Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

störf þingsins.

[13:05]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Stundum sér maður eitthvað sem verður til þess eiginlega að mann setur hljóðan. Á hvaða heilafoksfundi skyldi hafa komið upp sú hugmynd að láta lögmann á virðulegri lögmannsstofu senda hæstv. menntamálaráðherra bréf í valdsmannslegum kansellístíl með ábúðarfullum þéringum og spurningum sem ráðherranum er gefinn frestur til að svara, án þess að afleiðingar þess að hunsa þann frest séu nánar tilgreindar, allt út af fyrirspurn sem hún svaraði í þessum stól frá mér um það hvort hún styddi Ríkisútvarpið sem heyrir undir þann ráðherra. Hæstv. ráðherra sagðist gera það og notaði síðan orðalag sem forsvarsmenn Samherja hafa sjálfir notað um sína framgöngu í afsökunarbeiðni sem þeir sendu út í kosmósið, að þeir hefðu gengið of langt. Fyrir þau orð er ráðherrann krafin sagna með sérstöku lögmannsbréfi í ábyrgðarpósti, væntanlega, eins og hér sé jafnvel til skoðunar að hún hafi brotið einhver lög með ummælum sínum. Það verður að segjast eins og er að það er ákaflega sérkennilegt samskiptaform að standa í bréfaskiptum af þessu tagi og lýsir hugsunarhætti manna sem telja sig ekki ríki í ríkinu heldur ríki yfir ríkinu.

Kannski er rétt að það komi fram, svo ekki fari neitt á milli mála, að alþingismenn heyra ekki undir Samherja. Alþingismenn sækja ekki til Samherja umboð sitt til starfa hér heldur til kjósenda, til almennings í landinu. Alþingismenn skulda Samherja engar skýringar á ummælum sínum sem falla í ræðustól hér og lúta að framgöngu og ummælum sem þegar liggja fyrir.