151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

störf þingsins.

[13:15]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Nú er ferðaþjónustan að taka við sér á ný og það er fagnaðarefni. Það þýðir að við erum að koma okkur út úr erfiðum heimsfaraldri og lífið er að færast í samt horf. Það þýðir líka að fram undan er einstakt tækifæri til að endurhugsa heila atvinnugrein og bæta það sem betur mátti fara áður en heimsfaraldur skall á. Ég sá í grein á dögunum að ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefði skipað starfshóp um menntun og starfsþjálfun leiðsögumanna síðastliðið haust. Starfshópurinn fékk það verkefni að skoða hvort og þá hvernig hægt væri að styrkja og efla menntun og starfsþjálfun leiðsögumanna með áherslu á neytendavernd, náttúruvernd og öryggi. Það er nefnilega gríðarlega mikilvægt að þau sem starfa við leiðsögn fái viðunandi menntun og fræðslu og geti sýnt fram á þekkingu á landi og náttúrunni sem um er farið. Tungumálakunnátta er einnig afskaplega mikilvæg hér líkt og víða annars staðar enda lykilatriði að leiðsögumenn geti tekið við og miðlað upplýsingum á skýran hátt. Að mínu mati á þetta sérstaklega við á svæðum innan þjóðgarða og á friðlýstum svæðum þar sem gera ætti aukna kröfu um þekkingu og helst viðurkenningu til starfans. Náttúran okkar er það sem dregur langflesta ferðamenn hingað til lands og það er okkur öllum í hag að tryggt sé að vel um hana sé gengið. Í ljósi þess sem ég hef hér áður sagt í pontu Alþingis og átt samskipti við ráðherra þessa málaflokks um, get ég ekki annað en sagt og hvatt til þess að hugað sé að lögverndun starfsheitis leiðsögumanna eða a.m.k. að tilskilin starfsréttindi séu grundvöllur þess að starfa sem leiðsögumaður, af því að öryggismál eru líka stór þáttur í ferðamennsku á Íslandi, bæði öryggi ferðamanna og leiðsögumanna. Við þurfum að tryggja að öryggi sé sem allra best og það getum við gert m.a. með aukinni menntun og fræðslu. Ég hvet því ráðherrann til dáða í þessum efnum, að styrkja menntun leiðsögumanna svo hér verði ferðaþjónusta í heimsklassa þar sem komið er fram við náttúruna af virðingu og að vernd hennar sé í forgangi.