Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

störf þingsins.

[13:17]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Menntamálaráðherra svaraði í liðinni viku fyrirspurn minni um námsárangur pilta og stúlkna í skólakerfinu. Í svarinu koma fram sláandi upplýsingar, ekki síst tölur um verulegan kynjahalla sem kalla á skýringar og aðgerðir. Um námsárangur grunnskólanemenda segir að frammistaða stúlkna í öllum námsþáttum sé að jafnaði marktækt betri en frammistaða drengja. Á framhaldsskólastigi birtist mikill munur á kynjum þegar litið er til brautskráningar. Með vísan til gagna Hagstofu Íslands kemur fram að 35% fleiri stúlkur en piltar brautskráðust með almennt stúdentspróf skólaárið 2018–2019. Sama skólaár brautskráðust 77% fleiri piltar en stúlkur með próf úr iðnnámi. Fram kemur að háskólamenntuðu fólki hefur fjölgað á síðustu árum en þróunin hefur verið ólík eftir kynjum. Ríflega helmingur kvenna á aldrinum 25–64 ára hefur lokið háskólagráðu á móti 35% karla. Samkvæmt nýlegri könnun í 28 ríkjum Evrópu eru konur alls staðar í meiri hluta nemenda eins og hér á landi en hlutfall karla þó hvergi lægra en hér. Kynjahlutfall nemenda við HÍ er nú 32% karlar og 68% konur, þeir ná ekki þriðjungi nemenda. Almennt hverfa drengir frekar brott úr framhaldsskóla en stúlkur. Af svari um brotthvarf nýnema sést að brotthvarf drengja sé meira en stúlkna, með hlutfallinu þrír drengir fyrir hverjar tvær stúlkur. Þá kemur fram um brotthvarf nemenda sem hafa horfið frá námi fjórum árum eftir innritun að brotthvarf pilta er töluvert hærra en stúlkna.

Stúlkum virðist almennt ganga að mörgu leyti vel í skólakerfinu og er það gleðiefni. En svara þarf hvers vegna drengjum vegnar áberandi síður vel á sama vettvangi. Er þetta það jafnrétti sem við sækjumst eftir? Þessi halli yrði ekki þolaður ef hann væri á hinn veginn.

Herra forseti. Við mótun nýrrar menntastefnu þarf Alþingi að taka fast á þeim brotalömum í skólakerfinu og kynjahalla sem svar ráðherra ber með sér.