151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

störf þingsins.

[13:07]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Í gær vorum við að afgreiða fjármálaáætlun ríkisstjórnar til næstu fjögurra ára. Í henni kemur skýrt fram að kjör þeirra sem verst hafa það í almannatryggingakerfinu munu versna enn meira ef sama ríkisstjórn verður áfram við völd eftir kosningar. Það eina sem þeim sem verst hafa það í almannatryggingakerfinu er boðið upp á í fjármálaáætlun til ársins 2026 er sama gamla skerðingin á lífeyrislaun. Eina hækkunin til þeirra sem eru að reyna af fremsta megni að lifa í kerfinu er vísitöluhækkun en engar leiðréttingar á kjaragliðnun. Kjaragliðnunin er nú 50% og það er sú hækkun sem þeir sem eru á almannatryggingum eiga inni. Hún mun aukast enn meira í boði ríkisstjórnar næstu fjögur árin. Þá er ótalin sú skattahækkun sem orðið hefur með því að persónuafsláttur hefur ekki fylgt launaþróun í landinu. Það ásamt auknum keðjuverkandi skerðingum veldur því að þeir verst settu í okkar ríka samfélagi þurfa að lifa á um 200.000 kr. á mánuði eftir skatt og þeir verst settu eru enn með krónu á móti krónu skerðingar. Það er svo furðulegt fjárhagslegt ofbeldi að þessi hungurlús þeirra sé skattlögð og það meira en arður auðmanna, sem verða sífellt ríkari og ríkari á meðan sárafátækir verða fátækari og eiga enn síður fyrir mat. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa lofað því og lofað fyrir kosningar að nú sé tími til að hækka lífeyri þeirra fátæku. Þessir hópar geta ekki beðið lengur. Það eina sem hefur skilað sér til þeirra sem reyna að tóra hálfan mánuð á fátæktarlaunum er að þeir tóra núna í viku og munu varla ná einum degi eftir fjögur ár ef þessi ríkisstjórn verður enn við völd. Hvers vegna er arður auðmanna ekki skattaður og skertur allt frá 75–100% eins og laun almannatrygginga og lífeyrissjóðslaun? Hvers vegna er ekki 350.000 kr. skatta- og skerðingarlaus lágmarksframfærsla? Hvers vegna er ekki frítekjumark lífeyrisþega að lágmarki 100.000 kr. mánuði? Hvers vegna erum við að banna fólki að vinna, og það er gert með sköttum og skerðingum, í stað þess að fólk vinni án skerðinga og borgi bara skatta?

Flokkur fólksins er með frumvörp um allt þetta og segi ég með þeim: Sárafátækt fólk fyrst, því að þeirra tími er löngu kominn.