151. löggjafarþing — 103. fundur,  31. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[14:17]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Húsnæði er fyrst og fremst umgjörð um það sem við köllum heimili og er eitthvað sem snertir okkur öll. En húsnæðismarkaðurinn snertir líka efnahagslífið og hefur áhrif á það og við höfum einfaldlega búið við allt of sveiflukenndan markað. Þess vegna er mjög mikilvægt að horfa langt fram í tímann og vinna gegn spennu og tryggja viðvarandi stöðugleika. Það getum við. Við höfum mannfjöldaspár og við höfum ýmislegt sem gerir okkur kleift að gera það. Einn mikilvægur þáttur í þessu er að tryggja nægt framboð. Það þarf að byggja 3.000 íbúðir á ári fram til ársins 2030 og markaðurinn mun ekki leysa þetta einn. Við þurfum líka að koma að uppbyggingu óhagnaðardrifinna leiguíbúða og félagslegs húsnæðis. Ég skora á alla þingmenn að hætta að draga lappirnar og leggja þann peninga sem þarf í þennan málaflokk.