151. löggjafarþing — 103. fundur,  31. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[13:55]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Í því ástandi sem við erum núna, þegar við sjáum glitta í endalok samkomutakmarkana og opnara aðgengi fyrir ferðamenn, þarf stefnu til framtíðar, en því miður skila stjórnvöld auðu. Við vitum að allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að draga úr atvinnuleysi hafa ekki skilað nægilega góðum árangri og staðan er erfið, því er ekki að neita. Það sem er enn erfiðara er að sjá öll glötuðu tækifærin. Á meðan atvinnuleysi stefndi í 10% á síðasta hausti náði Tækniþróunarsjóður ekki nema að fjármagna 8% umsókna. Það fór allt of lítið af peningum í Loftslagssjóð sem hefði líka getað skapað rými fyrir nýsköpun á sviði loftslagsverndar. Það er svo mikið af glötuðum tækifærum hér, virðulegi forseti. Við hefðum getað notað nýsköpun, styrk til fólksins, til þess að koma okkur út úr þessu ástandi en því miður þá möllum við áfram í sama farinu með þessa fjármálaáætlun. Því getum við ekki stutt hana í von um að við horfum fram á bjartari tíma, með aðeins auðugra ímyndunarafli, fram undan.