151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

störf þingsins.

[13:03]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Hvað eru bestu þingmálin? Það eru þingmál sem skipta bæði máli fyrir börn og barnafjölskyldur, ekki síst þeirra sem hafa minna fé á milli handanna. Ég hef nú lagt fram slíkt mál, mál um gjaldfrjálsar tannréttingar barna. Tannlækningar barna voru gerðar að fullu gjaldfrjálsar árið 2018 undir forystu Guðbjarts heitins Hannessonar, en nú er komið að tannréttingum. Tannréttingar barna geta hæglega kostað barnafjölskyldur yfir milljón og geta jafnvel í sumum tilvikum kostað allt að 2 millj. kr. fyrir eitt barn. Foreldrar bera núna kostnaðinn og efnaminni foreldrar veigra sér jafnvel við að ráðast í tannréttingar barna sinna vegna efnahags.

Herra forseti. Það er fullkomlega óboðlegt að börnum sé mismunað eftir efnahag foreldra þegar kemur að tannréttingum. Tannréttingar barna eru nefnilega líka heilbrigðisþjónusta fyrir börn. Áætla má að kostnaður við gjaldfrjálsar tannréttingar barna geti numið um 1,5 milljörðum en núna lendir þessi kostnaður hjá barnafjölskyldum. Fram til ársins 1992 var verulegur hluti tannréttingakostnaðar endurgreiddur, sem er ekki lengur raunin. Í dag er hægt að fá að hámarki 150.000 kr. styrk sem dugar skammt þegar algengur kostnaður getur numið milljón og jafnvel meira. Þessi styrkupphæð hefur ekki breyst í 20 ár en ef styrkurinn hefði fylgt verðlagi væri hann um 340.000 kr. í dag en ekki 150.000. Á Norðurlöndum eru tannréttingar barna styrktar mun meiri á Íslandi. Hér erum við eftirbátar.

Að lokum, herra forseti: Við skulum muna eftir sorg þeirra barna sem fá ekki tannréttingar eins og önnur börn. Tökum því þetta eðlilega skref saman og jöfnum leikinn fyrir öll börn.