151. löggjafarþing — 103. fundur,  31. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[14:02]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Við erum með flokk í fjármálaráðuneytinu sem berst fyrir ráðdeildarsemi í opinberum fjármálum en getur í raun ekki sagt okkur hvað opinber þjónusta kostar, bara svona heildarkostnaðinn, ekki sundurliðað, alls ekki. Þegar við biðjum um upplýsingar um áhrifin af viðbrögðum ríkisstjórnarinnar við Covid eru svörin bara: Það er til fullt af skýrslum um það hvað búið er að setja mikið af peningum hingað og þangað. En við erum að spyrja um hver áhrifin séu af þeim fjárútlátum. Þar fáum við aldrei svör. Þannig er fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar líka. Það eru engar útskýringar á því hvernig gengur með stefnuna og það er eitthvað sem ríkisstjórnin á ekki að komast upp með, því sleppir hún í þessari fjármálaáætlun.

Varðandi breytingartillögur Pírata er um að ræða samansafn breytingartillagna sem Píratar hafa lagt fram í gegnum fjárlög á þessu kjörtímabili, að tveimur tillögum undanskildum, þ.e. í loftslagsmálum og að því er varðar halla Landspítalans – háskólasjúkrahúss. Þar eru ákveðnar grunnleiðréttingar (Forseti hringir.) sem þarf að taka tillit til og ef fólk samþykkir ekki hinar tillögurnar, er þegar búið að segja nei við þeim, þá er mér alveg sama, þetta er bara ákveðin samantekt. En aftur á móti væri áhugavert að sjá atkvæðagreiðslu um hinar tvær.