. fundur,  31. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[13:51]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Þetta er stefnulaus fjármálaáætlun út úr Covid. Kosningar eru fram undan og ef ríkisstjórnin ætlar að halda áfram að vinna saman þá væri núna tíminn til þess að leggja fram stefnu út úr Covid. En það er augljóst að það verk var ríkisstjórninni ofviða. Það er verið að reyna að leggja áherslu á loftslagsmál. En hvað gerðu Vinstri græn þegar þau mynduðu þessa ríkisstjórn? Þau fóru í samstarf með flokkum sem voru með verstu loftslagsstefnuna fyrir kosningar. Það var öll áherslan á loftslagsmál. Við verðum að fá stjórnvöld sem sýna í alvörunni hvernig gengur með fjármál hins opinbera í stefnu sinni. Við vitum ekki einu sinni hvort fjárheimildirnar sem eru í fjármálaáætlun duga fyrir þeim lögbundnu verkefnum sem við erum að taka ákvarðanir um á Alþingi. Fyrirspurnum mínum um lögbundin verkefni er svarað af forstjóra Sjúkratrygginga Íslands sem veit ekki hvort kostnaðurinn hjá stofulæknum er réttur eða ekki. Þetta er vandinn sem við glímum við með þessa ríkisstjórn og við verðum að fá eitthvað betra.