151. löggjafarþing — 103. fundur,  31. maí 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[17:15]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir andsvarið. Mér datt í hug þegar þingmaðurinn fór að tala um hafrannsóknir að ég hef stundum sagt við blessaða fiskifræðingana, sem eru allir af vilja gerðir en þeir fullyrða stundum svolítið um hlutina, að þegar þeir eru hættir að tala um fiskstofnana í kringum landið eins og þeir séu að horfa í gegnum fiskabúr þar sem menn geti talið fiskana og byrja að efast um þá yfirsýn, þá fari ég að hlusta á þá. En þetta er nú gráglettni.

Í sambandi við lúðuna er rétt að ég benti á þetta hérna í ræðu um daginn og ég hef líka farið í fyrirspurn við núverandi sjávarútvegsráðherra og held ég einhverja sjávarútvegsráðherra sem voru á undan. Þeir eru í raun og veru reknir til baka frá Hafró með þetta, blessaðir, það komi ekki til greina að fara að leyfa þessa löndun, mest vegna þess að ekki sé búið að rannsaka þetta nóg og kallað er eftir meira fjármagni. Það hefur verið sagt. Beinar veiðar í hvítlúðu voru bannaðar 2011, held ég, og síðan voru gefnar út reglugerðir um löndun á meðafla. Löndun meðafla á króka, það eru aðallega línuveiðar, var breytt 2012 þannig að það má enga lúðu koma með sem meðafla og þó að hún komi dauð upp á að henda henni í sjóinn. Þetta er brottkast. Þetta er ekkert annað en brottkast. Þess vegna er ég að undirbúa þingsályktunartillögu um að þetta verði skoðað betur. Ég tel alveg víst að hægt sé að fá betra yfirlit yfir það hvað kemur mikil lúða á land ef löndun á henni sem meðafla verður leyfð. (Forseti hringir.)

Spurninguna (Forseti hringir.) um kostnað og vilja skal ég ræða í seinna andsvari.