Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

störf þingsins.

[13:13]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Almannatengsl, fyrirtæki sem heitir Samherji, nálgast það nú óðfluga að ná einhvers konar farsakenndu stigi með nýlegri efsökunarbeiðni sem var reyndar ekki afsökunarbeiðni af neinum heilindum eftir því sem ég fæ best séð. Það er hvorki vitað hverju var verið að biðjast afsökunar á né fyrir hvern. Og hvergi kemur fram hvað fyrirtækið ætlar að gera öðruvísi í framtíðinni, hverju fyrirtækið ætlar að breyta. Nú er það ekkert leyndarmál og það hefur oft verið farið yfir það að forstjóri fyrirtækisins, Þorsteinn Már Baldvinsson, sem er góður vinur hæstv. sjávarútvegsráðherra og sjávarútvegsráðherra, hefur með réttu sagst vera vanhæfur í málefnum Samherja, sem er gott og gilt. Vandinn er þessi: Framganga Samherja krefst þess að við séum með sjávarútvegsráðherra sem getur tekið á sjávarútvegsmálum án þess að hlutir eins og vinahagsmunir þvælist fyrir. Í því felst ekki ásökun á hendur hæstv. ráðherra um eitt eða neitt, jafnvel mögulega þvert á móti, að hann geti ekki sinnt starfi sínu og geti ekki gert hlutina vegna þess að hann er vanhæfur og ef hann snerti þá veki það upp spurningar sem ætti að vera óþarfi að spyrja. Þetta ætti að vera augljóst, virðulegi forseti. Það er fráleitt hvernig við hefjum umræðuna í íslensku samfélagi um það hvort lýsa eigi yfir vantrausti eða hvort hann hafi gert eitthvað rangt.

Virðulegur forseti. Þetta snýst ekki um það. Þetta snýst um stöðuna og trúverðugleika stöðunnar. Hæstv. ráðherra ætti ekki að þurfa að heyra neinar skammir héðan úr pontu. Hann ætti að hafa vit á því sjálfur að í það minnsta skipta um embætti eða fara úr því tímabundið eða eitthvað, ekki vegna þess að hann geri eitthvað rangt, ekki vegna þess að hann eigi að vera spilltur, heldur vegna þess að hann er bersýnilega vanhæfur og hann veit það og við vitum það og við sjáum það. Frumkvæðið ætti að koma frá hæstv. ráðherra sjálfum.