151. löggjafarþing — 103. fundur,  31. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[14:09]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):

Herra forseti. Loftslagsbreytingarnar og aðgerðir til að sporna við þeim eru stærsta viðfangsefni mannkyns og við verðum að fara að taka þau miklu fastari og ákveðnari tökum. Samfylkingin er sá stjórnmálaflokkur á Alþingi sem ætlar sér að setja mestu fjármunina beint í umhverfis- og loftslagsmál. Við leggjum til 5 milljarða kr. aukningu á ári 2023–2026 til umhverfis- og loftslagsmála þar sem fjármagn yrði sett í að flýta orkuskiptum, bæta almenningssamgöngur, styrkja hringrásarhagkerfið og græna matvælaframleiðslu og fullvinnslu á loftslagsvænum matvælum, gera breytingar á styrkjaumhverfi landbúnaðarins og styðja íslenska stjórnsýslu til að verða grænni. Auk þessa leggjum við til fjárframlag til græns fjárfestingarsjóðs og í græna nýsköpun og leggjum jafnframt til að kolefnisgjald verði hækkað í takt við meðmæli Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og OECD og leggjum til auknar styrkveitingar og lán á hagstæðum kjörum til grænna orkuskipta í mengandi iðnaði. Ég hvet þingheim til að sýna kjark og dug og samþykkja þessa breytingartillögu.