151. löggjafarþing — 103. fundur,  31. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[14:04]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er nánast um endurtekningu á síðustu fjármálaáætlun að ræða, hún er eingöngu uppfærð í takti við nýja þjóðhagsspá. Flokkur fólksins er með nokkrar breytingartillögur við þessa áætlun sem allar miða að því að eyða biðlistum í heilbrigðiskerfinu og hjálpa þeim sem eru hjálpar þurfi í samfélaginu. Það verður mjög spennandi að sjá hvernig þetta verður nú þegar hæstv. fjármálaráðherra segir að verið sé að beita ríkisfjármálunum af miklum krafti. Til að hjálpa hverjum? spyr Flokkur fólksins. Vantar fjármagn til að greiða atkvæði með tillögu Flokks fólksins? Nei, það þarf að forgangsraða fjármunum fyrir fólkið fyrst. Það er ljótt að skilja einhvern út undan og þess vegna skora ég á okkur hér að taka utan um alla og sýna úr hverju við erum gerð og fyrir hverja við erum raunverulega að vinna. Fólkið fyrst.