151. löggjafarþing — 103. fundur,  31. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[14:01]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Sú fjármálaáætlun sem við samþykktum í desember, og geymir stefnumörkun málefnasviða, fjárlög þessa árs, fjáraukalög og þessi áætlun sem við greiðum atkvæði um hér endurspegla vel umfangsmikla innviðauppbyggingu allt kjörtímabilið og kröftug viðbrögð og aðgerðir vegna heimsfaraldursins. Áætlunin dregur líka skýrt fram hagstjórnaráherslur hins opinbera og stefnu ríkisstjórnarinnar hingað til og í gegnum faraldurinn og út úr honum. Ríkisfjármálunum er beitt af krafti með áherslu á fólk, fyrirtæki, velferð, fjárfestingar og nýsköpun, en þessi áætlun felur líka í sér ábyrga stefnu sem fyrr. Setjum markið á að stöðva skuldasöfnun og ná jafnvægi í ríkisfjármálin, ná fyrri styrk þannig að ríkissjóður geti ávallt sinnt hlutverki sínu og mætt aðstæðum hverju sinni með öflugu viðbragði þegar á þarf að halda.